Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 13:45:32 (9520)

2004-07-21 13:45:32# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Frsm. minni hluta allshn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. formaður allshn. hefur reynst hinn heiðarlegasti í hvívetna í samstarfi okkar í allshn. Ég trúi því alveg þegar hann segir að hann viti ekki af neinu samkomulagi af því tagi sem ég nefndi áður og kann vel að vera að ég hafi misskilið svar hans í gær. Þetta er þó aukaatriði í málinu.

Aðalatriðið er að hv. formaður allshn. lýsir því yfir að ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin dregur þessi lög til baka sé sú að uppi sé ágreiningur meðal fræðimanna og prófessora, eins og vísað hefur verið til, um hvort sú leið sem lögð var til með fyrra frv. væri stjórnskipulega fær. Sökum þess vafa sem á því leikur hefur ríkisstjórnin ákveðið að láta stjórnarskrána njóta vafans og taka frv. til baka. Heill sé þeim.

Með nákvæmlega sama hætti er uppi stjórnskipulegur vafi á því hvort unnt sé að kippa máli, sem forseti hefur synjað staðfestingar og skotið til þjóðarinnar, úr ferli þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar eru uppi nákvæmlega sömu álitamál. Ýmsir þungavigtarmenn telja að það sé ekki hægt vegna þess að það brjóti stjórnarskrána. Aðrir virtir fræðimenn telja að það sé hægt. Hinn stjórnskipulegi vafi er nákvæmlega hinn sami.

Þess vegna segi ég: Ef ríkisstjórnin hefði verið samkvæm sjálfri sér hefði hún einnig látið stjórnarskrána njóta vafans í þessu tilliti og látið málið ganga sinn feril á enda í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hér er um mikilvægt atriði að ræða. Ríkisstjórnin er í reynd að viðurkenna að ef það leikur vafi á því að mál standist stjórnarskrá þá eigi stjórnarskráin að njóta vafans. Það ýtir undir kröfu okkar um að þetta mál hefði átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.