2004-05-28 02:05:12# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[26:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var einmitt í ræðu minni áðan að mæra það hvernig samkeppni milli þessara stöðva hefði þó tekist (Gripið fram í.) að ná árangri sem er töluvert meiri en víðast hvar annars staðar í atvinnulífi. Ég er eigi að síður þeirrar skoðunar að þau lög sem kunna að verða og verða að öllum líkindum samþykkt geri það að verkum að iðnaðurinn verður meira og minna eins og eitt stórt fyrirtæki sem skipt er í deildir og bara sá einbeitti vilji hæstv. ráðherra að koma í veg fyrir að samkeppnislög gildi um þetta staðfestir það að mínu viti. (Landbrh.: Um hvað?) Um flesta hluti. En eitt finnst mér, herra forseti, skipta langmestu máli, og ég vil ráðleggja það í fullri vinsemd, hæstv. landbrh., af því að þó ég sé þrátt fyrir allt í samkeppni við Framsfl. þá veit ég að Framsfl. er að berjast fyrir því að endurskapa sig og rótfesta sig ekki bara í sveitunum heldur á mölinni líka: Hann verður að endurvekja hina gömlu hugsun Jónasar frá Hriflu sem er sú að taka tillit til bæði hagsmuna bænda sem er sjálfsagt að gera, en líka hagsmuna neytenda. Mér finnst að hægt hefði verið fyrir hæstv. landbrh. að setja í þetta mynstur sem hann er að fá þingið til að lögfesta miklu tryggari varnagla fyrir lækkun vöruverðs til neytenda en þar er að finna. Ég minni hæstv. ráðherra á að það þurfti fulltrúa Samfylkingarinnar, þó þeir væru ekki á álitinu um þann samning sem hér verður ræddur á eftir, til þess að berja inn þau fjögur markmið í nefndaráliti sem þó er að finna í 3. gr. þess frv. og reyndar í ... (Gripið fram í.) Það eru markmiðin um lækkað vöruverð o.s.frv. þannig að ... (Gripið fram í.) Já, það vorum við sem bentum á það. Það var ég sem benti á að ef skapa ætti einhvern frið um þetta mál þá yrði það algjörlega að koma fram í nefndarálitinu fyrst að ... (Forseti hringir.).