Raforkulög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 09:31:36 (9338)

2004-05-28 09:31:36# 130. lþ. 130.27 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv. 89/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[09:31]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér sýnist menn hafa tekið ýmsar skynsamlegar ákvarðanir í nefndinni um breytingar á frv. sem hér er til staðar. Mér finnst samt enn vanta afar þýðingarmikinn þátt í þetta mál sem helst megi lýsa þannig að menn hafi ákveðið að byggja hús og séu búnir með kjallarann og þá halda þeir reisugildi. Því að á meðan ekki verður tekið á eignarhaldi og því skipt hvað varðar þessi málefni þá verður náttúrlega engin alvörusamkeppni í gangi og það sem snýr að gjaldskrám og samkeppni verður ótrúverðugt. Ég hefði viljað sjá að tekið hefði verið á og sett fram með einhverjum skýrum, beinum hætti hvernig eignarhaldið á að vera á Landsvirkjun í framtíðinni. Þetta er ótækt eins og nú þar sem helmingurinn er í eigu ríkisins og hinn helmingurinn í eigu tveggja sveitarfélaga, og í Landsvirkjun hafa náttúrlega orðið til mikil verðmæti.

Ég spyr þess vegna: Hefði ekki verið nær að menn hefðu stefnt að því strax að sveitarfélögin í landinu hefðu eignast Landsnetið og að þeim sveitarfélögum sem eru inni í Landsvirkjun hefði verið gert kleift að losa sinn hlut þaðan út? Þá hefðu komið upp möguleikar á því að trúverðug samskipti yrðu milli aðalorkuframleiðendanna og þeirra sem flytja og selja raforkuna í gegnum Landsnetið.