Landsnet hf.

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 11:40:43 (9354)

2004-05-28 11:40:43# 130. lþ. 130.28 fundur 737. mál: #A Landsnet hf.# frv. 75/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[11:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Þetta frv. er auðvitað skilgetið afkvæmi þess máls sem við vorum að ræða áðan og það má vísa í öllum aðalatriðum til afstöðu og málflutnings sem þá fór fram og ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði þá um viðhorf okkar, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, til þessara raforkumála. Það er ljóst að við höfum í þeim efnum umtalsverða sérstöðu, við erum eini flokkurinn sem andæfir þeirri markaðs- og einkavæðingu raforkumálanna í landinu sem hér er verið að innleiða í skrefum.

Hluti af þessu er sá að stofna fyrirtækið Landsnet hf., eins og hér er lagt til í frv. hæstv. iðn.- og viðskrh. úr Framsfl., Valgerðar Sverrisdóttur. Í raforkulögunum var eingöngu talað um að stofnað skyldi fyrirtæki til að annast dreifingu eða flutning háspenntrar raforku um landið og þetta er hluti af þeim aðskilnaði framleiðslu, flutninga og síðan dreifingar sem evrópska orkutilskipunin gerir ráð fyrir.

Í þessu frv. er það hins vegar í gadda slegið að fyrirtækið skuli vera hlutafélag. Það á að vísu í byrjun að vera eign ríkis og sveitarfélaga þeirra eða fyrirtækja sem leggja til mannvirki inn í fyrirtækið en síðan er opnað á það að eftir tiltekinn tíma megi hefja einkavæðingu eða sölu á eignarhlutum í þessu fyrirtæki út úr eigu þessara aðila.

Við erum algerlega andvíg því, frú forseti, að opnað verði á þá möguleika að innleiða hreinan einkarekstur í þessu efni, að í fyllingu tímans taki einkaaðili að reka þetta vegakerfi raforkunnar um landið og skammta sér gróða út úr þessari einokun, náttúrulegu einokunarstarfsemi sem það er eðli málsins samkvæmt að reka eina háspennuflutningakerfi fyrir raforku í landinu. Það skapar auðvitað gríðarleg vandamál og mörg óleyst álitaefni ef menn lenda inn á þeirri braut að slík starfsemi lendi í höndum einkaaðila sem ætli að fara að taka sér hagnað af því.

Nú veit ég að vísu vel að það er ekki verið að ganga út frá slíkri einkavæðingu í sjálfu sér hér fyrstu árin. En tónninn var engu að síður gefinn í frv. ríkisstjórnarinnar með því að taka það sérstaklega fram að þær takmarkanir sem væru á sölu eignarhluta út fyrir hópinn væru til tiltekins tíma. Og þó að það sé flutt brtt. um að taka út þetta ártal og setja það í samhengi við endurskoðun laganna í heild sinni þá breytir það litlu. (Gripið fram í: .... óheimilt að selja.)

Ég hef því flutt brtt. fyrir okkar hönd, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sem ganga út á það og eru í raun og veru í eðli sínu varatillögur ef sú tillaga okkar sem fyrst kemur til atkvæða í tengslum við afgreiðslu raforkulagafrumvarpsins nær ekki fram að ganga, að stöðva þessa þróun og reyna að fá undanþágu frá þessari tilskipun og gera síðan þær ráðstafanir í raforkumálum sem við sjálf viljum og kjósum og við hefðum þá stöðu til. Nái hún ekki fram að ganga koma engu að síður til atkvæða þær tillögur sem við leggjum fram og flytjum til breytinga á annars vegar frv. um stofnun Landsnets og hins vegar frv. um jöfnun raforku. Við höfum auðvitað ýmis sjónarmið og mikið við það að athuga hvernig stjórnin hyggst standa þar að verki, verði nú af því að menn fari þessa leið.

Við leggjum til í fyrsta lagi á brtt. á þskj. 1716 að flutningafyrirtækið verði sameignarfélag, eins og segir í 1. tölulið brtt.:

,,Iðnaðarráðherra skal beita sér fyrir stofnun sameignarfélags í eigu ríkis og sveitarfélaga er skal annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum raforkulaga.``

Við leggjum til að þetta fyrirtæki verði kallað Samnet og tilheyrandi breytingar verði gerðar á frv. alls staðar þar sem þar á við, í stað ,,hlutafélagsins Landsnets hf.`` komi ,,Samnet`` og í stað hlutafélagahugtaksins komi sameignarfélagahugtakið, í stað ,,hlutafjár`` komi ,,stofnfé`` o.s.frv.

Við leggjum til að eigendur þessa sameignarfélags, sem að okkar mati hefur ótvíræða kosti í þessu sambandi umfram hlutafélagaleiðina vegna þess að þá er hin félagslega og byggðalega hugsun varin í eignarformi fyrirtækisins, í formi fyrirtækisins sjálfs. Það er sameignarfélag aðila sem leggja saman krafta sína í tilteknu skyni af þessu tagi, það er ekki hlutafélag rekið á grundvelli hlutafélaga í hagnaðarskyni fyrir eigendur sína.

Að eigendur þess verði ríki og sveitarfélög, sem nú eru eigendur flutningsvirkja og kjósi þá að leggja metinn eignarhlut sinn inn í sameignarfélagið, eftir atvikum, fremur en að leigja fyrirtækinu Samneti afnot af flutningsvirkjum sínum, hvorir tveggja kostirnir væru í boði. Sveitarfélög sem í byrjun kysu að sjá til og leigðu mannvirkin gætu á síðari stigum gerst aðilar að sameignarfyrirtækinu en tækju þá að sjálfsögðu á sig skuldbindingar sem því fylgja.

Enn fremur er lagt til í 4. tölulið brtt. að önnur sveitarfélög en þau sem um getur í 1. málslið, þ.e. þau sem í dag eiga mannvirkin sem þarna færu inn --- það eru fyrst og fremst Reykjavíkurborg og sveitarfélög á Suðurnesjum --- geti gerst aðilar að sameignarfélaginu á síðari stigum, þ.e. þegar það hefur verið stofnað. Þau yrðu þó ekki stofnaðilar að því en ættu rétt á að koma þar inn síðar með metnar eignir eða stofnfé.

Af hverju er þetta lagt til, frú forseti? Jú, það er vegna þess að það skrýtna er að gerast, verði þetta frv. samþykkt óbreytt, að það er verið að búa til lokaðan klúbb þeirra sem eru inni í þessu núna og öðrum er haldið þar fyrir utan, þeir komast ekki að til þess að verða aðilar að rekstri, stjórnun og eftir atvikum eign í þessu gríðarlega mikilvæga fyrirtæki með einkaleyfi á flutningum háspenntrar raforku um landið sem þarna á að verða til.

Hvers vegna er það? Hvers eiga t.d. sveitarfélög að gjalda sem eiga sterk dreififyrirtæki en fyrir tilviljanir lenda ekki inni í þessu vegna þess að þau eru lágspennt? Hvers vegna eiga sveitarfélög þess ekki kost, t.d. fyrir norðan, nema Akureyri óbeint í gegnum eign sína í Landsvirkjun? Hvers vegna t.d. má Húsavíkurkaupstaður, sem er sjálfstæður í sínum orkumálum, ekki eiga þess kost ef hann vill að leggja eignir eða stofnfé --- þá hlutafé ef menn velja hlutafélagaleiðina --- inn þó ekki væri nema til þess að eignast táknræna aðild og komast að borðinu?

Ég tel að þetta sé stór ágalli á frv. og ég tel að okkar leið sem hér er lögð til, að stofna sameignarfélag og hafa það opið inn í framtíðina að fleiri sveitarfélög og þá auðvitað helst öll sveitarfélög í landinu sem það vilja gætu setið við sama borð í þessum efnum. Nóg er nú samt hvernig þetta hefur þróast að aðeins tvö sveitarfélög í landinu eru í algerri sérstöðu í þessum orkumálum, þ.e. Reykjavík og Akureyri, af ýmsum sögulegum ástæðum sem við getum rætt síðar við betra tækifæri.

Þetta eru sem sagt okkar brtt. Fari svo að tillögur okkar við raforkufrumvarpið nái ekki fram að ganga þá má líta á þessar tillögur og sömuleiðis tillögurnar sem við flytjum um breytingu á frv. um jöfnun raforku sem varatillögur.