Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 19:45:54 (9453)

2004-05-28 19:45:54# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[19:45]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson getur stutt þá tillögu sem stjórnarandstaðan stendur hér fyrir og staðið með skoðun sinni sem hann hefur margsinnis lýst í sölum Alþingis. Hann gæti gengið í lið með okkur sem berjumst fyrir því að þessi tillaga nái fram að ganga. Ég er sannfærður um að ef þingmenn Norðvest. sem talað hafa fyrir sóknarstýringu hefðu haldið áfram að gera það en ekki beygt sig þá værum við að tala um meiri hluta fyrir þeirri tillögu sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram.

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það er eins og hv. þm. hafi klárað öll vopn úr vopnabúri sínu í baráttunni um útvarpslögin og í framhaldi af því orðið að beygja sig fyrir kvótakörlunum í Framsfl., beygja sig algjörlega í málinu. Ég verð að segja að mér þykir leitt að sjá að hv. þm. á jafnauðvelt með að skipta um skoðun og hann á með að skipta um flokka.