Raforkulög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 10:51:53 (9346)

2004-05-28 10:51:53# 130. lþ. 130.27 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv. 89/2004, GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[10:51]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég starfaði í iðnn. þegar frv. var tekið fyrir og er hér á nál. og styð þetta mál. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að það væri í rauninni hægt að ræða efni þess mjög mikið enda er málið mjög mikilvægt og grundvallaratriði fyrir íslenska þjóð. Ég tel þó að það hafi verið farið vel yfir málið í nefndinni og það hefur líka verið góð umræða í samfélaginu um það og ég held --- og það hefur í rauninni ekkert með þetta mál að gera --- ég held hins vegar að það verði sama uppi á teningnum hjá okkur eins og hjá öðrum þeim þjóðum sem fara út í slíkar breytingar að það mun taka einhvern tíma, og ég efast ekki um það margra hluta vegna að við munum taka þetta upp hér á næstu missirum og í rauninni er gert ráð fyrir því að endurskoða þetta, ef ég man rétt, á tveggja ára fresti. Það er ekkert óeðlilegt, málið er þess eðlis að það veitir ekki af því að menn fari yfir það og sníði af þá vankanta sem kunna að koma upp, og það er nákvæmlega ekkert óeðlilegt við það.

Ég held, svo að maður tali um kostina við þessar breytingar, að þeir felist fyrst og fremst í því að hér erum við að sjá meira gegnsæi á þessum markaði en áður hefur verið. Ég vonast til þess, og er ekki jafnsvartsýnn, virðulegi forseti, og ég var í upphafi málsins og vonast ég til þess að sjá hér einhverja samkeppni á næstu árum eða áratugum. Það er til staðar ákveðin samkeppni í orkukerfinu á Íslandi, á stóriðjumarkaðnum en aðrir aðilar hafa ekki notið þess. Þó er undantekning þar á, t.d. var grunnskóli í Garðabæ, virðulegi forseti, sem ég held að hafi getað valið á milli tveggja raforkufyrirtækja eða orkuveitufyrirtækja og nýtti sér það með útboði, ef ég man rétt, þannig að vonandi sjáum við hér í nánustu framtíð aukna samkeppni.

Ég gerði ákveðnar athugasemdir hér í mars þegar þetta mál kom fram og þær voru í rauninni í fjórum liðum.

Í fyrsta lagi hafði ég ákveðnar efasemdir, eins og margir aðrir, um að við værum í raun aðilar að innri markaði Evrópusambandsins hvað þennan þátt varðar, og það má í sjálfu sér til sanns vegar færa þó að svo sannarlega séum við aðili að þeim markaði hvað varðar stóriðjuna. En það breytir því ekki að þetta er niðurstaðan og eftir því sem ég best veit þá reyndu menn að fá undanþágu frá þessu án árangurs og þess vegna skyldum við bara spila með því og reyna að gera það besta úr þessu, og ég sé líka að það eru ákveðin tækifæri til staðar og ég vona að við nýtum þau.

Í annan stað gerði ég athugasemdir við það, vegna þess að ég hafði áhyggjur af því þegar frumvarpsdrögin lágu fyrir, að ekki væri tekið tillit til raunkostnaðar í kerfinu, og tel það vera algjört grundvallaratriði að við tökum tillit til raunkostnaðar í kerfinu einfaldlega vegna þess að ef við erum með kerfi eins og þetta þá er alveg grundvallaratriði að það sé skilvirkt og hagkvæmt. Það er með orkumarkaðinn og þetta flutningskerfi að það er hagkvæmara að flytja rafmagn um stuttan veg en langan, því fylgir ákveðið orkutap ef orkan er flutt um langan veg, og það var komið til móts við þetta í nefndinni og ég tel brtt. sem koma hér fram vera fullnægjandi.

Ég vil lesa það, með leyfi forseta, á bls. 3. í nál., en það hljómar svo:

,,Nefndin telur eðlilegt að leggja til breytingu þess efnis að skylt sé að taka tillit til þess ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda leiðir til verulega aukins eða minnkaðs kostnaðar í flutningskerfinu en það sé ekki einungis heimilt eins og frumvarpið kveður á um.``

Það er því komið til móts við þetta sjónarmið.

Í þriðja lagi hafði ég áhyggjur af því að ,,sokkni kostnaðurinn`` eða sá kostnaður sem hið opinbera eða ríkisvaldið hefur greitt til þess að hjálpa hinum ýmsu orkufyrirtækjum um landið, ef það væri tekið tillit til þess þegar virði flutningsfyrirtækis væri metið inn í nýja flutningskerfið þá hefði það slæm áhrif og mundi í rauninni skekkja þá stöðu sem er til staðar og hefði sérstaklega slæm áhrif á verðmyndun á flutningi hér á höfuðborgarsvæðinu og gæti haft neikvæð áhrif hvað það varðar eða leitt til hækkunar orkuverðs til neytenda á höfuðborgarsvæðinu.

Það er skemmst frá því að segja, virðulegi forseti, að nefndin, eins og formaður nefndarinnar rakti hér í sínu máli, tók tillit til þessa og ég vil lesa hér upp, með leyfi forseta, á bls. 2 í nál. þann þátt.

Þar segir:

,,Leggur iðnaðarnefnd til breytingu á bráðabirgðaákvæðinu, varðandi mat á verðmæti flutningsvirkja, sem felur í sér að samninganefndin taki við verðmat einstakra flutningsvirkja tillit til og dragi frá sérstök framlög sem veitt hafa verið til rafvæðingar úr opinberum sjóðum til fjárfestingar og uppbyggingar. Með opinberum sjóðum er m.a. átt við greiðslur sem komið hafa úr ríkissjóði, sveitarsjóðum og öðrum sjóðum sem notið hafa opinberra framlaga til fjárfestingar og uppbyggingar kerfisins. Þann stofnkostnað hafa þessir opinberu sjóðir nú þegar greitt og telur nefndin þess vegna eðlilegt að við mat á flutningsvirkjunum verði tekið tillit til þeirra.``

Þetta er mjög mikilvægt og þetta var sá þáttur sem var gagnrýndur hvað mest af forsvarsmönnum orkufyrirtækjanna og einnig af forsvarsmönnum sveitarfélaganna hér á höfuðborgarsvæðinu sem fjölluðu um þetta mál.

Fjórði þátturinn sem ég ræddi og hef gagnrýnt og er ekki tekið á hér --- enda má færa rök fyrir því að hann eigi kannski heima í annarri umfjöllun en tengist þó þessu máli --- er að mér finnst eðlilegt að það yrði skilgreint betur hvert hlutverk þessara orkufyrirtækja er. Orkufyrirtækin á Íslandi eru risar, þetta eru gríðarlega fjársterk fyrirtæki sem betur fer og að mínu áliti eiga þau fyrst og fremst að sinna því mikilvæga hlutverki að sjá til þess að íbúar þessa lands fái orku, þ.e. heitt og kalt vatn og rafmagn með sem hagstæðustum og öruggustum hætti. Því miður var lögunum breytt með þannig að það gaf færi á því að menn fóru út í allt aðra og óskylda starfsemi. Hér er ég að vitna, virðulegi forseti, sérstaklega til Orkuveitu Reykjavíkur, þ.e. stefnumótunar R-listans, en þar hafa menn farið hreint og klárt út í það að fjárfesta í netfyrirtækjum, fiskeldisfyrirtækjum, risarækjueldi, ljósmyndabönkum að ógleymdum fjarskiptafyrirtækjum. Þar erum við að tala um að upphaflega átti að setja að hámarki 200 milljónir í það ævintýri en í það hafa verið settar 3.500 milljónir. Af því er búið að afskrifa u.þ.b. 500 milljónir í eina ævintýrafjárfestinguna en tapið er samanlagt um 1.800 milljónir, þ.e. rekstrartap þessara fyrirtækja, sem hafa mörg hver annaðhvort orðið gjaldþrota eða verið bjargað frá gjaldþroti en það á í rauninni við þau öll. Ég mun flytja þingmál sem tekur á þessum þáttum og ég vonast til þess að náist breið samstaða um það því að það segir sig sjálft að við getum ekki haft þessa hluti svona.

Ég hef að vísu heyrt þingmenn, m.a. þingmenn Vinstri grænna, taka undir þetta viðhorf og ég vona að hugur fylgi máli. En ég hef svona hugsað það, miðað við það hvað hefur gengið á hér í þinginu, hvað hefði í rauninni gerst ef þessi ágæta stjórnarandstaða, sem oft stendur sig vel og er með beittan málflutning, hvernig menn hefðu látið ef sú staða hefði komið upp að ríkisvaldið hefði farið í álíka ævintýri sem hefði skilað þessari niðurstöðu.

Ég vek athygli á því að fyrrum forsætisráðherraefni Samf., sem áður var borgarstjóri, fjargviðraðist mjög yfir okkur að við sjálfstæðismenn skyldum gagnrýna það á sínum tíma að það væri farið út í þessa fjárfestingu sem átti að vera að hámarki 200 milljónir og taldi það mestu fásinnu að vera að ræða slíkt því að hér væri um svo lága upphæð að ræða. Upphæðin hefur orðið 3.500 milljónir og tapið 1.800 milljónir og búið að afskrifa hálfan milljarð eða svo. En ég mun ræða það seinna, virðulegi forseti, og ég ætla að hafa þetta mál mitt mjög stutt.

Ég vil hins vegar að lokum, vegna þess að hér voru miklar áhyggjur uppi um það að þetta mundi hækka verð til neytenda á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að í meðförum nefndarinnar höfum við tekið að mestu fyrir þá hættu og vek athygli á því, af því að hér hafa menn talað um að arðsemiskrafa muni án nokkurs vafa leiða til hækkunar, þá liggur það fyrir að það er ekkert sem bannar samkeppnissviðum að greiða niður einokunarsvið. Með öðrum orðum ef staðan er í raun sú að menn hafa notað framleiðsluna í orkufyrirtækjunum til að greiða niður dreifinguna þá er það heimilt áfram. Það eina sem hefur áhrif á verðlagningu hjá orkufyrirtækjunum, í það minnsta hjá Orkuveitu Reykjavíkur, er hver verðlagningin verður á flutningnum og miðað við þær forsendur sem við höfum séð og ég held að allir séu sammála um þá gæti það því miður haft þau áhrif að þetta mundi hækka verð um hugsanlega 1% að því gefnu að það komi engin hagræðing á móti. En þær prósentutölur sem menn hafa haft áhyggjur af eiga ekki við rök að styðjast og það hefur verið komið til móts við þau sjónarmið sem voru uppi, eins og formaður nefndarinnar rakti hér ágætlega í máli sínu, og ég fagna því og ég fagna þessari niðurstöðu og vonast til að um þetta mál sé góð sátt.