2004-05-28 01:25:20# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[25:25]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég hafði óskað eftir andsvari. En eftir að hafa hlýtt á hæstv. ráðherra sá ég að ég mundi aldrei koma því á framfæri sem ræða hæstv. ráðherra gaf tilefni til þannig að ég ákvað að breyta því í ræðu.

Hæstv. ráðherra byrjaði á því að tala um að hann óskaði eftir sanngirni í umræðum, hann óskaði eftir því að menn væru sanngjarnir og vildi hafa umræðuna málefnalega. En að þeim orðum sögðum hófst samfelldur útúrsnúningur sem ég held að hafi staðið í hátt í 15 mínútur eða svo á meðan ræða hæstv. ráðherra gekk yfir.

Hæstv. ráðherra byrjaði á að tala um réttaróvissuna og eftir að hafa greint í reyknum orðin sem hæstv. ráðherra var að reyna að koma á framfæri þá er réttaróvissan fólgin í því að hæstv. ráðherra gerði samning sem fór gegn þeim lögum sem giltu í landinu. Það er ekki réttaróvissa. Það er einhver einstakur auladómur í ráðuneytinu ef menn eru að gera samninga sem ekki standast lög. (Landbrh.: Þetta er útúrsnúningur.) Þetta er nákvæmlega það sem hæstv. ... (Landbrh.: Þetta er bara útúrsnúningur.) Hæstv. ráðherra sagði að samningarnir kvæðu á um að menn væru undanþegnir samkeppnislögum en lögin kveða á um annað. Þetta sagði hæstv. ráðherra hér í ræðustól. (Landbrh.: Útúrsnúningar.) Þetta sagði hæstv. ráðherra og þess vegna er þetta ekki réttaróvissa heldur eru þetta mistök í samningsgerð þannig að menn séu með þetta alveg á hreinu.

Síðan er nauðsynlegt að leiðrétta hæstv. ráðherra enn frekar. Hæstv. ráðherra talaði um að ef samkeppnislögin giltu þá væri mjólkuriðnaðurinn farinn fjandans til. Samkeppnislögin hafa gilt alveg til dagsins í dag að því undanskildu að mjólkuriðnaðinum hefur verið heimilt að stunda verðtilfærslu og ýmis svona sérstök vinnubrögð. Það hefur enginn hér, hvorki sá hv. þm. sem hér stendur, Ásgeir Friðgeirsson né nokkur annar hv. þingmaður, gert athugasemdir við þetta. Athugasemdirnar fólust í þeim umframheimildum sem nú er verið að leyfa, það er að segja að heimila verðsamráð og heimila uppskiptingu á mörkuðum. Þar liggur gagnrýnin. Hún er ekki á þá félagslegu starfsemi sem áður var. Og svo til viðbótar er verið að afnema hið opinbera verðlagseftirlit á verði til framleiðenda. Um tíma í ræðu hæstv. ráðherra taldi ég nokkuð víst að hann hefði ekki verið heima meðan frumvarpið var samið vegna þess að reyndar í því máli sem hér verður tekið fyrir á eftir --- en þetta tengist óhjákvæmilega því máli --- segir, með leyfi forseta. Ég ætla að lesa beint upp úr greininni:

,,Verði samið um að falla frá ákvörðun um lágmarksverð á mjólk til framleiðenda samkvæmt heimild í 1. mgr. 8. gr. hefur slík ákvörðun ekki áhrif á heimild verðlagsnefndar til heildsöluverðlagningar ...``

Í frumvarpinu er sem sagt kveðið á um heimild til að semja sig undan verðlagsnefnd þegar tekin er ákvörðun um verð til framleiðenda.

Síðan getum við flett nokkrum síðum aftar í frumvarpinu þar sem samningurinn fylgir. Hvað segir svo í samningnum? Í samningnum segir, með leyfi forseta:

,,Jafnframt að leitað verði samþykkis Alþingis fyrir breytingum á lögunum, þannig að samningsaðilar geti samið um það sín á milli að hætt verði að ákveða lágmarksverð mjólkur til framleiðenda, enda þótt heildsöluverð verði áfram ákveðið af verðlagsnefnd.``

Þetta segir í samningnum. (Gripið fram í.) Þetta segir í samningnum.

Virðulegi forseti. Það er breyting frá því sem nú er og frá því kerfi sem ég hef í raun ekki heyrt nokkurn gagnrýna af því að við erum að ræða um starfsemi sem er lögvernduð og er einokunarstarfsemi eða nýtur tiltekinnar verndar. Verðmyndunin er þá langeðlilegust undir opinberu eftirliti. En nú á að afnema það. Það er það sem er verið að gagnrýna. Nú verður hins vegar ákvörðunin tekin á milli afurðastöðva og framleiðenda einna og sú ákvörðun verður síðan kynnt verðlagsnefnd. Það er það sem verið er að gagnrýna. Það er verið að taka verðlagsnefndina úr sambandi hvað þetta varðar og þar liggur okkar gagnrýni. Þar liggur okkar gagnrýni í þessari umræðu. Þess vegna höfum við mótmælt þessari aðferð harðlega. Það er búið að gera samning um að kippa þessu undan. Það er verið að veita þessa heimild í lögunum þannig að það er alveg með ólíkindum að hlýða á hæstv. ráðherra í þessu máli.

Ég hefði viljað að hæstv. ráðherra gæfi sér tíma til að vera í þingsal rétt á meðan við eigum þessi orðaskipti. En hæstv. ráðherra hefur valið þann kostinn að lauma sér út.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að vitna í Vinnuna, það er að segja vefrit Alþýðusambands Íslands. Þar er vitnað í niðurstöðu hinnar svokölluðu mjólkurnefndar sem skilaði frá sér niðurstöðu um daginn. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,... á síðustu árum hefði ávinningur af hagræðingu í mjólkurframleiðslu fyrst og fremst runnið til eigenda afurðastöðva, en síður til neytenda.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Á sama tíma hafa skattgreiðendur og neytendur þurft að bera nánast sömu byrði vegna mjólkurframleiðslu í landinu. Styrkir úr ríkissjóði til atvinnugreinarinnar hafa t.d. hækkað um 3,1% að raungildi. Þá hefur heildsölu- og smásöluverð ...``

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr Vinnunni, virðulegi forseti, og vonast til þess að hæstv. landbúnaðarráðherra gefi sér tíma til þess að dvelja um hríð í salnum. En svo segir:

,,Þá hefur heildsölu- og smásöluverð mjólkurafurða hækkað nokkurn veginn jafnmikið og almennt verðlag (og um leið mun meira en matur og drykkjarvörur almennt).``

Virðulegi forseti. Ég sá að hæstv. ráðherra var ekki einbeittur eða hlýddi ekki á það sem ég var að lesa þannig að ég vil leyfa mér að lesa þetta upp aftur. Hér segir í skrifum ASÍ, með leyfi forseta:

,,Þá hefur heildsölu- og smásöluverð mjólkurafurða hækkað nokkurn veginn jafnmikið og almennt verðlag (og um leið mun meira en matur og drykkjarvörur almennt).``

Mér finnst mikilvægt að þetta liggi fyrir vegna orða hæstv. ráðherra um að þær vörur sem eru seldar á almennum markaði og lúta þeim reglum hafi hækkað miklum mun meira. Hæstv. ráðherra verður þá að hrekja fullyrðingar ASÍ hvað þetta varðar með öðrum dæmum en þeim sem hann var með.

Virðulegi forseti. Það er nú farið að líða á nóttina. Ég vildi aðeins hnykkja á þessum atriðum. Í reynd er það þannig að ef hæstv. ráðherra er að fallast á þau sjónarmið okkar að verðlagsnefndin haldi þeirri stöðu sem hún hefur haft þá held ég að styttra sé á milli okkar í sjónarmiðum en ég taldi í upphafi þessarar umræðu og eins og frumvarpið er lagt fram. Og eins og hæstv. ráðherra orðaði það sjálfur um daginn þá er batnandi mönnum best að lifa og það er ekkert að því að vera vitrari í dag en í gær. Ég fagna því að hæstv. ráðherra situr núna og einbeitir sér alveg fullkomlega að því kynna sér efni þess frumvarps sem hann hefur mælt hér fyrir.