Raforkulög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 10:40:41 (9345)

2004-05-28 10:40:41# 130. lþ. 130.27 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv. 89/2004, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[10:40]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Ég ætla að taka undir það að æskilegra hefði verið að taka lengri tíma í þessa umræðu af því að hér er um mikið mál og nokkuð flókið að ræða. En í upphafi máls míns vil ég þakka eins og fleiri ræðumenn formanni nefndarinnar fyrir góða stjórn og einnig starfsmönnum iðnrn. og forstjóra Orkustofnunar fyrir upplýsandi fundi og einnig fleiri gestum og vil ég þar nefna m.a. Egil Hreinsson.

Markmið þessarar lagasetningar er að koma á samkeppnisumhverfi í orkumálum og er hún í raun framhald af ferli sem fór af stað hér fyrir nokkru og lagasetningu sem var sett í fyrra, þann 15. mars, og framhald af Evróputilskipun, eins og fram hefur komið. Eftir því sem ég hef sökkt mér meira niður í þetta mál hefði ég talið að það hefði verið æskilegt að fá undanþágu frá þessari tilskipun vegna þess að í meginatriðum tel ég að hún eigi ekki við hér vegna þess að við erum einangruð hvað varðar orkumarkaðinn og svo eru ýmsir aðrir þættir sem ég ætla að tiltaka í ræðu minni.

Ég er á þessu nál. með fyrirvara og ég hef einkum fyrirvara við þau atriði sem varða að áframhald málsins er í ákveðinni óvissu. Það er ekki kominn neinn botn í það hvernig þessum málum verði fyrir komið og ég tel það að mörgu leyti óásættanlegt og hefði talið að menn hefðu átt að sjá fyrir nánar hvernig útfærsla þessa máls yrði.

Um hvað fjallar þetta mál? Það fjallar um það að menn eru að greina á milli ýmissa þátta í orkukerfinu og kerfinu hefur verið skipt í þrjá meginþætti.

Það er í fyrsta lagi í framleiðsluna, og það má segja að það séu virkjanirnar í landinu.

Síðan er það flutningurinn, og það eru þá flutningsvirkin sem dreifa orkunni hringinn í kringum landið og til bæjanna.

Síðan eru það dreifiveitur sem sjá um að dreifa orkunni inn í hús og inn í fyrirtækin.

En nú er það svo að bæði flutningurinn og dreifingin eru einokunarstarfsemi og verða alltaf einokunarstarfsemi. En mögulegt er að á framleiðslunni verði samkeppni. En nú háttar svo til að framleiðslan er nánast á einni hendi og þess vegna verður kannski ekki um mikla samkeppni í raun að ræða.

Hvaða óljósu þætti hefði maður viljað fá að sjá áður en þetta frv. yrði samþykkt? Það eru einkum þættir sem varða tekjuþakið, en þar er talað um að einokunarþættirnir ættu að vera, að sett yrði ákveðið tekjuþak á þær tekjur sem bæði dreifingin og flutningurinn má taka inn í gjöldum, og það hefði verið miklum mun æskilegra að hreinni línur lægju fyrir í því hvernig kerfið yrði fyrir neytendur.

Annar hluti er þá verðmætamat flutningsvirkjana. Það er eitthvað sem mun koma fram seinna á árinu. Ég hefði talið miklum mun eðlilegra að þessar upplýsingar hefðu legið fyrir og að við hefðum þá síðan tekið afstöðu til þeirra.

En það er margt sem hefur komið fram hér í umræðunni hvað varðar jöfnun á orku og menn hafa verið að tefla fram andstæðum sjónarmiðum hvað varðar landsbyggð og höfuðborg. Þess vegna finnst mér, sem landsbyggðarþingmanni, skylt að minna á það að við erum að ræða um sameiginlegar orkuauðlindir þjóðarinnar og það er í raun sanngirnismál að þjóðin fái að njóta þeirra á sambærilegu verði að einhverju marki a.m.k., sama hvar á landinu fólk býr.

[10:45]

Það er annað sem ég tel að við verðum að ræða hér en það varðar það samkeppnisumhverfi sem við teljum okkur vera að búa til, sem ég tel að sé í rauninni bara einhvers konar sýndarsamkeppni. Staðan er sú, eins og hefur komið fram hér áður, að 90% af allri orkunni eru seld í beinum samningum og við erum í rauninni eingöngu að fjalla um 10% af orkuframleiðslunni og erum að búa til í kringum það heljarinnar batterí sem á eftir að kosta talsverða fjármuni. Ég hefði talið að áður en við færum í slíka vinnu ætti að láta mjög á það reyna og í meira mæli en gert hefur verið hvort það væri hægt að fá undanþágu frá Evróputilskipuninni vegna þess að þessi 10% kalla á talsvert mikinn kostnað við að útbúa samkeppnisumhverfi. Menn hafa rætt um, það kom fram á fundi nefndarinnar, að eftirlitið kosti 50 milljónir. Mér finnst það mjög varlega áætluð tala, 50 milljónir, og ég tel að í raun ef eftirlitið eigi að ná fram markmiði sínu þá þurfi mun meira eftirlit og að það þurfi að fara í ákveðna vinnu, sem kom hér fram, að það þarf að skilja á milli í meira mæli en gert er --- vegna þess að það er í engu gert í þessu frv. --- á milli þeirra þátta sem eru í samkeppni og þeirra sem eru í einokun. Ég tel að það verði í raun og veru engin samkeppni ef flutningsfyrirtækið Landsnet verður í samkrulli við framleiðslufyrirtækin.

Það er talað um að það eigi að vera fjárhagslegur aðskilnaður en nú háttar svo til að við höfum t.d. Landssímann, sem er í eigu ríkisins, sem er orðinn hlutafélag, og þar á að vera fjárhagslegur aðskilnaður á milli samkeppnissviða og þeirra sem hafa einokunaraðstöðu eða samkeppnishindrandi. Það kemur fram í 5. gr. frv. að það eigi að vera ákveðið upplýsingaflæði, hægt að fá upplýsingar um þessa einokunarþætti. En þegar reynt er t.d. að fá upplýsingar frá Landssímanum, og ég spurði hæstv. fjmrh. út í það, þá var í rauninni engin svör að fá, þó svo að það standi í reglum að það eigi að vera fjárhagslegur aðskilnaður. Sporin hræða, og það er með ólíkindum þegar maður horfir upp á það að fjmrh., sem ætti að vera annt um samkeppni á fjarskiptamarkaði, kemur í rauninni í veg fyrir að þingmenn fái upplýsingar um atriði sem geta komið á samkeppni. Þess vegna tel ég að þetta með að hlutafélagavæða sé mjög varhugavert nema við tryggjum það með mun virkari hætti heldur en gert er og í er framkvæmd nú þegar menn svara út í hött spurningu sem er borin hér upp á hinu háa Alþingi varðandi t.d. fjárhagslegan aðskilnað starfsemi sem er virðisaukandi, t.d. internetsþjónustu sem þarf að nota þjónustu hjá Landssímanum sem er samkeppnishindrandi og í einokunaraðstöðu. Þetta er þá ekki mjög bjart ef einhver hugsar sér að fara t.d. í samkeppni á orkumarkaðnum og þarf að búa við svipaða starfshætti og fyrirtæki sem þurfa að eiga við ríkisfyrirtæki sem eru hlutafélagavædd.

En það er annað sem þarf að fara yfir og það eru úrræði Orkustofnunar. Úrræðin sem hún hefur til að ná fram markmiðum sínum eru ekki fullnægjandi og það þarf að breyta þeim. Það er talað um dagsektir í frv. og reynslan af dagsektum er sú að þau virka ekki sem úrræði til að ná fram markmiði sínu vegna þess að það kemur fram í 71. gr. laga um aðför að ef einhver, ja, segjum að hann brjóti af sér og Orkustofnun vilji ná fram úrbótum, þá falla niður dagsektir um leið og sá sem hefur brotið af sér hefur bætt ráð sitt og það er ekki hægt að innheimta þær, þannig að hann getur byrjað sama leikinn á ný. Auðvitað þarf að bæta slíka þætti og ýmsa aðra og það þarf að fara betur yfir lögin.

En það sem upp úr stendur og ég ætla að leggja áherslu á hér í lokin er að það hefði verið hægt að taka á þessum óvissuþáttum áður en frv. kom inn í þingið. Það hefði verið miklum mun æskilegra að menn vissu að hverju þeir ganga. Það eru einfaldlega of margir lausir endar sem þarf að hnýta í þessu máli og það ætla ég að ítreka, og það eru þeir fyrirvarar sem ég geri við þetta frv.