Fjölmiðlalög og þjóðaratkvæðagreiðsla

Mánudaginn 05. júlí 2004, kl. 15:13:50 (9480)

2004-07-05 15:13:50# 130. lþ. 133.92 fundur 627#B fjölmiðlalög og þjóðaratkvæðagreiðsla# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. síðast er sú aðferð sem menn eru að vitna til hér hvergi til í þingstarfsemi veraldarsögunnar, hvergi til að þjóðaratkvæði sé boðað með þeim hætti eins og hér er miðað við í 26. gr. stjórnarskrárinnar. Það þekkist hvergi í heiminum. (Gripið fram í: Þú hefur kannski ...)

Aðeins vegna þess sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan þá taldi ég að á þeim ágæta fundi, sem nú er kominn niður í 12 mínútur, hafi verið ágætt samkomulag um að þingið kæmi saman á þessum degi, það var enginn ágreiningur um það. Það var ekki talað um þann tíma sem liðinn er. Það var samkomulag um það (Gripið fram í: Og líka þegar þjóðaratkvæðagreiðslan var ...) á þeim ágæta fundi. Og eftir atvikum, alveg rétt, ef menn hefðu farið í þann farveginn þá var líka samkomulag um það, en síðan voru sett fram skilyrði algerlega ófrávíkjanleg af hálfu stjórnarandstöðunnar þannig að það þurfti ekki að hafa þann fund lengri og það á ekki að hafa fundi lengri en þörf er á.

Í þessum efnum liggur það fyrir að lög taka gildi við synjun forseta og það liggur auðvitað einnig fyrir um leið að ef þingið fellir slík lög úr gildi með lagasetningu þá eru þau ekki lengur í gildi og þá er engin synjun í gildi, og sérstaklega þegar búið er um hnútana eins og gert er hér að séð verður til þess að þingkosningar hafi farið fram áður en lögin fá endanlegt gildi, þá er augljóslega ekkert vandamál á ferðinni. Ég tel að stjórnarliðarnir hafi sýnt vilja sinn í málinu að hafa þetta mál sem allra skilmerkilegast.

Ég tók eftir því í gær að tvennt var sagt af hálfu formanns Samf. Í fyrsta lagi að þetta væri fullkomin uppgjöf ríkisstjórnarinnar og síðan var sagt: Algerlega, óstjórnlega ósvífin aðgerð. Það er í fyrsta skipti sem sagt er að fullkomin uppgjöf sé óstjórnlega ósvífin. (Gripið fram í: Sigur.) Sigur stjórnarandstöðunnar, já. Uppgjöf ríkisstjórnarinnar en samt ofboðslega ósvífin. Hvenær hefur uppgjöf verið ósvífin? Hvernig geta menn haldið því fram? Þannig liggur þetta fyrir að þegar frv. hefur verið samþykkt getur fólk greitt um það atkvæði.