Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 13:26:06 (9373)

2004-05-28 13:26:06# 130. lþ. 130.32 fundur 881. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (Stofnsjóður, framtakssjóðir) frv. 92/2004, SKK
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[13:26]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir nál. frá iðnn. um frv. til breytinga á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Ég undirrita nefndarálitið með fyrirvara og ég ætla að gera grein fyrir því á eftir í hverju sá fyrirvari felst. Eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom inn á er okkur skammtaður örlítill tími til að ræða þetta mjög svo spennandi mál.

Það liggur auðvitað fyrir að frv. er lagt fram til þess í fyrsta lagi að styrkja eigið fé Nýsköpunarsjóðs og bæta rekstrarfjárstöðu hans eða eiginfjárstöðu sjóðsins. Lagt er til að ríkissjóður feli Nýsköpunarsjóði áframhaldandi ráðstöfun þess fjármagns sem bundið hefur verið í framtakssjóðunum fjórum frá árinu 1999 en frá þeim tíma hafa þessir sjóðir rýrnað um 40%. Í öðru lagi er lagt til að Nýsköpunarsjóði verði heimilt að leggja fé úr Stofnsjóði í framtakssjóðina með öðrum fjárfestum. Með þessum breytingum er Nýsköpunarsjóði gert mögulegt að afla sér rekstrarfjár til áframhaldandi fjárfestinga, eins og segir í frv. að ég hygg.

Það er ekkert launungarmál að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur ekkert farið varhluta af þeim erfiðleikum sem nýsköpunarfyrirtæki hafa staðið frammi fyrir frá árinu 2000. Sjóðurinn fór vel af stað en hefur tapað gríðarlegum fjármunum. Með frv. er verið að grípa til ráðstafana til þess að flikka upp á stöðu sjóðsins, en ég tel að hér sé ekki um neina endanlega, hvað eigum við að segja, lækningu á sjóðnum að ræða. Það er svona verið að plástra á sárin en ég tel að taka verði málefni Nýsköpunarsjóðsins til algjörrar endurskoðunar og sú aðgerð sem frv. kveður á um sé í rauninni bara lítið skref í þá átt. Ég hef raunar efasemdir um að rétt sé að fara þá leið sem lögð er til í frv. og þess vegna geri ég fyrirvara.

Nú má ekki skilja þann fyrirvara svo að ég sé ekki hlynntur því að menn fjárfesti í nýsköpun og sprotafyrirtækjum en ég held að sú reynsla sem orðið hefur af starfsemi Nýsköpunarsjóðs hafi bæði verið góð og slæm. Hún hefur skilað ýmsu góðu en það verður ekki horft fram hjá því að eftir árið 1999 hefur sigið allverulega á ógæfuhliðina hjá Nýsköpunarsjóði. Árin 1998 og 1999 var mikil renta á stofnsjóði Nýsköpunarsjóðs, upp á einn og hálfan milljarð, en síðan hefur sjóðurinn verið að tapa og í rauninni má segja að það hafi orðið gríðarlegt tap á rekstri hans. Maður veltir því fyrir sér hvort ekki sé þá rétt, ef vilji er til þess að skoða málefni nýsköpunar í landinu af einhverjum áhuga á að endurskoða hana, að víkja af þeirri stefnu sem Nýsköpunarsjóður hefur haft í fjárfestingum sínum.

Það kemur t.d. fram í ársskýrslu Nýsköpunarsjóðs árið 2002 að það sé stefna sjóðsins að ein af hverjum tíu fjárfestingum beri sjóðinn uppi og maður veltir því fyrir sér hvernig í ósköpunum slík stefna geti gengið til frambúðar að gera ráð fyrir því að 90% fjárfestinganna skili ekki arði og að 10% fjárfestinganna eigi að halda sjóðnum gangandi.

Ég held að það sé margt í þessu sem þurfi að skoða og það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því í umræðunni að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er ekki eini aðilinn á þeim markaði sem hefur sinnt fjárfestingum til nýsköpunarfyrirtækja. Það voru aðilar á þessum markaði þegar Nýsköpunarsjóði var komið á á sínum tíma en frá stofnun sjóðsins hafa orðið til fjórir sterkir aðilar sem ekki voru á þessum markaði og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson gat þeirra. Það eru t.d. aðilar eins og Baugur, Burðarás, Kaldbakur og Straumur sem sameinaðist Íshuga á sínum tíma. Allir þessir sjóðir hafa verulega fjármuni milli handanna til þess að fjárfesta í nýsköpun og þó svo að fjárfestingarstefna þeirra hafi verið öðruvísi en Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er ekki hægt að halda öðru fram en að þessi fyrirtæki hafi fjárfest í nýsköpun.

Þegar skoðaðir eru styrkþegar sem hafa hlotið fjármuni frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins veltir maður fyrir sér hvort menn hafi verið á réttri leið þar. Er eðlilegt að fyrirtæki sem hafa verið í blómlegum rekstri í rúma hálfa öld, eins og Árvakur og Steypustöðin, séu að hljóta styrki úr Nýsköpunarsjóði, og hvað þá BM Vallá og BYKO og fleiri fyrirtæki sem hafa verið í samkeppni í rúmlega fimmtíu ár?

Ég vil líka benda á að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er ekki alfa og omega nýsköpunar í landinu. Best heppnuðu útflutnings- og nýsköpunarverkefnin hafa verið önnur, ég nefni sem dæmi Pharmaco og Bakkavör svo ekki sé talað um deCODE. Þó svo að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hafi kannski komið að þeim fyrirtækjum eru það fyrst og fremst aðrir aðilar sem hafa komið að fjárfestingunum.

Ég geri fyrirvara við nefndarálitið vegna þess að ég tel að hér sé í sjálfu sér ekki um neina heildarlausn á málefnum Nýsköpunarsjóðsins að ræða. Ég er ekki viss um að þetta bæti stöðu hans nema kannski til skamms tíma. Það þarf að taka sjóðinn til miklu meiri og drastískari endurskoðunar en frv. gerir ráð fyrir og ég legg áherslu á að það verði gert hið fyrsta. En ég tel að með þessum orðum hafi ég skýrt fyrirvara minn á nefndarálitinu.