Raforkulög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 09:33:47 (9339)

2004-05-28 09:33:47# 130. lþ. 130.27 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv. 89/2004, Frsm. KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[09:33]

Frsm. iðnn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er að vísu rétt að það er ekkert kveðið á um það í þessu frv. eða raforkulögum hvernig eignarhaldi á Landsvirkjun eigi að vera háttað til framtíðar og það er auðvitað möguleiki á því að breytingar verði á eignarhaldi hennar á þessum aðlögunartíma inn í nýtt kerfi sem er næstu sex árin. Það er út af fyrir sig bara pólitískt úrlausnarefni og verður ekki leitt til lykta nema stjórnmálaflokkarnir komi sér saman um það fyrirkomulag. Ég hef ekki neinar upplýsingar um að til standi að neinar breytingar verði á því að öðru leyti en að ég heyri þær raddir frá borgarstjórn Reykjavíkur að áhugi sé á því að skoða það að borgin losi sig eða selji sinn hluta í Landsvirkjun.

Þetta er því hlutur sem er á borði stjórnmálamannanna eins og málið er í heild sinni þannig að ég er ekki neitt hræddur um að það atriði setji málið í uppnám. Ef menn ætla sér að gera breytingar á þessu sviði, á eignarhaldinu, þá hljóta menn að gera það með þeim hætti að þeir raski ekki fyrirkomulaginu sem er verið að taka upp eða samstöðu um það.