Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 12:49:19 (9505)

2004-07-07 12:49:19# 130. lþ. 134.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[12:49]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína að hv. þm. fjallaði ekkert efnislega um frumvarpið. Kannski er það vegna þess að það er honum óþægilegt. Það vakti athygli mína við 1. umr. 3. maí um það frumvarp sem hér er verið að fella úr gildi að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fjallaði meðal annars um það ákvæði frumvarps þess sem þá lá fyrir sem kvað um að markaðsráðandi fyrirtæki væri ekki heimilt að eiga hlut í fjölmiðlafyrirtæki. Mæltist honum á þennan veg, með leyfi forseta:

,,Markaðsráðandi fyrirtæki lenda oft í því, eðli málsins samkvæmt, gegnum dótturfyrirtæki og víðtækt net að eiga í aðilum hér og þar. ... Þarna er spurning um hvort setja mætti þak sem miðaðist við tiltölulega lága prósentu, hvort það væri ekki sanngjarnara og raunhæfara.``

Síðan segir hv. þm. eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Hvað með að nota þar ákvæði laga um fjármálastofnanir, að þar séu mörkin dregin við virkan eignarhlut? Það mætti þess vegna nota sömu skilgreiningu og þar er, með leyfi forseta, þ.e. að ,,með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi`` fyrirtæki. Með öðrum orðum, mætti ljósvakafyrirtæki aldrei hafa veruleg áhrif á stjórnun hins fyrirtækisins, enda undir 10% þaki.``

Í ræðu sinni gagnrýndi hv. þm. einnig gildistökuákvæði frumvarpsins og lagði beinlínis til að miðað yrði við þann tíma þegar útvarpsleyfi Stöðvar 2 rennur út eða í ágúst 2007. Ég fæ ekki betur séð en að frumvarp það sem hér er til umfjöllunar sé klæðskerasniðið að hugmyndum sem hv. þm. talaði fyrir við 1. umr. um fjölmiðlafrumvarpið 3. maí síðastliðinn. Hv. þm. hlýtur því að geta fallist á að ríkisstjórnin hafi rétt fram sáttarhönd alla vega gagnvart hv. þingmanni í þessu máli. Hvernig getur hann útskýrt andstöðu sína við frumvarp sem endurspeglar eigin hugmyndir? Nú ætla ég að vona að hv. þm. svari mér en geri ekki eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson áðan þegar hann sat hjá. Ef hann svarar mér ekki lít ég svo á að þetta sé skoðun hans. (Gripið fram í: Hvað á að kjósa?)