Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 14:36:38 (9389)

2004-05-28 14:36:38# 130. lþ. 130.10 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, LB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Lúðvík Bergvinsson (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni afar sérstætt mál. Ætlunin er að taka stóran hluta mjólkurframleiðslunnar undan samkeppnislögum og heimila verðsamráð og uppskiptingu markaða. Með öðrum orðum á að heimila starfsemi sem fræg varð úr Öskjuhlíðinni um árið.

Í öðru lagi er ætlunin að aftengja svokallaða verðlagsnefnd eða a.m.k. að opna á heimild til þess þannig að ekkert opinbert eftirlit gæti orðið með verðlagningu á mjólkurvörum til framleiðenda.

Það er rétt að taka fram að hæstv. landbrh. lýsti því yfir í nótt í umræðum að hann ætlaði að gera sitt besta til að koma í veg fyrir að lögin hans yrðu svo slæm.

Í þriðja lagi er með lögfestingu þessara ákvæða komið í veg fyrir að greinin geti undirbúið sig og aðlagast þeim breytingum sem væntanlegar eru í kjölfar alþjóðasamninga sem nú standa yfir.

Virðulegi forseti. Að því gefnu að þessi lög gangi í gildi þá erum við í Samf. sannfærð um að mun meiri hækkun verði á mjólkurafurðum en verið hefur í því kerfi sem nú er við lýði. Við segjum nei við þessu fráleita frv., virðulegi forseti, og lýsum mikilli undrun á því að á árinu 2004 skuli enn vera við lýði hugmyndir af þessu tagi.