Raforkulög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 09:35:16 (9340)

2004-05-28 09:35:16# 130. lþ. 130.27 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv. 89/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[09:35]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað pólitískt verkefni og auðvitað hefði það þurft að liggja fyrir og fylgja með hvernig menn hugsuðu þetta eignarhald til framtíðar og hvernig menn réttu af það sem hefur gerst þegar tvö sveitarfélög hafa átt helminginn af Landsvirkjun. Sá möguleiki er líka til staðar, en verður kannski erfiðari þegar búið er að koma eignarhaldinu fyrir eins og nú verður gert, að taka á þessu þegar menn ætla sér það. Þess vegna átel ég þau vinnubrögð og hef gert það margoft í umræðum um þetta mál að menn skuli ekki hafa sest yfir eignarhaldið á Landsvirkjun og eignarhaldið á þessu dreifingarfyrirtæki sem hér er verið að stofna til og hafi ekki leyst úr þessu máli í tengslum við alla þessa umfjöllun. Ég held að það geti orðið ýmsir erfiðleikar þegar á að taka á þessu eftir umþóttunartímann og ætla ekki að hafa fleiri orð um það hér. En ég harma það að menn skuli ekki hafa haft kjark til þess að fara í þessa göngu eða gefist upp á henni, og að umræða um þetta mál hafi aldrei fengist fram hér í sölum Alþingis þótt ítrekað hafi verið reynt.