Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 15:31:56 (9401)

2004-05-28 15:31:56# 130. lþ. 130.35 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir hið ágæta samstarf sem náðist í hv. félmn. milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þessu máli. Það sýnir hvaða árangri er hægt að ná ef stjórn og stjórnarandstaða leggja saman. Úr því kemur ágætisniðurstaða. Mér hefði fundist að hv. formaður nefndarinnar hefði átt að gera því betur skil en hann gerði. Mér finnast þessar tillögur það gagnmerkar að þær hefðu verðskuldað að eytt væri í þær nokkrum orðum í framsöguræðu hv. formanns.

Við fyrri umr. um tillöguna voru nokkuð gagnrýnd lausatök sem mörgum fannst á þáltill. þótt margt í henni boðaði nýmæli og ferskleika að því er varðar jafnréttismálin, að tekið yrði með öðrum hætti á málunum. Það var gagnrýnt að skerpa þyrfti á ýmsum atriðum, auk ýmissa ákvæða í jafnréttismálum sem vantaði inn í áætlunina. Það hefur flestallt náðst fram í áætluninni. Ég tel hana gagnmerka en auðvitað er það undir því komið hvernig henni verði framfylgt, þ.e. hvort hún skilar þeim árangri sem vonir eru bundnar við af nefndarmönnum.

Ég fagna því að skýrari ákvæði eru um jafnréttisáætlanir. Við fórum í gegnum það við fyrri umr. að enginn veit um það í kerfinu, hvorki Jafnréttisstofa né ráðuneytið, hve margar stofnanir hafa gert jafnréttisáætlanir. Þegar það var upplýst brást hæstv. ráðherra við með því að hrinda af stað átaki í því að fá fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn, hvort heldur þau eru í opinberri eigu eða einkaaðila, til að setja sér jafnréttisáætlanir. Það er tímasett í þessari áætlun, með brtt. nefndarinnar, hvenær þær eigi að liggja fyrir.

Við í nefndinni leggjum mikla áherslu á það í áliti okkar að styrkja vel starf jafnréttisfulltrúa. Það veltur á miklu um framkvæmd jafnréttisáætlana hvernig búið er að jafnréttisfulltrúum í ráðuneytum.

Ég fagna því einnig að tekið er mjög ákveðið á fræðslu um jafnréttismál, að fræðsla og jafnréttisáætlanir nái til allra stjórnenda í kerfinu. Sérstaklega er tekið fram að jafnréttisfræðsla eigi líka að ná til ráðherra. Ég vona sannarlega að því verði fylgt fast eftir. Hæstv. félmrh. ber mikla ábyrgð á því að það gangi fram. Það hefur sýnt sig að það veitir ekki af hjá mörgum hæstv. ráðherrum að fá fræðslu í jafnréttismálum. Á því er tekið í þessu áliti, að ráðherrar fái jafnréttisfræðslu. Einnig er því beint til forseta Alþingis og forsn. að sett verði jafnréttisáætlun á Alþingi og jafnréttisfræðslu verði komið á fyrir stjórnendur þingsins og alþingismenn. Bæði alþingismenn og ráðherrar eiga að fara í jafnréttisfræðslu og ég vænti mikils af því. Svipuð leið var farin í Svíþjóð með góðum árangri.

Hér hafa menn samið um þinglok og ég mun því stytta mál mitt eftir því sem hægt er þótt ég hefði getað haft um málið langa ræðu. Ég vil sérstaklega gera grein fyrir tveim atriðum í þessari framkvæmdaáætlun sem ég met mikils að hafi náðst fram.

Í fyrsta lagi að það sett inn að gera eigi framkvæmdaáætlun um launajafnrétti og félagsmálaráðuneyti vinni í samstarfi við heildarsamtök starfsmanna ríkis og sveitarfélaga að undirbúningi framkvæmdaáætlunar til að ná fram fullu launajafnrétti. Við gerð áætlunarinnar verði tekið tillit til 14. og 22. gr. laga nr. 96/2000 og niðurstaðna rannsókna, m.a. skv. 19. og 20. tölul. II. hluta áætlunarinnar, um launamun kynjanna.

Hér á að hrinda í gang framkvæmdaráætlun þar sem m.a. er kveðið á um að taka eigi tillit til jákvæðrar mismununar sem kveðið er á um í lögum um jafnréttismál. Þá hefji félagsmálaráðuneyti viðræður við aðila vinnumarkaðarins um að sambærilegar áætlanir verði gerðar sem taki til almenna vinnumarkaðarins. Ég fagna þessari tillögu, ekki síst þar sem í henni er svo til orðrétt tekin upp tillaga frá mér og nokkrum þingmönnum Samf. á þessu þingi um framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti, þar sem átti að setja fram tímasettar framkvæmdaáætlanir, annars vegar fyrir opinbera markaðinn og hins vegar fyrir almenna vinnumarkaðinn. Samkvæmt þeim tillögum átti að vinna eftir föngum í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Samband sveitarfélaga. Þar átti einmitt að beita ákvæði 22. gr. jafnréttislaga um jákvæða mismunun að undangenginni rannsókn á launamun kynjanna og öðrum þáttum launakjara sem kveðið er á um í 14. gr. jafnréttislaga.

Efnislega er þessi tillaga, sem ég og aðrir þingmenn Samf. fluttum, komin inn í þessa framkvæmdaáætlun. Ég fagna því mjög en bendi á, virðulegi forseti, að grannt verður fylgst með því að framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna verði fylgt.

Ég fagna einnig mjög athugun sem fjmrh. á að gera á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun kvenna og karla. Félmn. bætti þar við að sú úttekt ætti að taka til launa og hvers konar frekari þóknunar í samræmi við 2. mgr. 14. gr. jafnréttislaga. Ég ætla að vísa til þess sem þar segir, með leyfi forseta:

,,Með launum í lögum þessum er átt við almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, beina og óbeina, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti, sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans.``

Virðulegi forseti. Þegar nefndin ákvað að taka inn úttekt á launakerfi ríkisins, á launamun kvenna og karla, var ekki komin niðurstaða úr úttekt sem ég óskaði eftir að Ríkisendurskoðun gerði á svokölluðum viðbótargreiðslum til opinberra starfsmanna. Þá úttekt hef ég nú fengið í hendur. Henni hefur væntanlega verið dreift til þingmanna í dag en þar kemur ljóslega fram hve brýnt er að í þeirri úttekt sem fjmrh. ætlar að gera á launakerfi ríkisins verði tekin með úttekt á öllum hlunnindagreiðslum, þóknunum, beinum og óbeinum, og gerð skoðun á því með tilliti til kynjanna.

Ég vil aðeins fara nokkrum orðum um þá úttekt sem nú liggur fyrir hjá Ríkisendurskoðun um þetta efni. Ég óskaði eftir því í nóvember sl. við Ríkisendurskoðun að gerð yrði sérstök athugun á því hvernig háttað væri greiðslum vegna viðbótarlauna til ríkisstarfsmanna og hvernig þær skiptust milli kynja. Úttekt Ríkisendurskoðunar sem nú liggur fyrir staðfestir að viðbótarlaunagreiðslur tíðkast hjá opinberum starfsmönnum. Virðulegi forseti, það er þvert á það sem fjmrh. upplýsti í svari til mín um það efni á Alþingi síðasta nóvember. Í svarinu kom fram að ákvæði starfsmannalaga um viðbótarlaun hafi ekki enn komið til framkvæmda og engar reglur gildi um slíkar greiðslur.

Viðbótargreiðslur samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðunar sem nú liggur fyrir koma helst fram í yfirvinnugreiðslum þar sem ekki er krafist vinnuframlags á móti. Nokkrar stofnanir nota þóknanir í einhverjum mæli til greiðslu viðbótarlauna og einnig geta akstursgreiðslur skipt verulegu máli. Ákvarðanir um viðbótarlaun eru oftast byggðar á einhliða ákvörðun forstöðumanns eða persónulegum samningum starfsmanns og forstöðumanns. Þessi úttekt sýnir sláandi mun á viðbótargreiðslum milli kynja. Forustumenn opinberra starfsmanna hljóta að taka þetta mál upp í komandi kjarasamningum. Krefja verður fjmrh. um það að setja samræmdar viðmiðunarreglur um viðbótargreiðslur launa. Það er kallað eftir því í úttekt Ríkisendurskoðunar að fjmrh. setji slíkar samræmdar reglur.

Ég vil lýsa furðu minni á því, virðulegi forseti, að það skuli beinlínis hafa komið fram í svari hæstv. ráðherra að engar viðbótargreiðslur tíðkuðust í launakerfi hjá ríkisstarfsmönnum þegar úttekt Ríkisendurskoðunar leiðir í ljós að svo er. Þær skipta hundruðum milljóna segir í úttekt Ríkisendurskoðunar. Í henni kemur fram sterk vísbending um að mun meiri kynjamunur sé á viðbótarlaunum starfsmanna sem tilheyra BSRB-félögum og þeirra sem tilheyra BHM-félögum. Fram kemur að í úttektinni voru greindir 3.335 af 17 þúsund starfsmönnum ríkisins sem líkur bentu til að hefðu fengið viðbótarlaun á árinu 2002. Verulegar líkur voru á að viðbótargreiðslur rynnu til um 1.100 starfsmanna. Sá hópur fékk greiddar 443 millj. kr. í viðbótarlaun þar sem 284 millj. kr. runnu til karla en 159 millj. kr. til kvenna. Þetta sýnir að konur fengu að meðaltali einungis um 56% af þeirri fjárhæð sem karlar fengu. Það má rekja til viðbótarlauna. Flestir þessara 1.100 starfsmanna störfuðu hjá tíu stærstu ríkisstofnununum, sem Ríkisendurskoðun gerði sérstaka úttekt á. Af tæplega 1.100 starfsmönnum sem fengu viðbótargreiðslur fengu aðeins fjórar konur yfir 200 þús. kr. á mánuði en 14 karlar. Í hópi þeirra sem fengu lægstu yfirvinnugreiðslurnar, allt að 10 þús. kr. á mánuði, voru 29 konur en fjórir karlar. Það snýst sem sagt alveg við, virðulegi forseti, að þegar kemur að lægstu viðbótargreiðslunum þá eru konur fjölmennari en þegar kemur að hæstu viðbótargreiðslum snýst þetta við og konur eru mun færri.

Mesti munurinn var milli þeirra sem höfðu fastar yfirvinnugreiðslur á bilinu 100--120 þús. kr. á mánuði. Í þeim hópi voru 74 karlar en aðeins 6 konur. Þetta finnast mér sláandi upplýsingar sem hljóta að koma til skoðunar bæði á vettvangi samtaka launafólks og hjá fjmrn.

Viðbótarlaun í formi þóknanagreiðslna eru bæði einingargreiðslur og þóknanir. Einingargreiðslur fengu á árinu 2002 546 fastráðnir karlar og 212 konur. Á árinu 2002 voru greiddar 788 millj. kr. í einingargreiðslur úr launakerfi ríkisins, sem rekja má mikið til viðbótargreiðslna. 1.788 karlar og 1.261 kona fengu greiddar þóknanir á árinu 2002. Greiddar voru 727 millj. kr. í þóknanir. Akstursgreiðslur eru í einhverjum tilvikum notaðar sem viðbótarlaun líka og 702 karlar fengu akstursgreiðslur á móti 445 konum.

Þessar viðbótargreiðslur, sem annaðhvort eru í formi þóknana, einingargreiðslna, yfirvinnu sem ekki er unnin eða akstursgreiðslna, virðast skipta hundruðum milljóna. Þegar þetta er lagt saman virðist einn og hálfur til tveir milljarðar fara í slíkar greiðslur.

[15:45]

Hvers vegna er svona sláandi munur milli kynja þegar kemur að viðbótargreiðslum? Meðan ekki eru til samræmdar greiðslur er ekki einungis um að ræða mismun milli kynja heldur líka milli opinberra starfsmanna hjá hinum ýmsu stofnunum þegar ekki er beitt samræmdum viðmiðunarreglum. Þar er ekki aðeins um að ræða mun milli kynja heldur einnig mismun milli opinberra starfsmanna eftir því í hvaða stofnun þeir vinna. Svo handahófskennd vinnubrögð við greiðslu viðbótarlauna ýta undir launamisrétti. Ég tel að fjmrh. verði án tafar að setja um það samræmdar viðmiðunarreglur.

Það er einmitt athyglisvert í þessari skýrslu að Ríkisendurskoðun bendir á að setja þurfi slíkar viðmiðunarreglur fyrir forstöðumenn til að fara eftir við ákvörðun viðbótarlauna. Þeir segja beinlínis í skýrslunni að það skuli m.a. gert til að ná fram jafnrétti kynjanna.

Orðrétt segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Slíkar reglur væri síðan hægt að tengja við eða setja inn í jafnréttisáætlun eða starfsmannastefnu viðkomandi stofnunar.``

Ég taldi ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fara yfir þetta atriði. Það skiptir verulegu máli fyrir framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára.

Ég vildi mjög gjarnan ræða um ýmislegt fleira af því sem náðist fram í þeim breytingum sem félmn. flytur. Ég mun þó ekki gera það að sinni vegna þess hve tíminn er naumur. Ég fagna því að við náðum fram að á vegum menntmrn. verði unnið að úttekt á stöðu jafnréttis á lista- og menningarsviði. Einnig fagna ég því að lögð er áhersla á að rýmri skilgreining verði á jafnréttishugtakinu með hliðsjón af stöðu og þróun minnihlutahópa í samfélaginu og stöðu fólks á vinnumarkaði eftir aldri. Ég tel mikilvægt að með þessu sé fylgst. Að því er einmitt unnið í félmrn. í nefnd sem ég á sæti í um málefni eldra fólks á vinnumarkaði. Það er í samræmi við þáltill. sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur flutt.

Í lokin vil ég leggja áherslu á tvennt, virðulegi forseti. Sum af þeim verkefnum sem vinna á að í jafnréttisáætluninni eru mjög kostnaðarsöm og mikilvægt að tillit verði tekið til hennar við gerð fjárlaga á þeim tíma sem hún er í gildi. Við hljótum auðvitað að fylgjast grannt með því að fjárlagagerðin taki tillit til þessa. Einnig fagna ég því að inn hafi náðst ákvæði um að efla starfs- og endurmenntun á vinnumarkaði, ekki síst hjá ófaglærðum konum, svo að þær verði hæfari til að takast á við verkefnin í ört vaxandi tækniþróun á vinnumarkaði.

Eina atriðið sem ég hef verulegar athugasemdir við og skiptar skoðanir voru um á milli mín og stjórnarliða er að ég tel að yfirstjórn samþættingar jafnréttismála ætti að vera hjá forsrn. Ég held að ég fari rétt með að það hafi t.d. verið gert í Svíþjóð með góðum árangri. En hér er lagt til að yfirstjórn samþættingar jafnréttissjónarmiða verði undir félmrn. og hæstv. félmrh. Ég held málaflokkurinn hefði aukið vægi hjá forsrn. og ráðherrar muni frekar hlýða boðvaldi forsrh. í þessu efni varðandi yfirstjórn samþættingar jafnréttissjónarmiða. Ég tel að málið eigi að vera undir þeim hatti en um það náðist ekki samkomulag. Með tilliti til annarra atriða get ég þó eftir atvikum fallist á að þetta verði a.m.k. reynt. Ég útiloka hins vegar ekki að síðar verði flutt um það tillaga að samþætting á yfirstjórn jafnréttissjónarmiða verði undir forsrn.

Ég þakka fyrir þær umsagnir sem nefndinni bárust um þetta mál. Þær voru afar gagnlegar, m.a. frá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands og eins frá jafnréttisfulltrúa Reykjavíkurborgar. Þar komu fram mjög góðar athugasemdir. Í þeim umsögnum er lögð mikil áhersla á að nýta þær rannsóknir sem til eru um jafnréttismál. Mikill skortur er á að það hafi verið gert og gæti ég rakið mörg dæmi um það. En því er fylgt eftir í nál. sem ég vona að ráðuneytin fari yfir hvert um sig og jafnréttisáætlun verði fylgt.

Ég fagna því líka að iðn.- og viðskrn. skuli sérstaklega falið, samkvæmt tillögu okkar í nefndinni, að gera úttekt á árangrinum af verkefnum undanfarinna ára sem haft hafa það markmið að örva frumkvæði kvenna í atvinnurekstri, m.a. stöðu kvenna gagnvart stuðningskerfi atvinnulífsins hvað varðar styrki, lánsfé og hlutabréf. Úttektin á að hafa það að markmiði að afla upplýsinga sem geti orðið grundvöllur að frekari aðferðum til að efla þátt kvenna í atvinnurekstri. Ég tel að þetta sé afar gagnlegt.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi þá veltur þetta allt á framkvæmdinni, þ.e. hvort sá rammi sem hér er skapaður fyrir áætlun í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára skili þeim árangri sem vonast er eftir. En með því verður grannt fylgst af okkur í stjórnarandstöðunni.