2004-05-28 02:08:44# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[26:08]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst hv. þm. Össur Skarphéðinsson flytja mjög góða ræðu. Hann rétti af frjálshyggjuhallann sem kom fram í máli nokkurra fyrri talsmanna Samfylkingarinnar, en þar gekk lengst í frjálshyggjuáttina hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sem sagði að markaðslögmálin væru algild og ættu að koma að fullu til framkvæmda á sviði landbúnaðarmála. Hafði maður ekki heyrt fagnaðarerindið boðað eins hart og frá því Friedman, Hayek og Buchanan heimsóttu okkur á níunda áratugnum.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson furðar sig á því að ég hafi kokgleypt þau frv. sem hér eru til umfjöllunar. Það sem ég hef kokgleypt er vissulega stefna BSRB í landbúnaðarmálum. Annað hef ég kokgleypt líka. Það er virðingin fyrir bændum og samtökum þeirra og samningum sem þeir hafa gert. Hins vegar vil ég taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. að brotalamir hafa verið í þessari frumvarpssmíð sem lúta annars vegar að aðgangi að upplýsingum. Hins vegar er það líka rétt sem fram kom í máli hans, að ekki hefur verið nægilega búið að aðkomu að verðlagseftirlitin. En ég hef trú á því að úr því verði bætt.