Úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 11:25:39 (9500)

2004-07-07 11:25:39# 130. lþ. 134.91 fundur 631#B úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög# (aths. um störf þingsins), SKK
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[11:25]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa því yfir að ég tel að úrskurður hæstv. forseta í þessu máli sé hárréttur og lögum samkvæmur og samkvæmur þeim þingsköpum sem við störfum eftir. Vegna þeirrar uppákomu sem hér hefur átt sér stað vil ég benda á að það stendur í stjórnarskránni að Alþingi fari með löggjafarvald á Íslandi og geti samþykkt lög, breytt lögum og afnumið lög. (Gripið fram í.) Og vegna þeirra ummæla sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson lét falla og túlkun hans á 26. gr. stjórnarskrárinnar þá er það rangt sem hann hélt fram að lög öðlist ekki (Gripið fram í.) gildi fyrr en forseti hafi undirritað þau. Það stendur beinlínis í stjórnarskránni, hv. þm., að synji forseti lögum staðfestingar öðlist lögin engu að síður gildi. (LB: Ég sagði endanlegt lagagildi. Það er óþarfi að snúa út úr því sem sagt er.) Þannig að hv. þm. ætti að lesa stjórnarskrána almennilega áður en hann fer (Gripið fram í.) að tjá sig um hana.

Það er ekki á hverjum degi sem ég geri orð Jónatans Þórmundssonar (Gripið fram í.) prófessors að mínum. Stjórnarandstaðan hefur haft þann hátt á mun frekar á síðustu dögum og vikum í tengslum við það mál sem hér er til umfjöllunar. En eftir að ríkisstjórnin kynnti áform sín sl. sunnudag leitaði hún álits nokkurra lögfræðinga um það hvort ríkisstjórninni væri heimilt að gera það sem nú hefur verið boðað. Einn þeirra álitsgjafa sem tjáðu sig um málið var hinn viðbragðssnöggi Jónatan Þórmundsson sem situr í viðbragðshópi Þjóðarhreyfingarinnar. Hvað segir Jónatan Þórmundsson (Gripið fram í: Gera lítið úr honum.) í Fréttablaðinu sl. mánudag? Hvað segir hann um þessi áform ríkisstjórnarinnar? Hann segir, með leyfi forseta:

,,Þingið getur fellt úr gildi þessi lög. Ég held að formlega fái það staðist.``

Ég held að að þessu sinni geri ég orð Jónatans Þórmundssonar, prófessors við Háskóla Íslands, að mínum.