Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 12:45:54 (9364)

2004-05-28 12:45:54# 130. lþ. 130.30 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv. 58/2004, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[12:45]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Ég tel að hér sé um gott mál að ræða og þó svo að ekki sé verið að hækka framlögin til húshitunarstyrkja er verið að verja þeim upphæðum til skynsamlegri hluta en áður eða á betri veg. Ég held að það sé nokkuð ljóst að ef fleiri eru teknir inn í jöfnunina, svo sem bænhús og kirkjur og björgunarsveitir, muni niðurgreiðslur til almennings lækka, þ.e. ef upphæðin er ekki hækkuð. Sama má segja ef verið er að lengja eða hækka styrki til stofnkostnaðar hitaveitna þá mun þetta lækka. En þegar fram í sækir er mjög skynsamlegt að fara þessa leið og mun styrkja innviði samfélagsins og leiða til sparnaðar fyrir þjóðfélagið.

Ég tel að það sé fyllilega spurning hvort við ættum ekki að lengja styrktímabilið enn meira og hafa það tíu ár, þ.e. að hækka hámark stofnstyrkja til hitaveitna í tíu ár þannig að enn fleiri fái að njóta heita vatnsins og jarðhitans en gert er með þessu frv. En þess ber að geta að þetta er mjög gott skref.

Það er annað skref sem ég tel vera mjög mikilvægt í málinu, þ.e. að undanskilja að uppáskrift þurfi frá Orkustofnun. Ég tel að það sé leið í því að koma á meira frelsi og samkeppnisumhverfi í rannsóknum og vísindastarfi að binda ekki álit eingöngu við ríkisstofnanir, heldur að einnig sé leitað til vísindamanna sem starfa sjálfstætt á markaði. Til dæmis er jarðfræðistofa sem hefur náð geysilega miklum árangri og það á því ekki endilega og er óskynsamlegt að binda þetta álit við Orkustofnun.

En ég ætla ekki að lengja umræðuna meira og lýsi yfir ánægju með frv. og ég styð það.