Úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 11:05:50 (9489)

2004-07-07 11:05:50# 130. lþ. 134.91 fundur 631#B úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[11:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa orðið við óskum okkar um að fella um það úrskurð hvort stjórnarfrv. það sem nú á að taka á dagskrá gæti talist þinglegt. En ég hlýt að lýsa mig algerlega ósammála niðurstöðu hæstv. forseta. Þetta frv. er ótækt, það er óþinglegt og í því er í fólginn stjórnskipulegur óskapnaður, aðallega af tveim ástæðum. Það er fólgið í frv. fyrirætlan um að fara á svig við stjórnarskrána, að hafa af þjóðinni stjórnarskrárbundinn rétt til að kjósa um lagafrv. sem forseti hefur synjað staðfestingar og þar með fært staðfestingarvaldið yfir til þjóðarinnar. Orðalag 26. gr. stjórnarskrárinnar er afdráttarlaust. Þar segir að við slíkar aðstæður skuli kjósa um málið svo fljótt sem við verður komið.

Frv. er einnig ótækt og gengur ekki upp að formi til. Það felur í sér að í einu og sama frv. eru felld úr gildi efnisatriði og sett inn aftur. 2. gr. gildandi laga um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum, laga nr. 48/2004, er felld úr gildi með 3. gr. frv. sem samþykkt verður en sett inn aftur óbreytt, orðrétt og engin efnisbreyting. Frv. er sem sagt hvort tveggja óþinglegt að formi til og það felur í sér ósæmilega ætlan um að komast undan ákvæðum stjórnarskrárinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Varaformaður Sjálfstfl. viðurkennir á fundi í gær samkvæmt fréttum í Morgunblaðinu (Forseti hringir.) að tilgangur málsins sé sá. ,,Frumvarpið leið til að afstýra þjóðaratkvæðagreiðslu``, segir Morgunblaðið og hefur eftir hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde. Ég hlýt því, herra forseti, að lýsa mig algerlega ósammála úrskurði þínum og hafa (Forseti hringir.) allan fyrirvara á um að koma nálægt þessu stjórnarfrv. hvað þinglega meðferð þess varðar því það er óþingtækt.