Úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 11:12:03 (9493)

2004-07-07 11:12:03# 130. lþ. 134.91 fundur 631#B úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[11:12]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þann úrskurð sem hér var felldur en ég er honum algerlega ósammála og tel að það frv. sem ríkisstjórnin er að leggja fram sé sama mál og stendur til að fella úr gildi. Ég tel að með málatilbúnaðinum sé sá tilgangur einn, sem reyndar var lýst af hæstv. fjmrh. á fundi í gær miðað við tilvitnun í Morgunblaðinu, sem er að koma í veg fyrir að þjóðin þurfi að taka afstöðu til málsins í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel að verið sé að taka þann rétt af þjóðinni og þar séum við á mjög hæpinni braut, vægast sagt.

Hér er verið að leggja fram sama frv. á nýjan leik og í greinargerð frv. er meira að segja vísað til greinargerðar eldra frv. sem á að fella úr gildi og þeirra laga sem hafa verið sett. Þannig að allt að einu er málið þannig búið að ég lít svo á að ríkisstjórnin sé beinlínis að koma í veg fyrir að þjóðin fái að nýta sér þau réttindi sem henni eru sköpuð og skýrt er tekið fram í í 26. gr. stjórnarskrár lýðveldisins.