Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 19:38:53 (9447)

2004-05-28 19:38:53# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[19:38]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja að þakka hv. þm. fyrir að vera við umræðuna. Það er meira en hægt er að segja um ýmsa aðra, t.d. hv. þm. Adolf H. Berndsen og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Báðir koma þeir frá bæjum sem að öllum líkindum munu fara mjög illa út úr þessum aðgerðum við stjórn fiskveiða.

Ég bið menn að skoða hverja málið varðar. Ég tel að það sé mikilvægt að hafa í huga að það varðar ekki eingöngu þá 300 útgerðarmenn sem mest hefur verið rætt um.

Mér finnst mjög sérstakt að hlusta á hv. þm. Maður hefur hlýtt á hv. þm. Kristin H. Gunnarsson í umræðum um fjölmiðlamálið þar sem hann hefur talað um sannfæringu sína og það að standa á henni. Ég get ekki betur séð en að hann hafi framselt sannfæringu sína í þessu máli til hagsmunasamtaka úti í bæ. Hann snerist algjörlega í afstöðu sinni í þessu máli frá því í mars þegar hann sagðist ætla að verja sóknarkerfið. Nú er hann búinn að framselja afstöðu sína til hagsmunafélags úti í bæ. Ef það segir kvótakerfi þá segir hann kvótakerfi.