Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 13:00:31 (9367)

2004-05-28 13:00:31# 130. lþ. 130.31 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv. 63/2004, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[13:00]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Hér er um afar vont mál að ræða og ég legg til að það verði lagt til hliðar og ekki afgreitt í dag við lok þingsins.

Það sem er furðulegast við málið er að hæstv. byggðamálaráðherra Valgerður Sverrisdóttir skuli leggja það fram og njóta aðstoðar formanns iðnn., hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Mér finnst alveg með ólíkindum að fram komi tvö frv. eins og komu fram í dag, fyrst frv. um að afleggja jöfnun flutningskostnaðar á sementi og síðan frv. um að leggja af trilluútgerð í landinu. Það er furðulegt að þetta mál komi frá nefnd eins og iðnn. sem á að fjalla um byggðamál. Að vísu verður að taka fram að verið er að tala um að það eigi að koma einhverjar almennar jöfnunaraðgerðir á vöruflutninga í landinu en það bólar ekkert á þeim aðgerðum. Það væri því fróðlegt fyrst við erum að ræða þetta mál að hæstv. byggðamálaráðherra kæmi hingað og segði okkur hvort von sé á þeim almennu aðgerðum til að jafna vöruverð eins og lofað er.

Ég get a.m.k. sagt að mér var algjörlega ókunnugt um að Framsfl. hefði lofað þessu fyrir síðustu kosningar. Mér var líka ókunnugt um að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem er formaður iðnn. sem ber ábyrgð á málinu, hafi lofað því hvað þá að afleggja sóknardagakerfið. Mér var alveg ókunnugt um það. Mér finnst að í þessu máli og öðrum séu þingmenn Framsfl. að ganga algjörlega á bak orða sinna og gegn byggðum landsins. Þetta er kannski ekki mjög stórt mál en þó hefur formaður jöfnunarsjóðsins, Eyvindur G. Gunnarsson, nefnt á fundi --- af því að hæstv. iðnrh. hváði þegar minnst var á hve þessar hækkanir væru miklar --- töluna 30--45% og það eru þær tölur sem hafa verið nefndar. Ég get staðfest það.

Að vísu kom eitthvert bréf frá Sementsverksmiðjunni eftir að búið var að afgreiða málið þar sem þeir draga í efa að hækkanirnar verði jafnmiklar. Ég hefði þá talið réttast fyrir hæstv. byggðamálaráðherra að gefa afdráttarlaus svör um að þetta muni ekki hækka sementsverð á landsbyggðinni. Mér finnst það vera lágmarkið.

Það sem er undarlegt við málið og kannski margt fleira, enda margt sem er skrýtið við þann furðuflokk, Framsfl., sem kennir sig stundum við landsbyggðarstefnu, er að þegar hæstv. iðnrh. er að leggja til að afleggja verðjöfnun á sementi þá er hæstv. landbrh. að skila af sér skýrslu þessa dagana, og má nálgast hana á netinu, þar sem hann leggur til að jafna flutningskostnað á sláturfé. Þar þarf að jafna. Hvers vegna? Jú, það er búið að verja ekki tugmilljónum heldur hundruð millj. kr. í að leggja niður sláturhús vítt og breitt um landið og það þarf að flytja féð hundruð kílómetra. Það sér hver maður að þetta er slík vitleysa að það er með endemum að menn skuli bera þetta á borð.

Ég óska eftir því í lok þessarar ræðu, sem ég ætla ekki að hafa miklu lengri, að fá að heyra afstöðu hæstv. byggðamálaráðherra til þeirra tveggja mála sem ég nefndi, sérstaklega hvað varðar sementið og þeirra orða sem Eyvindur G. Gunnarsson gaf um að þetta hækkaði sementsverð um 30--45%, hvort maðurinn fari með fleipur eða hvernig hún sjái málið fyrir sér. Ef hækkunin er 30--45%, telur hún að það sé eðlilegt á einu bretti?

Hin spurningin var hvort bóli á þeirri almennu flutningsjöfnun á vörur sem búið er að tala um lengi og jafnvel skreyta sig með.