Jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 11:53:16 (9357)

2004-05-28 11:53:16# 130. lþ. 130.29 fundur 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv. 98/2004, Frsm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[11:53]

Frsm. iðnn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Frumvarpi til laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku var vísað til iðnn. í marsmánuði sl. og nefndin hefur haft það til athugunar. Í þessu frv. er að finna útfærslu á því hvernig standa eigi að jöfnun dreifingarkostnaðar á rafmagni í dreifbýli og er mælt fyrir um það samkvæmt ákvæðum frv.

Iðnn. hefur lokið athugun málsins og skilað af sér svofelldu nefndaráliti, með leyfi forseta:

,,Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti sem tilgreindir eru í nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (þskj. 1690 -- 740. mál). Umsagnaraðilar eru í aðalatriðum þeir sömu og þar greinir.

Málið var unnið samhliða frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (740. mál), og frumvarpi til laga um stofnun Landsnets hf. (737. mál), og vísast til efnislegrar umfjöllunar um málið í nefndaráliti iðnaðarnefndar um raforkulagafrumvarpið.

Með frumvarpi þessu er kveðið á um hvernig staðið verði að jöfnun dreifingarkostnaðar rafmagns og miðast jöfnunin við dreifbýlisgjaldskrársvæði dreifiveitu. Þannig geta gjaldskrársvæði hverrar dreifiveitu verið tvö, þ.e. almennt gjaldskrársvæði og dreifbýlisgjaldskrársvæði. Ákvörðun um það hvort dreifiveitum verður heimilað að hafa sérstaka dreifbýlisgjaldskrá verður í höndum Orkustofnunar sem í samræmi við ákvæði raforkulaga sér um eftirlit með flutningi og dreifingu raforku. Gert er ráð fyrir að allir sem selja inn á kerfið taki þátt í kostnaðinum við það. Nefndin telur það eðlilegt í ljósi þess hve mikilvægt er að kerfinu verði haldið við og að þjónusta og afhendingaröryggi þurfi að vera tryggt.

Markmiðið með jöfnun kostnaðar við dreifingu raforkunnar er að verðið til almennra notenda verði það sama hvar sem þeir eru á dreifbýlisgjaldskrársvæði veitu. Heimilt verður samkvæmt frumvarpinu að greiða niður raforku í dreifbýli til samræmis við hæstu þéttbýlisgjaldskrá.

Nefndin leggur eingöngu til orðalagsbreytingar á frumvarpinu. Telur nefndin að kveða þurfi skýrar á um að greiða skuli niður kostnað almennra neytenda á skilgreindum dreifbýlisgjaldskrársvæðum, en samkvæmt frumvarpinu er miðað við að kostnaðurinn verði niðurgreiddur ef kveðið er á um það í fjárlögum.``

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með svofelldum breytingum:

Í fyrsta lagi verði breyting á 3. gr. frv., fyrri málsgrein, en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Ef ákveðið er í fjárlögum að ráðstafa fé til að lækka kostnað almennra notenda vegna dreifingar raforku skal hann einungis greiddur niður á svæðum`` o.s.frv.

Þarna verði kveðið afdráttarlaust á um það að greiða skuli niður kostnað almennra notenda vegna dreifingar raforku o.s.frv. þannig að það fari ekki á milli mála að það er meginákvæði frv. og laganna, ef það verður samþykkt, að greiða eigi þennan kostnað niður og áætla síðan í fjárlögum hvers árs hve hár kostnaðurinn verður.

Síðan er lagt til að gera breytingu á seinni mgr. 3. gr. Þar er tilgreind einingin kr./kWst en að þar komi í staðinn: á orkueiningu. Niðurgreiðslan er sem sagt miðuð við orkueiningu.

Í 4. gr. er lagt til að orðin ,,mælda í kWst.`` sem þar koma fyrir falli niður þannig að setningin í þeirri málsgrein verði svohljóðandi, ég les hana upp eftir þessa breytingu, með leyfi forseta:

,,Dreifiveita hefur umsýslu með fénu og ber að nota framlagið til þess að lækka dreifingarkostnað notenda á viðkomandi dreifiveitusvæði í hlutfalli við raforkunotkun hvers notanda.``

Undir nefndarálitið rita allir sem eru í iðnn., þ.e. Kristinn H. Gunnarsson, Einar Oddur Kristjánsson, Kjartan Ólafsson, Kristján L. Möller, Einar Karl Haraldsson, Sigurjón Þórðarson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Hallvarðsson og Björgvin G. Sigurðsson.