Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 14:04:47 (9377)

2004-05-28 14:04:47# 130. lþ. 130.6 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, JBjarn (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér á að greiða atkvæði um breytingar á frv. til laga um rannsóknastofnanir í þágu atvinnuveganna. Þær fela það í sér að Rannsóknastofnun landbúnaðarins og verkefni hennar verða flutt undir nýja stofnun sem greint er frá í næsta máli á dagskrá, þ.e. Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ég hef flutt brtt. við frv. sem lúta fyrst og fremst að því að hin nýja stofnun eigi að starfa samkvæmt einum lögum og einni reglugerð og hafi sérstakan fjárhag.

Í frv. er gert ráð fyrir að hin nýja stofnun starfi samkvæmt tvennum lögum, þ.e. bæði samkvæmt lögum um búnaðarfræðslu og lögum um rannsóknastofnanir atvinnuveganna. Einnig er gert ráð fyrir því að rannsóknarsviðið hafi aðgreindan fjárhag. Ég hef gert athugasemdir við þetta og gert rækilega grein fyrir þeim í nál. mínu. Ég mun frekar gera grein fyrir málinu í heild í umræðum um næsta mál á dagskrá. Í ljósi þess hvernig málin hafa þróast mun ég draga til baka þær brtt. sem ég hef flutt við þetta frv. Ég vísa þar til fyrirvara og athugasemda sem ég hef gert við efni málsins og mun að því gerðu styðja frv.