2004-05-28 01:23:04# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[25:23]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var kannski ekki að bera upp á hv. þm. að hann hafi farið með rangt mál. Ég var að vekja athygli á því í mínu máli að í okkar dýra landi Íslandi skera landbúnaðarvörurnar sig ekkert frá öðrum vörum. Landbúnaðarvörurnar hérna eru ekkert hlutfallslega dýrari en margt annað í okkar þjóðfélagi. Það held ég að sé alveg ljóst. Það er einhvern veginn svoleiðis að margt á Íslandi virðist vera 25%--40% dýrara en annars staðar og það er ekkert síður innflutningurinn sem þar á í hlut, að varan hækki í hafi og svo framvegis. Ég var að vekja athygli á því að þetta á við á mörgum öðrum sviðum og menn verða þá að tala um það í sama pakkanum allt saman.

Ég get verið sammála því sem hv. þm. spurði um. Auðvitað geta stjórnvöld gripið til aðgerða. Ég tel að við séum hér að grípa til aðgerða. Ég tel að mjólkuriðnaðurinn hafi verið rekinn þannig að hans vörur hafi lækkað. Það hafa verið settar þvingur á mjólkuriðnaðinn. Við eigum þessar leiðir. Það er samkeppni og það er auðvitað hvað tollana varðar. Við vitum að hér hefur verið gengið til alþjóðlegra samninga og hafinn innflutningur á landbúnaðarvörum sem veita bæði aðhald um að menn keppa í gæðum við framleiðslu og líka þrengir það að því að menn hafa lækkað verð. Það er ein leiðin. Það er því sjálfsagt allt saman rétt og satt sem þar stendur. En landbúnaðurinn hér eins og í Evrópu þarf sína sérstöðu.