2004-05-28 16:02:53# 130. lþ. 131.92 fundur 616#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands og svar við fyrirspurn um hrefnuveiðar# (aths. um störf þingsins), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[16:02]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Við í Frjálslynda flokknum fögnuðum því mjög í fyrra þegar hvalveiðar hófust að nýju eftir langt árabil með vísindaveiðum. Við verkefnið sem hæstv. sjútvrh. hefur sett af stað með því að stunda vísindaveiðar á hrefnu á Íslandi. Það er mikilvægt að við öflum okkur t.d. vitneskju um hvað þessir hvalir éta og aðrar upplýsingar sem ég ætla ekki að fara út í hér og nú. Við vonum að sjálfsögðu að þessi rannsóknaáætlun haldi áfram í sumar eins og ráð var gert fyrir.

Það er hins vegar áhyggjuefni, og það kom mér mjög á óvart að sjá það í svarinu við fyrirspurn hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að svo mikið af kjöti frá því í fyrra væri enn þá óselt. Mér finnst sæta furðu að þetta kjöt skuli ekki hafa gengið út. Það er mikið áhyggjuefni og í raun stórhættulegt fyrir trúverðugleika hvalveiðanna ef svo má segja, þ.e. ef við ætlum að stunda hvalveiðar áfram, að þetta kjöt skuli ekki fara í neyslu.

Það er ekki nóg að réttlæta þessar veiðar bara með vísindaveiðum. Við verðum að geta sannað og sýnt fram á að afurðir af þessum skepnum séu nýttar á skikkanlegan hátt. Ég hvet sjútvrh. til að búa þannig um hnútana að kjötið sem til fellur á þessum veiðum verði nýtt. Það er mjög mikilvægt. Þar fyrir utan hvet ég hæstv. sjútvrh. til að lýsa því yfir að þessari rannsóknaráætlun verði haldið áfram.