Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 19:55:20 (9461)

2004-05-28 19:55:20# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[19:55]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svörin, enda ekki hægt að bjóða upp á ítarlegri svör á svo stuttum tíma sem hér gefst til andsvara. Ég vil þó spyrja hann nánar út í frv., sérstaklega varðandi sumarmánuðina. Nú er vitað að bátar í aflamarkskerfinu klára jafnan kvóta sinn á vormánuðum. Það gerir það að verkum að erfitt er að ná til hráefnis til fiskvinnslu víða um land yfir sumarmánuðina. Við vitum að kvótaárið endar 31. ágúst. Hefur hv. þm. ekki áhyggjur af því að fiskvinnslan í landinu muni lenda í alvarlegum erfiðleikum við að afla hráefnis til vinnslu yfir sumarmánuðina? Jafnframt vil ég spyrja hv. þm. að því hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að blikur séu á lofti í Norðvest., þ.e. að ætla megi að 4 þús. tonnum minna verði landað í Norðvest. frá því sem áður var? Það er vitað að af þeim 8 þús. tonnum sem þar var landað á síðasta ári í sóknarkerfinu voru 4 þús. tonn frá bátum sem skráðir voru utan Norðvest.