Þingfrestun

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 20:32:47 (9468)

2004-05-28 20:32:47# 130. lþ. 132.94 fundur 622#B þingfrestun#, Forseti SP
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 130. lþ.

[20:32]

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Háttvirtir alþingismenn. Senn lýkur störfum þessa þings og er það þremur vikum síðar en ætlað var samkvæmt starfsáætlun, enda hafa mörg stór mál verið til umfjöllunar á þinginu. Í sjálfu sér má alltaf búast við því að slíkar raskanir geti orðið á starfsáætlun Alþingis enda gera þingsköp ráð fyrir að þingmenn hafi verulegt svigrúm til að tjá sig um mál sem þeir telja nauðsynlegt að ræða ítarlega hér í þingsalnum.

Á þessu þingi voru afgreidd sem lög 121 frumvarp og 29 þingsályktanir voru samþykktar. Sá fjöldi er ekki ósvipaður því sem er árlega á reglulegum þingum. Þetta þing sker sig þó frá öðrum þingum að því leyti að aldrei hafa prentuð þingskjöl verið fleiri. Þingskjöl eru nú orðin 1.890, um 400 fleiri en flest hafa verið. Þessa aukningu má fyrst og fremst rekja til fyrirspurna, en þeim hefur fjölgað verulega á seinustu árum. Fyrir aðeins 10 árum voru þær 278. Á þinginu fyrir seinustu kosningar voru þær orðnar 355 og nú eru þær 617. Þetta fyrirspurnaflóð er umhugsunarefni og tel ég rétt að forusta þingsins hugleiði þessa þróun á næstunni.

Í þinghléi í sumar verður haldið áfram að vinna að endurbótum á Alþingishúsinu sem hafnar voru á seinasta ári. Ætlunin er að hefja framkvæmdir þegar í næstu viku.

Nú við lok þinghaldsins vil ég fyrir hönd okkar forsetanna þakka þingmönnum samstarfið á þessu þingi. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð. Ég óska þingmönnum og starfsfólki og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars og utanbæjarmönnum óska ég góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil á ný er Alþingi kemur saman í haust.