Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 14:40:01 (9391)

2004-05-28 14:40:01# 130. lþ. 130.10 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, landbrh. (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[14:40]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Rétt skal vera rétt. Hér er verið að staðfesta með lögum það fyrirkomulag sem ríkt hefur um mjög langa hríð í starfi mjólkuriðnaðarins á Íslandi með farsælum hætti. Hér er ekki verið að ganga til breytinga heldur er staðfest það fyrirkomulag sem verið hefur. Hér segir skýrt:

,,Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Leggja skal slíka samninga fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar.``

Það er verið að tryggja mjólkuriðnaðinum það starfsumhverfi sem hann hefur búið við. Því er ekki verið að breyta á neinn hátt heldur er það staðfest. Verkalýðshreyfingin, fulltrúar hennar, er aðili að verðlagsnefnd. Hér er mál sem er mjög mikilvægt fyrir mjólkuriðnaðinn og ekki síður neytendur. Ég vil staðfesta það sem hér hefur verið rætt, að aðeins tiltekinn hluti mjólkurafurða verður verðlagður með opinberri verðlagningu. Yfir 50% mjólkurafurða verða undir samkeppnislögum. Ég held að hér sé farsæl aðgerð gagnvart mjólkuriðnaðinum og neytendum sem tryggi stöðu bændanna.