Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 17:57:32 (9432)

2004-05-28 17:57:32# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[17:57]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Ég stend hér að nál. og tillögum í þessu máli ásamt hv. hv. þingmönnum Jóhanni Ársælssyni, Guðjóni Arnari Kristjánssyni, Kristjáni L. Möller og Jóni Gunnarssyni. Tillögur okkar kveða á um að sóknardagakerfið verði fest í sessi, því verði fundinn sanngjarn og eðlilegur grundvöllur og heimildir sem sá bátafloti hefur til ráðstöfunar innbyrðis er samkvæmt þeim tillögum sem sjútvrh. hefur mælt með fyrir þennan bátaflota. Við flytjum þessar tillögur af því að við höfum trú á að hér sé um réttan og góðan málstað að ræða. Við teljum að það beri að hafa sóknardagakerfið sem hluta af fiskveiðimunstri okkar Íslendinga.

Við erum ekki endilega að flytja þessar tillögur vegna þess að við trúum að það sé meiri eða minni hluti fyrir þeim á Alþingi. Við erum að flytja þær af því við teljum að hér sé um réttan málstað að ræða. Ég segi þetta í tilefni orða hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem lét að því liggja að menn ættu ekki að vera flytja tillögur sem ekki væri meiri hluti fyrir. Hv. þm. hefur rökstutt kúvendingu sína í þessu máli þannig að það sé ekki meiri hluti fyrir því á Alþingi að standa á bak við sóknardagakerfið og þess vegna beri að leggja það niður og hann standi að þeim uppkaupatillögum sem meiri hluti hv. sjútvn. hefur lagt fram.

Öðruvísi mér áður brá þegar hv. þm. þóttist standa á meiningu sinni í margumræddri umræðu um svokallað fjölmiðlafrumvarp, en þá þóttist standa á sannfæringu sinni en ekki á því hvort meiri hluti væri fyrir því á Alþingi.

[18:00]

Ég vil taka þetta fram hér vegna umræðu um þessa tillögu af því þegar tillaga er flutt á Alþingi, þá hefur maður bæði trú á málstaðnum og hefur trú á að þingmenn muni styðja hana, þangað til annað kemur í ljós.

Það sem meiri hluti sjútvn. leggur til hér, virðulegi forseti, er að að leggja niður sóknardagakerfið. Það er bara svo einfalt og um það snýst þetta alfarið. Við héldum hér í þinginu í vetur og haust að við værum að ræða tillögur sem miðuðu að því að festa sóknardagakerfið í sessi, finna því eðlilegan og sanngjarnan grundvöll innan fiskveiðimunsturs þjóðarinnar. Í umræðum hér á þingi kom ekki annað fram en að það væri meiningin í tillöguflutningi og við héldum að það væri ærlega meint af öllum þingmönnum, annað kom ekki fram á þinginu. Þegar við vorum að fjalla um þetta mál í hv. sjútvn. varð ég aldrei var við annað. Menn deildu jú um hvernig hægt væri að finna eðlilegan og sanngjarnan grundvöll fyrir þetta sóknardagakerfi sem þokkaleg sátt gæti orðið um, en aldrei fyrr en einn eða tvo síðustu dagana sem málið var til umfjöllunar í nefndinni var rætt um annað.

Þannig að ég verð, virðulegi forseti, að átelja harðlega þau vinnubrögð sem þarna voru viðhöfð í hv. sjútvn. og á síðustu klukkutímum í störfum nefndarinnar kom frv. úr sjútvrn., algjörlega nýtt og gjörbreytt frá því sem áður hafði verið til meðhöndlunar í nefndinni. Þetta er staðreynd málsins.

Í umræðunni hér hefur verið rifjað upp hvernig sóknardagakerfið varð til. Það fannst smuga í kvótakerfinu en það hafði verið einbeittur vilji stórútgerðarinnar og forustumanna í sjávarútvegi hjá ríkisstjórninni að koma á og láta það taka til allra fiskveiða. Þá fannst þessi smuga með sóknardagakerfinu. Það var í þeim byggðarlögum sem hafa farið verst út úr kvótakerfinu, í byggðarlögum þar sem aflaheimildir hafa verið seldar burtu í stórum slumpum og smáum --- þrátt fyrir gefin loforð og yfirlýsingar um að það muni aldrei gerast heldur væri hér fyrst og fremst um hagræðingu að ræða --- en aflaheimildirnar streymdu burt úr byggðarlögum Vestfjarða, norðvestursvæðisins og víðar. Þá fannst þessi smuga, þessi sóknardagasmuga.

Hvernig hefði nú farið fyrir byggðarlögunum á Vestfjörðum sem voru með einstaklinga sem gátu beitt orku sinni og afli í að nýta þessa smugu sem fannst til þess að byggja upp atvinnulíf á ný á þessum svæðum? Hvernig hefði farið fyrir þeim ef það hefði ekki tekist? Auðvitað var sú harða og eindregna sjálfsbjargarviðleitni þessa fólks litin hornauga og öfundaraugum af þeim sem vildu fá að sölsa undir sig og eiga allar framseljanlegar kvótaheimildir til veiða á Íslandi. Auðvitað var þetta fleinn í holdi þeirra. Og það hefur svo sem orðið betur og betur ljóst í umræðunni nú á undanförnum missirum að það var staðfastur vilji stórútgerðarinnar og talsmanns hennar hér innan ríkisstjórnar og inni á Alþingi að drepa þetta kerfi. Okkur hefur öllum verið það ljóst. Þetta voru pólitísk átök. Þetta voru átök um tilvist þessa kerfis eða ekki. Okkur hefur öllum verið það ljóst, enda erum við nú að sjá hvernig þessi harða kvörn fjármagnsins malar. Hún malar þetta kerfi í mola.

Það er meira að segja ekki horft í þann fórnarkostnað, enda er hann smámunir, fórnarkostnað sem verður að leggja í til þess að kaupa þetta kerfi út af markaðnum. Aflaheimildir sem áður voru taldar allt of miklar fyrir þennan flota, eru nú auknar til þess að geta keypt hann út úr þessu fiskveiðimunstri. Til að geta keypt burt þetta sóknarkerfi. Menn hafa verið að bæta hér í. Síðast áðan var hv. formaður sjútvn. að bæta hér í vegna þess að það fannst bátur sem þurfti að bjóða aðeins meir. Ég er ekki að gera lítið úr því að það eigi að huga vel að hagsmunum einstaklinganna í þessari grein. Það má vel vera að margir einstaklingar sem nú eru í sóknardagakerfinu og veiða samkvæmt því, geti tímabundið séð persónulegum hag sínum betur borgið með því að ganga að tilboði og gylliboðum sjútvrh., enda er það tilgangur hæstv. ráðherrans að kaupa þá út. Það er ekkert óeðlilegt að hver og einn líti þá í eigin barm og sjái hvernig hann persónulega komi út, sérstaklega þegar enginn annar valkostur er í boði. Ég er ekki að gagnrýna þá sjómenn, þá útgerðarmenn, sem horfa á þetta mál frá persónulegu sjónarmiði úr því sem komið er. Alls ekki.

Ég gagnrýni að það skuli vera vegið með svona miskunnarlausum hætti að þessu fiskveiðimunstri, þessum fiskveiðimáta sem sóknardagakerfið var. Það gagnrýni ég og að mínu mati hefur verið farið aftan að þessu kerfi, verið farið með lúalegum hætti aftan að þessum hóp sem hefur verið í sóknardagakerfinu. Það hefur markvisst verið reynt að brjóta niður samtök sjómanna innan þessa sóknardagakerfisins, boðin gylliboð, reynt að brjóta félagsskapinn niður, öllum meðulum hefur verið beitt til þess að sundra þessum hóp, til að eiga síðan auðveldara með að ná til hans og taka hann á því uppboði eða uppkaupum sem við erum nú vitni að.

Þess vegna vil ég aftur hverfa til þess sem ég sagði hér í upphafi að við sem stöndum að þessum brtt. sem miða að því að festa sóknardagana í sessi flytjum þær vegna þess að við höfum trú á þessum málstað. Við höfum trú á því að þessi þáttur eigi að vera fastur hluti af fiskveiðimunstri þjóðarinnar. Við teljum það. Þess vegna erum við að flytja þessa tillögu. Þess vegna erum við að berjast fyrir þessum málstað, ekki hvernig einstaka sjómaður sem núna er að veiða kemur út úr því persónulega miðað við eitt eða annað tilboð. Þetta vil ég að við höfum algerlega á hreinu.

Ég vil líka gagnrýna aðkomu Hafrannsóknastofnunar að þessu máli. Forstjóri Hafrannsóknastofnunar hefur komið hvað eftir annað á fundi nefndarinnar og lýst þessum og hinum áhrifum af fiskveiðimunstri, sagt að hann hafi sjálfur ekki neina persónulega skoðun á málinu, en hefur samt eindregið að því er virðist hvatt til þess að sóknardagakerfið verði brotið niður. Ég hef upplifað það þannig.

Þá er mér spurn. Hvar liggja áherslur Hafrannsóknastofnunar í rannsóknum á fiskveiðislóðum landsins? Hvar liggja þær? Stöðugt koma auknar og bættar upplýsingar þvert á pólitíska skoðun stofnunarinnar um að hér séu til staðbundnir stofnar á grunnslóð, meira eða minna staðbundnir, eða sem haldi sig afmarkað um lengri eða skemmri tíma á ákveðnum stöðum á grunnslóð. Það hafa líka komið vísbendingar um að það beri að skoða grunnslóðarfiskinn sérstaklega og vera með svæðisbundna fiskveiðistjórnun. Það er trú mín og skoðun að eitt það brýnasta í rannsóknum og ráðgjöf við fiskveiðar hér á landi sé nú að kanna ástand og hegðan fisksins á grunnslóð og skapa grundvöll til staðbundinnar ráðgjafar og veiðiheimildaúthlutunar eins og hér hefur verið. Þetta er einn af veikustu hlekkjum í starfi Hafrannsóknastofnunar. Það þarf að taka þessi mál, ástand fisksins á grunnslóð, veiði og veiðarfæranotkun og lífríki og umgjörð lífríkisins á grunnslóð, til skoðunar og rannsókna og vera með staðbundna veiðiráðgjöf. Þar einmitt geti floti eins og þessi sóknardagafloti verið mjög virkur og nýst og verið hluti af slíkri fiskveiðistjórnun.

Frú forseti. Það getur enginn sagt fyrir hvaða breyting þetta kerfi hefur fyrir atvinnulíf og afkomu sjávarbyggðanna sem hafa treyst á þessar veiðar. Við vitum það eitt að sú smuga sem opnaðist í kvótakerfinu með sóknardögunum var lífsbjörg fyrir byggðirnar á Vestfjörðum og víðar, sem lentu mjög hart úti í hinu framseljanlega kvótakerfi. Við vitum það. Ef það hefði ekki komið til, þá væri ástandið mun alvarlegra en við nú horfum upp á.

Við vitum ekki hvað gerist nú við þessar breytingar. Við vitum það eitt að það hefur verið að byggjast upp atvinnulíf, fiskiðnaður, rekstur hafna, þjónustu, vítt og breitt um landið á grundvelli þjónustu við þennan flota. Við getum nefnt Skagaströnd. Við getum nefnt Hólmavík og Drangsnes og Norðurfjörð. Við getum nefnt Suðureyri, Bolungarvík. Við getum nefnt allar hafnir á Vestfjörðum og víðar og víðar við landið, Hrísey, sem hafa verið að byggja upp atvinnulíf sitt á grundvelli þessa flota, við að stíla upp á og geta í auknum mæli tekið þann fisk sem berst á land og unnið hann heima fyrir. Það er sagt að ekki ætti að vera neitt því til fyrirstöðu að bátar á aflamarki geti farið og veitt með sama hætti. En hvaða bátar eru það? Er víst að menn hafi afl til þess á þessum stöðum til að kaupa báta og fara að gera út frá þeim á aflamarki? Vonandi einhverjir, en það er alls ekki sjálfgefið.

Til viðbótar er það þetta svæði á landinu sem hefur einmitt búið nú við hvað ótryggust atvinnuskilyrði, fólksflutninga, lágar tekjur, lækkandi tekjur og erfiðleika í rekstri sveitarfélaga vegna minnkandi tekna sveitarfélaganna og íbúa þeirra. Einmitt þetta svæði er nú verið að setja í uppnám. Sjútvrh. hefur lofað að hann skuli skoða í þann pott sem hann fékk nú fyrir áramótin að ráðstafa eftir eigin geðþótta ef einhver byggð færi illa út úr þessum breytingum. Hve oft höfum við ekki heyrt þessar setningar? Að hæstv. sjávarútvegsráðherra væri af náð sinni reiðubúinn að skoða þetta og hitt. Ja, mikil er náð hans. Ef byggðirnar eiga að vera upp á geðþótta og persónulega náð sjávarútvegsráðherra hvað þetta varðar, ég skal ekki gera lítið úr því að hann geti einstaka sinnum gert gagn, en miklu frekar vildum við hafa annað kerfi á. Það er alveg víst.

Frú forseti. Það má lengi ræða þetta mál. En það hefur verið rætt ítarlega nú hér þessa dagana. Það er ljóst að það er verið að slá sóknardagakerfið af, a.m.k. í bili.

Ég vona það að t.d. í kjölfar þess að núverandi ríkisstjórn fari frá, þá gefist svigrúm og möguleiki til að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið og sú endurskoðun miði að því að treysta betur rétt fólksins í byggðunum vítt og breitt um landið til auðlindar sinnar, treysta betri nýtingu fiskimiðanna til þjóðarhags. Ég vona að sú stund verði sem allra fyrst að það gefist tækifæri til þess að losna við þessa ríkisstjórn, þessa stefnu í sjávarútvegsmálum og að breytt verði um kúrs og þá fái markmið fiskveiðistjórnarlaganna staðist í raun, en eitt af grundvallaratriðum þeirra kveður á um að atvinna, byggð og búseta vítt og breitt um landið skuli tryggð á grundvelli þessarar auðlindar.

Það er dapurlegt að horfa upp á ef sú verður raunin að sóknardagakerfið verði nú lagt af, en við skulum vona að það komi samt betri tíð og við fáum að endurskoða og gjörbreyta þessu meingallaða og óréttláta fiskveiðistjórnarkerfi sem við nú búum við.