Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 11:28:12 (9501)

2004-07-07 11:28:12# 130. lþ. 134.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[11:28]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, samkeppnislögum, nr. 8/1993, o.fl.

Frv. þetta er að stórum hluta samhljóða öðru frv. sem samþykkt var á stjórnskipulegan hátt á hinu háa Alþingi hinn 24. maí sl. og varð að lögum nr. 48/2004 eftir að forseti Íslands hafði synjað því staðfestingar á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar. Tvær veigamiklar breytingar eru þó gerðar sem gerð verður nánari grein fyrir á eftir.

Það var í fyrsta skipti í 60 ára sögu lýðveldisins sem forseti beitir þessari heimild sem ég áður nefndi. Ríkisstjórnin ákvað þá þegar að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu þá sem vísað er til í 26. gr. stjórnarskrárinnar að fram skuli fara um frambúðargildi laga sem svo háttar til um. Þar eð ljóst þótti að ýmsum álitaefnum um tilhögun slíkrar atkvæðagreiðslu yrði ekki svarað á annan hátt en með lögum var starfshópur viðurkenndra og valinkunnra hæstaréttarlögmanna skipaður til að svara ýmsum álitamálum um efni slíkrar lagasetningar og Alþingi stefnt saman sérstaklega til að fjalla um hana. Til þess þurfti þá að nýta sérstaka fráviksheimild í 2. mgr. 23. gr. stjórnarskrárinnar til að kveðja Alþingi saman eftir að fundum þess hafði verið frestað, enda hafði forseti aðeins átta dögum áður en hann kynnti fjölmiðlum þá ákvörðun sína sem ég áður nefndi veitt hæstv. forsrh. umboð til að fresta fundum þingsins allt til septemberloka.

[11:30]

Starfshópurinn skilaði forsætisráðherra skýrslu hinn 24. júní síðastliðinn sem kynnt var fjölmiðlum og gerð almenningi aðgengileg fyrir rúmri viku síðan. Í inngangi að henni kemur fram að hópurinn hafði viðað að sér öllum tiltækum upplýsingum og gögnum víða að og hlýtt á sjónarmið helstu sérfræðinga sem málið snertir. Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur fram að þýðingarmesta atriðið sem starfshópurinn hafði þurft að taka afstöðu til hafi verið um það hvort heimilt væri að setja skilyrði um afl atkvæða og þátttöku í atkvæðagreiðslunni. Til þess liggja auðvitað skýr réttarpólitísk rök ef úrslit hennar eiga að geta tryggt þann samhljóm milli þings og þjóðar sem sumir telja að tilgangur hennar helgist af enda töldu flestir álitsgjafar hópsins að almennt stæðu gild rök til þess að setja einhver slík skilyrði. Meðal löglærðra álitsgjafa sem leitað var til hafa á hinn bóginn verið skiptari skoðanir um það hvort heimilt væri að setja slík skilyrði eftir að tilefni til atkvæðagreiðslunnar hefði stofnast og þá jafnframt hvort þau yrðu sett með almennum lögum eða hvort þau krefðust einnig breytinga á stjórnarskrá. Þetta var að sönnu fyrirferðarmesta umfjöllunarefni starfshópsins eins og ráða má af skýrslu hans þar sem gerð er afar ítarleg og, ég vil segja, mjög hreinskiptin grein fyrir sjónarmiðum á báða vegu, það er bæði þeim sem mæla með setningu skilyrða af þessu tagi og svo þeim sem mæla gegn þeim.

Jafnvel þó starfshópurinn taki síðan undir að rík efnisleg rök standi til að binda þátttöku í slíkri atkvæðagreiðslu ákveðnum skilyrðum og mæli með ákveðinni leið í því skyni telur hann þó ekki vafalaust að slíkur áskilnaður í lögum stæðist þær stjórnskipulegu formkröfur sem grein er gerð fyrir í skýrslunni og einkum varða ófullnægjandi frágang stjórnarskrárákvæðisins frá árinu 1944. Það á sér vitaskuld þá skýringu eins og allir vita að ágreiningur var á Alþingi um inntak þessa ákvæðis í aðdraganda lýðveldisstofnunarinnar og menn voru hreinlega að brenna inni á tíma. Það leiddi til þess, og um það voru menn þó sammála, að við það var skilið til bráðabirgða á þann hátt sem við búum þó við enn þann dag í dag.

Sá fyrirvari á niðurstöðunni gekk alveg skýrt fram í umræðunni þegar menn sættust á að taka tímabundið meiri hagsmuni fram yfir minni eins og sést best á því að stjórnarskrárnefndinni var ætlað að starfa áfram að endurskoðun stjórnarskrárinnar, þar á meðal að þessu leyti. Þegar til á að taka þarf því ef til vill ekki að koma á óvart að ákvæðið er ekki nothæft í framkvæmd enda hefur sjálfsagt aldrei hvarflað að nokkrum manni að því yrði nokkurn tíma beitt. Umfjöllun helsta stjórnlagafræðings okkar á 20. öld, Ólafs heitins Jóhannessonar prófessors og forsætisráðherra, dregur það öðru betur fram hvílík óvissa er uppi um framkvæmd á grundvelli ákvæðisins og fáir hafa orðið til að mæla því á móti þótt hann hafi sett fram þessa skoðun fyrir mörgum áratugum síðan.

Í skýrslunni eru fyrirvarar í þessa veru ítrekaðir oftar en einu sinni og jafnvel tekið fram að innan hópsins hafi þeirri skoðun verið hreyft að viðskilnaður stjórnarskrárgjafans árið 1944 sé svo gallaður að ekki sé unnt að útfæra reglur í almennum lögum fyrr en á stjórnarskrárgreininni hafi verið gerðar nauðsynlegar lagfæringar. Segja má að í hnotskurn sé það og sú afstaða sem ríkisstjórnin hafi tekið með því frumvarpi sem hér liggur fyrir, enda er hvort tveggja óviðunandi, að atkvæðagreiðsla um frambúðargildi laga sem lýðræðislega kjörið Alþingi af hátt í 90% þjóðarinnar hefur sett fari fram án nokkurra skilyrða um hvaða atkvæðamagn þurfi til að fella þau úr gildi og eins hitt að atkvæðagreiðslan fari fram með einhverjum slíkum skilyrðum, að óþolandi réttaróvissa ríki þá bæði um gildi atkvæðagreiðslunnar og réttaráhrif úrslita hennar.

Þar að auki hafa þau sjónarmið komið fram að óhætt sé að auka nokkuð þann hlut sem fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum af tiltekinni stærðargráðu sé heimilt að eiga í fyrirtæki í útvarpsrekstri jafnvel þótt í markaðsráðandi stöðu séu án þess að nokkuð sé gengið á eða dregið úr þýðingu þeirra sjónarmiða sem liggja takmörkun á því til grundvallar og hæstv. forsætisráðherra gerði grein fyrir í framsögu með frumvarpi því er varð að lögum nr. 48/2004. Af þeim sökum er í frumvarpi því sem hér liggur fyrir lagt til að hámark þessa hlutfalls verði tvöfaldað úr fimm í tíu af hundraði enda verður að ætla að eignarhlutur af þeirri stærð sé varla til þess fallinn að skapa eiganda sínum ráðandi stöðu innan útvarpsfyrirtækis. Á hinn bóginn ætti þessi breyting einnig að glæða möguleika útvarpsfyrirtækja á því að laða til sín fjárfesta.

Herra forseti. Þess vegna er það niðurstaða ríkisstjórnarinnar að það sé bæði óheppilegt og óskynsamlegt að atkvæðagreiðsla um lög númer 48/2004 fari fram við þessar aðstæður. Þess í stað er hér lagt til að þau verði numin úr gildi og í staðinn lögfest annað frumvarp. Á lögunum sem lagt er til að numin verði úr gildi og frumvarpi því sem hér er mælt fyrir er sá veigamikli munur að því er ekki ætlað að öðlast gildi fyrr en haustið 2007. Á þennan hátt gefst kjósendum, þjóðinni, eftir sem áður tækifæri til að greiða um það atkvæði á þann eina hátt sem hér hefur tíðkast á lýðveldistíma, það er að segja í almennum kosningum til Alþingis. Þær fara næst fram ekki síðar en vorið 2007 og nýkjörnu þingi ber samkvæmt stjórnarskrá að stefna saman ekki síðar en tíu vikum eftir kosningar. Hið nýja þing hefur þá öll tækifæri til að hafa á þessi lög þau áhrif sem það kýs áður en þau koma endanlega til framkvæmda. Um þessar breytingar fer þó ekki á ósvipaðan hátt og breytingar á stjórnarskrá sem fjalla verður um á tveimur þingum með kosningum í milli. Í því felst einmitt sú hugsun að þjóðinni gefist í þeim kosningum kostur á að lýsa viðhorfi sínu til þess meiri hluta sem að baki breytingunum stendur og getur þá eftir atvikum losað sig við hann ef henni hugnast þær ekki. Þannig er ríkisstjórnin í raun reiðubúin að ganga lengra en leiða mundi af þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvarpið eitt og sér. Með þessu móti má segja að hún leggi jafnframt líf sitt að veði, enda gefst þjóðinni þá um leið kostur á að velja sér annan meiri hluta.

Herra forseti. Frumvarp þetta er að öðru leyti en því sem ég hef þegar lýst sams konar og frumvarp það er varð að lögum númer 48/2004 og er eitt mest rædda mál á Alþingi í seinni tíð. Ég tel því ekki ástæðu til að víkja frekar að efni þess eða einstökum greinum heldur vísa um það til athugasemda sem fylgja bæði þessu og fyrra frumvarpi, nefndaráliti meiri hlutans með fyrra frumvarpinu og skýringa með samþykktum breytingartillögum við það.

Áður en ég lýk máli mínu er vert að rifja það upp að frumvarp þetta er byggt á tillögum sérstakrar nefndar sem skipuð var til að kanna hvernig háttað væri eignarhaldi á fjölmiðlum í landinu. Í skýrslu nefndarinnar sem tekin var til umræðu á hinu háa Alþingi síðastliðið vor kom fram að íslenskur fjölmiðlamarkaður hafði ýmis þau einkenni samþjöppunar sem hvarvetna eru talin óheppileg út frá þeim alþjóðlegu viðmiðunum um fjölbreytni í fjölmiðlun sem byggt var á í skýrslunni. Til að draga úr þessum einkennum og áhrifum þeirra benti nefndin á nokkrar leiðir og ein þeirra er sú sem fólgin er í þessu frumvarpi.

Á hinn bóginn bar nefndin einnig fram nokkrar aðrar ábendingar og tillögur sem ríkisstjórnin vísaði til hennar á ný til nánari útfærslu. Að því starfi hefur ríkisstjórnin jafnframt boðið að koma fulltrúum annarra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi enda er æskilegt að breið pólitísk samstaða geti skapast um frekari aðgerðir á þessu sviði. Meðal þeirra verkefna sem nefndin vinnur áfram að verða stafrænt útvarp, hlutverk Ríkisútvarpsins sem almenningsútvarps, sjálfstæði blaðamanna og ritstjóra gagnvart eigendum, aukin úrræði í samkeppnislögum til að stemma stigu við neikvæðum áhrifum samþjöppunar og samráðs fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði og könnun á því hvort þörf sé á að reisa skorður við eignarhaldi útlendinga utan EES-svæðisins í fjölmiðlafyrirtækjum. Ég vænti mikils af starfi nefndarinnar sem frekari grundvelli að góðum og sanngjörnum leikreglum á þessu mikilvæga sviði.

Að svo mæltu legg til, herra forseti, að frumvarpi þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.