Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 19:51:34 (9458)

2004-05-28 19:51:34# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[19:51]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er bara því miður þannig, ef svo má segja, fyrir okkur sem viljum gjarnan hafa sóknarstýrðar veiðar að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem búa við þá löggjöf vilja frekar að löggjöfin líti út eins og lagt er til af hálfu meiri hluta sjútvn. en að fá hinn valkostinn, sem er óbreytt sóknardagakerfi þar sem dagarnir tætast upp og fækkar um einn á hverju ári. Þannig er staðan. Menn meta hagsmuni sína þannig að staða þeirra sé betri í fyrri kostinum.

Hv. þm. nefndi í ræðu sinni fyrr í dag, og taldi það til marks um það hversu slæmar tillögurnar væru, að efnahagur einstakra útgerðarmanna mundi batna. Ég verð að segja, herra forseti, að ef það er raunin þá finnst mér það mæla með þessari útfærslu. Ef efnahagur útgerðarmanna batnar þá styrkist útgerðin. Þá stendur atvinnureksturinn á styrkari fótum og viðkomandi aðili getur bætt við sig veiðiheimildum og styrkt hann frekar.