Raforkulög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 11:33:50 (9351)

2004-05-28 11:33:50# 130. lþ. 130.27 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv. 89/2004, Frsm. KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[11:33]

Frsm. iðnn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. hefur dregið verulega í land með þær fullyrðingar sem hann lét falla í fyrri ræðu sinni þar sem hann gerði í því að grafa undan trúverðugleika þeirra tilrauna sem menn eru að gera hér um breytingar á raforkukerfinu.

Ég vísa hins vegar til brtt. þingmannsins við þetta frv. þar sem hann leggur til að allar greinar frv. falli brott nema ein með þeim rökstuðningi að hann vilji fara aftur í þann leiðangur að leita undanþágu frá þeirri raforkutilskipun sem er búið að ræða hér út á þingi og búið að taka ákvörðun um að við ætlum að vera aðilar að. Hvort sem sú ákvörðun byggðist á því að menn vildu það eða töldu sig ekki geta fengið undanþágu þá er þetta veruleiki sem menn standa frammi fyrir. Menn eiga ekkert að vera að gefa undir fótinn með að það sé hægt að snúa til baka á þessari braut. Menn hafa ákveðið að fara þessa leið og við skulum gera það gætilega þannig að við getum verið sem öruggust um að við séum að færa hlutina til hins betra. Við vitum hvernig markaðsvæðingin hefur gengið á mörgum sviðum og við höfum það til fyrirmyndar. Við vitum líka að það geta verið hættur á þeirri leið og þess vegna höfum við gengið frá málinu eins og það er útbúið, þannig að það eru tiltölulega góðar líkur á því að menn geti brugðist við öllum vanköntum sem upp kunna að koma og menn eru nokkuð vissir um að þetta leiði ekki til þeirra ókosta sem helst hefur verið varað við að gæti verið hætta á.

Ég held að menn eigi bara að einhenda sér í að skoða málið út frá þessum veruleika og ræða það á þeim grundvelli.