Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 18:50:08 (9439)

2004-05-28 18:50:08# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þm. og er svo sem margt um hana að segja. Þó verð ég að segja að það er óvenjulegt að beina hótunum að mönnum úr ræðustóli Alþingis, þeim hótunum að menn eigi eftir að finna fyrir því. Ég veit ekki alveg hvernig ber að skilja það og það væri ekki verra ef þingmaðurinn útskýrði það fyrir okkur hvernig hann ætlar að sjá til þess að við, nokkrir þingmenn, eigum eftir að finna fyrir því að taka þær ákvarðanir sem við ætlum að taka. Kannski eiga menn eftir að finna fyrir því á netinu eða eitthvað svoleiðis, ég skal ekki segja, en hv. þm. útskýrir það væntanlega fyrir okkur.

Mér þótti athyglisvert að heyra hann setja fram hugmyndir sínar um hvernig ætti að hafa fyrirkomulag dagabátakerfisins. Ég var út af fyrir sig alveg sammála honum í því sem hann sagði, að það væri nauðsynlegt að setja takmarkanir á veiðigetu flotans eins og með vélarafl og rúllur. Ég held að menn verði, ef menn ætla á annað borð að reyna að ná einhverri samstöðu um slíkt, að viðurkenna að það verður að takmarka sóknargetuna. Hins vegar hef ég ekki séð neitt frv. frá þingmönum Frjálsl. um slíkt. Eina frv. sem ég hef séð frá þeim er um að það eigi að vera 23 dagar og engar takmarkanir. Engar takmarkanir á veiðigetu flotans. Meira að segja er lagt til að þessum 23 dögum fjölgi með vaxandi heildarþorskveiði. Þannig að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson er búinn að lýsa yfir andstöðu við það frv. sem varaþingmaður hans, Grétar Mar Jónsson, flytur ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Það frv. liggur hjá sjútvn., 23 dagar í sóknarkerfi og engar takmarkanir á sóknargetu bátanna frá því sem nú er.

Nú hefur hv. þm. útskýrt það fyrir okkur að hann sé andvígur því frv. og þess vegna er stjórnarandstaðan og hann væntanlega að flytja tillögur sem ganga miklu skemmra en það frv.