Úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 11:21:01 (9498)

2004-07-07 11:21:01# 130. lþ. 134.91 fundur 631#B úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[11:21]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég átti satt að segja ekki von á því að upplifa það í þessum sal að kollegar mínir, hv. þm., kæmu í ræðustólinn og hældu sér af því að taka kosningarréttinn af fólki. Það gerði hæstv. fjmrh. áðan og það gerði hæstv. utanrrh. líka. Það er auðvitað ekkert minna en það að taka af fólki kosningarrétt sem er bundinn í stjórnarskrá. Það lá fyrir stjórnarskrárbundinn réttur fólks að greiða atkvæði um fjölmiðlalögin. Það lá fyrir stjórnarskrárbundin skylda ríkisstjórnarinnar að ganga þannig frá málum að sú atkvæðagreiðsla færi fram og okkar í þinginu að setja því lagaramma. Þeir hafa svikist um það. Þeir hafa farið í sjálfan kosningarréttinn. Ég hefði aldrei trúað því fyrir fram að ég ætti eftir að upplifa þessa stund.

Herra forseti. Ég virði úrskurð þinn áðan en ég er honum ósammála. Ég held þvert á móti að líta megi á 43. gr. þingskapa og draga af henni lærdóm og gagnálykta að hér komi menn ekki innan sama þings, í þessu tilfelli á 130. löggjafarþingi, með sama mál einum og hálfum mánuði eftir að það er afgreitt. Það sama gildir um það og þegar mál eru felld.

Einnig vil ég segja, herra forseti, að nú er okkur sagt í aðdraganda þessarar umræðu að þetta sé rammalöggjöf sem hér sé á ferðinni. Rammalöggjöf. Þess vegna eigi að setja á fjölmiðlanefnd með liðsinni stjórnarandstöðunnar í kjölfarið. Ég vil fá skýrt svar við því frá stjórnarliðinu hvað það felur í sér. Er verið að gefa til kynna að taka eigi málið upp frá a til ö strax í september eða október og búa til nýtt frv. hugsanlega fyrir jól? Hvað felur sú rammalöggjöf í sér, þessi opnun sem verið er að bjóða upp á? Það er alveg nauðsynlegt að það komi skýrt fram (Forseti hringir.) en það hefur ekki gerst enn þá, herra forseti, frekar en allt annað í þessu makalausa máli.