2004-05-28 02:02:54# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[26:02]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gaman að hlusta á hv. þm. því maður sá það náttúrlega að fulltrúar Samfylkingarinnar sem höfðu talað höfðu farið það langt út á hægri kantinn að hv. þingmaður þurfti að rúlla sér til baka. Ég var því farinn að óttast að garnaflækja yrði niðurstaðan í lok snúninganna.

Ég vil vekja athygli á því að mér finnst eins og fulltrúar Samfylkingarinnar tali í þessari umræðu eins og allur mjólkuriðnaðurinn sé undanþeginn samkeppnislögum. Það er mjög rangt. Meira en 50% af afurðum mjólkuriðnaðarins heyra undir samkeppnislög. Hér er bara verið að undanskilja mjólkina, rjómann, skyrið og brauðostinn. Allt annað heyrir undir samkeppnislög, fellur undir samkeppnislög og er í samkeppni. Fallegu ostarnir hérna frammi á borði í eldhúsinu sem menn hafa verið að smakka í kvöld heyra allir undir samkeppnislög. Mjólkuriðnaðurinn fellur því, hv. þm., að stórum hluta undir mikla samkeppni þó þessar tilgreindu vörur séu undanþegnar m.a. út frá hagsmunum neytenda sem við berum öll fyrir brjósti. Það þarf ekkert að berja okkur með því að við séum ekki að hugsa um neytendur. Vissulega erum við að því. Þetta verður að vera alveg ljóst við þessa umræðu.

Ég talaði hér um Osta- og smjörsöluna. Hv. þm. talaði eins og mjólkuriðnaðurinn sé að renna í eitt fyrirtæki. Það hefði getað gerst ef þeir hefðu ekki mátt hafa samstarf sín á milli að þeir hefðu orðið að renna því í eitt fyrirtæki.

Ég minntist á Osta- og smjörsöluna sem er samráðsfyrirtæki þeirra, að hún hefði jafnvel ekki fengið að starfa undir samkeppnislögum. Ýmsir úr verkalýðshreyfingunni, t.d. ASÍ-menn, hafa stundum talað um að mjólkuriðnaðurinn ætti kannski að fara í eitt fyrirtæki. Bændurnir sumir eru að tala um það. Ég tel núna að það sé samkeppni innan lands. Við höfum Mjólkurbú Flóamanna, Norðurmjólk á Akureyri, Kaupfélag Skagfirðinga, Mjólkursamsöluna og þau fyrirtæki sem undir henni eru þannig að það er heilmikil samkeppni innan þessara fyrirtækja.