Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 17:50:34 (9429)

2004-05-28 17:50:34# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[17:50]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki svo langt síðan greidd voru atkvæði hér í Alþingi, það var í desember, um það að þessir bátar fengju 23 daga. Þá stóð stjórnarandstaðan saman að þeirri tillögu og greiddi henni hér atkvæði. Ég held að hv. þm. ætti ef hann í alvöru vill viðhalda þessu kerfi að skoða hug sinn vel hvort ekki sé hægt að fá meiri hluta hér í Alþingi fyrir þeirri niðurstöðu. Ég a.m.k. trúi því og er alveg sannfærður um það að sú niðurstaða yrði hér í sölum Alþingis ef þingmenn Norðvest. sem hafa marglýst því yfir að þeir vilji viðhalda þessu kerfi, standa við sína skoðun og greiða þessari tillögu atkvæði.

Í sambandi við veiðimynstrið er það mín skoðun, að sá floti sem á sumrin hefur farið þangað sem fiskurinn er, hann muni breyta sínum háttum. Það var einmitt eitt af því sem þessir ágætu menn sögðu okkur --- þegar þeir komu til þess að segja að þeir vildu fara í kvótann --- að auðvitað mundi þetta breyta sóknarmynstrinu. Þeir mundu hafa þetta öðruvísi, róa meira á veturna og róa annars staðar, ná sér í stærri fisk o.s.frv. Það hlýtur auðvitað að vera persónubundið hvernig menn meta þessa hluti. Það er mín skoðun að þetta muni hafa mjög mikil áhrif á næstu tveimur árum. Þetta mun hafa mjög mikil áhrif á sóknarmynstur þessa flota, sá floti sem er eða var í þessu dagakerfi muni minnka verulega og sóknarmynstrið muni breytast mjög mikið, menn fari að róa á línu og að róa á öðrum tímum og róa frá öðrum stöðum, sóknarmynstrið mun allt gjörbreytast.