2004-05-28 16:09:15# 130. lþ. 131.92 fundur 616#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands og svar við fyrirspurn um hrefnuveiðar# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Beiðni um skýrslu, jafnvel þó það sé gert á þinglegan hátt, upphefur ekki ályktun Alþingis. Það getur ekki leitt til þess að hætt sé við þær ákvarðanir sem Alþingi hefur tekið. Við skulum hafa það í huga að þessi þál. var samþykkt með 48 samhljóða atkvæðum. Formenn beggja stjórnarflokkanna, sem eru og voru í ríkisstjórn, greiddu henni atkvæði. Núverandi formaður Samf., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Vinstri grænna, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og jafnframt fulltrúar Kvennalistans sem á þingi voru á þeim tíma greiddu þessari þál. atkvæði sitt. Það var gríðarlega mikil samstaða um málið á Alþingi á þeim tíma. Nú hefur komið fram að Frjálsl. styður hæstv. sjútvrh. í þessu máli. Það er út af fyrir sig nýlunda en ánægjulegt að upplifa það á síðasta degi þessa þings þótt sú yfirlýsing hafi ekki ekki komið á óvart.

Ef hv. þingmenn hafa önnur sjónarmið en komu fram í þáltill. frá 1999 þá ber þeim að koma þeim á framfæri á þann hátt að hægt sé að ræða það á þeim grundvelli að hægt sé að upphefja þá ákvörðun. Þá mundi framkvæmdarvaldið auðvitað bregðast við nýrri niðurstöðu Alþingis.

Hvað varðar kjötið þá verð ég að taka undir með hv. þm., að ég er hissa á því að það skuli ekki hafa selst betur. Hrefnuveiðimennirnir seldu reyndar allar sínar afurðir en þeir sem af þeim keyptu, heildsalarnir, hafa að mér skilst ekki getað selt íslensku afurðirnar. Hins vegar er, herra forseti, á sama tíma verið að selja norskt hrefnukjöt í íslenskum verslunum. Það finnst mér mjög skondið, herra forseti.