Búnaðarfræðsla

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 14:09:41 (9380)

2004-05-28 14:09:41# 130. lþ. 130.7 fundur 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, JBjarn (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[14:09]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér eru greidd atkvæði um að leggja niður Landbúnaðarskólann á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins að Keldnaholti og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi og sameina í nýja stofnun, þ.e. Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ég er sammála því markmiði að efla rannsóknir og fræðslu í landbúnaði og garðyrkju. Hins vegar hef ég haft ýmislegt við þessa ráðstöfun að athuga. Ég tel mikilvægt að samþætta hina nýju stofnun þannig að hún starfi öll samkvæmt einum lögum og einni reglugerð. Undir þessi sjónarmið hefur meiri hlutinn tekið að hluta og leggur til í nál. sínu að stofnunin starfi eftir einni reglugerð. Ég er ekki sannfærður um að sameining stofnana sé sérstök patentlausn, litlar sjálfstæðar menntastofnanir sem njóta styrks frá nánasta umhverfi sínu og byggja upp öflugt samstarfsnet eru þýðingarmiklar í hinu dreifbýla landi okkar.

Upphaflega frv. kvað á um að fella úr lögunum heimilisfesti skólanna á Hvanneyri, Hólum og Reykjum. Hinn nýi Landbúnaðarháskóli Íslands var einnig heimilislaus. Það leiddi til harðra viðbragða frá aðstandendum Hólaskóla og ég fagna því að meiri hlutinn leggur til að áfram verði bundið í lög að Hólaskóli og yfirstjórn hans skuli á Hólum í Hjaltadal.

Ég fagna því einnig að samstaða skuli á þingi um að Hólaskóli standi utan við sameininguna sem hér er verið að ákveða. Vilji er til að standa vörð um sjálfstæði Hólaskóla og styrkja starfsemi hans og sérstöðu enn frekar.

Ég hef lagt þunga áherslu á að heimili hins nýja Landbúnaðarháskóla Íslands væri með lögum bundið á Hvanneyri. Við umræðurnar í gær gaf hæstv. landbrh. þá formlegu yfirlýsingu að hann liti svo á að ekki ætti að leika neinn vafi á því að stjórnin og höfuðstöðvar Landbúnaðarháskóla Íslands verði á Hvanneyri þótt hann verði með starfsstöðvar annars staðar á landinu, t.d. Keldnaholti, á Reykjum og víðar. Jafnframt tel ég að kveða eigi á um að rektor Landbúnaðarháskólans eigi að sitja á Hvanneyri.

Ég fagna yfirlýsingu ráðherrans og met hana mikils. Ég tel að hann hafi eytt óvissu sem ríkti um þessi atriði. Ég treysti því að þessi yfirlýsing ráðherrans verði bundin í reglugerð og þannig tryggð með varanlegum hætti heimilisfesti og yfirstjórn Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, og jafnframt búseta rektorsins, æðsta yfirmanns stofnunarinnar og staðarhaldara á Hvanneyri.

Í ljósi yfirlýsinga hæstv. landbrh. dreg ég brtt. mínar til baka.