Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 19:48:00 (9455)

2004-05-28 19:48:00# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[19:48]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlýddi með mikilli athygli á ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Hann talaði m.a. um veiði og hvað menn ætluðu að gera ef það yrði nú aflabrestur, hvað ætti þá að gera fyrir þennan flota. Ég vil fá að upplýsa hv. þm. um að það getur orðið aflabrestur þótt menn séu í kvótakerfi. Það getur haft áhrif á afkomu þeirra sem eru með kvóta. Það hefur áhrif á kvótaverð ef aflabrestur verður. Þau rök hans er því ekki er hægt að kaupa í þessari umræðu.

Ég vil síðan spyrja hv. þm. hvaða gögn hann hefur sem við, aðrir í sjútvn., höfum ekki. Hvaða gögn hefur hann um skuldastöðu eigenda dagabáta í dag? Hvaða gögn hefur hann um efnahag þeirra? Hvaða gögn hefur hann sem sanna að mikill meiri hluti sé fyrir því hjá þessum mönnum að fara nú í kvóta? Hvaða gögn eru það? Ég hef ekki séð nein marktæk gögn sem sýna það. Hins vegar hef ég séð tugi umsagna frá félögum smábátaeigenda allt í kringum landið. Ég hef séð ályktanir frá Landssambandi smábátaeigenda mörg ár aftur í tímann. Þær eru allar á einn veg: Verjið dagakerfið. Ekki setja okkur í kvóta.