Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 14:48:30 (9396)

2004-05-28 14:48:30# 130. lþ. 130.12 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, EMS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[14:48]

Einar Már Sigurðarson (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Nú fer fram atkvæðagreiðsla um frv. til laga um olíugjald og kílómetragjald. Stjórnarandstaðan stendur sameiginlega að brtt. við frv., sem fyrst og fremst beinast að því að í ljós hefur komið í meðförum efh.- og viðskn. að málið er verulega vanbúið. Lausu endarnir eru margir og ótal spurningar skildar eftir, t.d. varðandi það hvernig á að mæta þeim vanda sem snýr að bændum og leigubílstjórum í þessu máli.

Segja má að brtt. okkar skiptist í þrennt. Í fyrsta lagi að breyta gildistöku frv., þ.e. að meginhluti þess taki ekki gildi fyrr en 1. janúar árið 2006. Í öðru lagi leggjum við til að tekið verði upp nýtt þrep fyrir smærri dísilfólksbíla sem kæmi til gildistöku strax 1. júlí á þessu ári. Í þriðja lagi leggjum við til að það verði kosin sérstök nefnd skv. 32. gr. þingskapa sem hafi það hlutverk að íhuga kosti og galla þess að taka upp notendagjald og umhverfisskatta í stað olíugjalds og hugsanlega samræmingu á Evrópska efnahagssvæðinu hvað slík gjöld varðar. Nefndin muni síðan skila inn til Alþingis skýrslu sinni strax í október í haust. Þetta teljum við nauðsynlegt til að fara yfir málið í heild sinni.

Við tökum hins vegar undir meginmarkmið frv., þ.e. að fjölga litlum dísilfólksbílum, minnka mengun og gæta þjóðhagslegrar hagkvæmni.

Frú forseti. Stjórnarandstaðan mun að öðru leyti sitja hjá við frv. þetta.