Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 13:49:46 (9522)

2004-07-21 13:49:46# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Frsm. minni hluta allshn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir árnaðaróskir og bataóskir hæstv. forseta til hæstv. forsrh. Okkur hefur borist sú fregn að hann liggi sjúkur á beði á sjúkrahúsi. Ég veit að ég mæli fyrir munn allra, ekki bara í mínum flokki heldur þingsins alls, þegar ég segi að ég vænti þess að hann nái fullri heilsu hið allra fyrsta á ný.

Herra forseti. Í málinu sem við ræðum hér blasir við að þeir sem hafa andæft fjölmiðlalögunum hafa farið með fullan sigur. Ríkisstjórnin hefur tapað sínu hundrað daga stríði gagnvart þjóðinni, alveg eins og þegar Napóleon fór frá Elbu til Waterloo og stóð frammi fyrir gjörtapi. Þetta mál er Waterloo ríkisstjórnarinnar og frá því mun hún aldrei komast. Þessi ríkisstjórn er þrotin kröftum. Hún logar af innbyrðis deilum. Hún hefur tapað þessu máli vegna þess að hún beitti gerræðislegum vinnubrögðum enn einu sinni og þjóðin hafnaði því. Það var órofa samstaða stjórnarandstöðunnar, sem studdist við alls kyns ólík öfl víða úr samfélaginu, sem knúði þessa ríkisstjórn til undanhalds. Undanhaldið mun halda áfram. kannski munu tíðindi berast af því eins, alveg eins og þegar Napóleon réðst í undanhaldið frá Moskvu. Þá voru tíðindin jafnan eins og hafa verið frá þessari ríkisstjórn: Sigursælt undanhald.

Enn í dag segir hæstv. ríkisstjórn að þessi logandi átök við þjóðina og átökin milli flokkanna hafi leitt til þess að ríkisstjórnin standi sterkari en áður. Þvílík firra. Þessi ríkisstjórn skelfur á fótunum. Hún skelfur af ótta við þjóðina og hún skelfur líka af ótta við þau átök sem hún veit að eru fram undan milli stjórnarflokkanna tveggja. Ég segi það eitt að lokum um það, herra forseti: Það þarf kraftaverk til að hæstv. ríkisstjórn lifi af þetta kjörtímabil.

Við stöndum frammi fyrir því að stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að draga fjölmiðlalögin til baka. Í því felst fullur sigur fyrir þau okkar sem höfum varið síðustu þremur mánuðum í þrotlausa baráttu gegn þessum ósvífnu lögum sem að mörgu leyti vógu að því sem helgast er í okkar lýðræðisskipan.

Það sætir hins vegar furðu verð ég að segja, herra forseti, þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson kemur og skýrir það mætavel út fyrir þingheimi að ástæðan fyrir því að lögunum er kippt til baka sé ekki ágreiningurinn millum ríkisstjórnarflokkanna, ekki sú staðreynd að líf ríkisstjórnarinnar hékk í sjö daga samfleytt á bláþræði, ekki sú staðreynd að það var uppreisn í Framsfl. sem leiddi til þess að þetta var eina leiðin til þess að halda lífi í ríkisstjórninni. Nei, hv. þm. skýrir það út fyrir okkur að það sé vegna þess að það leiki stjórnskipulegur vafi á málinu. Ja, guð láti gott á vita.

Það lék líka stjórnskipulegur vafi á hinu fyrra frv. sem samþykkt var í vor. Fjölmargir menn, m.a. hinir sömu og fundið hafa að þeirri aðferðafræði sem birtist í því frv. sem hér er verið að kippa til baka, sögðu þá að efnisatriði þess frv. stönguðust á við, ekki við eitt, ekki tvö, ekki þrjú, heldur jafnvel fjögur ákvæði stjórnarskrárinnar. Því segi ég: Guð láti gott á vita. En ég hefði helst viljað að hann hefði látið vita á svo gott að ríkisstjórnin hefði í þessu máli verið samkvæm sjálfri sér og viðurkennt það sem blasir a.m.k. við þeim okkar sem höfum starfað í allshn., að það ríkir nákvæmlega sami stjórnskipulegi vafi á því hvort hægt sé að kippa máli sem komið er í feril þjóðaratkvæðagreiðslu út úr þjóðaratkvæðinu. Það er ekki gott til afspurnar um vinnubrögð hv. meiri hluta þegar hann lýsir þessum ágreiningi í nál. sínu. En þar kemur fram að því hafi verið hreyft.

Hv. formaður allshn. segir að því viðhorfi hafi verið hreyft í allshn. að það kynni að brjóta í bága við stjórnarskrána að fara með þessum hætti að málinu. Það er rangt. Það er blekking að halda því fram að því hafi verið hreyft. Það komu fram rökstudd lögfræðiálit frá vigtarmiklum lögfræðingum, starfandi hér í borg, sem sýndu með ákaflega sterkum rökum að það færi í bág við stjórnarskrána að taka mál með þessum hætti út úr þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að forseti hefur einu sinni synjað því staðfestingar. Það hefði verið heiðarlegt af hv. framsögumanni meiri hlutans að geta þess í nál. og greina frá því hvaða rök þetta eru.

Til að ég ástundi hinn sama heiðarleika og ég brýni fyrir samnefndarmönnum mínum í allshn. vil ég líka segja að það komu fram sterk rök frá öðrum, t.d. Eiríki Tómassyni, Sigurði Líndal og Páli Hreinssyni, prófessorum öllum saman, sem mæltu hið gagnstæða. Með öðrum orðum, herra forseti, komu fram þung rök á báða bóga. Það þýðir það einfaldlega að um það að kippa málinu út úr þjóðaratkvæðagreiðslu ríkir nákvæmlega sami stjórnskipulegi vafi og á hinu, sem fólst í þeirri aðferð sem hæstv. ríkisstjórn er nú að hverfa frá.

Ef ríkisstjórnin hefði verið samkvæm sjálfri sér hefði hún að sjálfsögðu, eins og í fyrra tilvikinu, látið stjórnarskrána njóta vafans og látið þetta mál ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ástæðan fyrir því að það var ekki gert er einfaldlega sú staðreynd að ríkisstjórnin vill gera allt sem hún getur til þess að sneiða hjá þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi ríkisstjórn er í reynd farin á taugum. Hún er hrædd við þjóð sína og þorir ekki að horfast í augu við úrskurð æðsta dóms þjóðarinnar. Hún þorir ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu og það er mergurinn málsins. Ríkisstjórn sem ekki þorir að horfast í augu við sína eigin þjóð á að axla sín skinn. Hún hefur ekki pólitíska burði til þess að valda því verki sem henni er trúað fyrir. Það er lærdómurinn sem við verðum að draga af þessu máli. Það er lærdómurinn sem ríkisstjórnin á að draga af því að hún er núna komin í sinn áfangastað, sem er Waterloo.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þessa algjöru stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar sé með engu móti hægt að túlka öðruvísi en sem skýra yfirlýsingu um að forseti lýðveldisins hafði algjörlega rétt fyrir sér þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar. Kúvending ríkisstjórnarinnar, ekki síst hæstv. forsrh., undirstrikar um leið með glöggum hætti það mikilvæga hlutverk sem stjórnarskráin hefur í stjórnskipan landsins. Ég tel að reynsla þjóðarinnar af fjölmiðlamálinu hafi leitt í ljós að málskotsrétturinn sé ákaflega dýrmætt varnartæki í baráttu þjóðarinnar gegn ofríkisfullri ríkisstjórn eins og þeirri sem nú situr.

Ég held því fram að við vissar aðstæður, eins og þær sem sköpuðust á síðustu þremur mánuðum, sé málskotsréttur forseta eina tækið sem þjóðin og borgararnir hafa gegn ráðherraræðinu sem hefur heltekið Alþingi og í reynd tekið löggjafann í gíslingu. Það er lærdómurinn sem ég dreg af málinu. Mér þykir þess vegna miður og sorglegt að það er eins og hæstv. ríkisstjórn læri aldrei neitt. Þrátt fyrir svarið sem hv. þm. Bjarni Benediktsson gaf mér áðan get ég ekki lesið annað úr því nál., sem hér er lagt fyrir af hálfu hv. þingmanna meiri hlutans, en að með einhverjum hætti hafi orðið að samkomulagi milli forustumanna stjórnarflokkanna að við endurskoðun stjórnarskrárinnar eigi fyrst og fremst að ráðast á 26. greinina, fyrst og fremst að ráðast á málskotsréttinn og reyna að eyðileggja hann eða kippa honum til baka til að ríkisstjórnin þurfi aldrei framar að standa frammi fyrir þeirri niðurlægingu að verða algjörlega viðskila við sína eigin þjóð og standa eins og hún gerir núna án nokkurs stuðnings í þessu máli.

Þegar allt kom til alls þá var það ekki Alþingi eða aðkoma þess að löggjafafarvaldinu sem var stoð borgaranna í landinu heldur hinn handhafi löggjafarvaldsins, sem í reynd er fólkið sjálft eftir að forseti hefur synjað og þar með framselt sinn hluta löggjafarvaldsins til fólksins. Það var óttinn við fólkið, óttinn við vilja borgaranna sem leiddi til að þessari mestu baráttu sem ég hef tekið þátt í frá því að ég settist á þing fyrir um 13 árum lauk með ótrúlegum ósigri ríkisstjórnarinnar.

[14:00]

Herra forseti. Ég held að stjórnarherrarnir ættu að læra af þessari bitru reynslu og þeir ættu ekki að gefa sér það fyrir fram að hægt sé að ráðast í enn einn herleiðangurinn því það er ekkert annað en herleiðangur líka gegn þjóðinni ef ráðast á í endurskoðun á stjórnarskrá sem miðar fyrst og fremst að því að kippa burtu þessu mikilvæga varnartæki borgaranna.

Frá því að fjölmiðlafrv. leit fyrst dagsins ljós hefur ríkisstjórnin verið á einu samfelldu undanhaldi í málinu. Formaður Framsfl. hefur fimm sinnum þurft að gera nýtt samkomulag við forsrh. af því að bakland hans brast og það lá við uppreisn í hans eigin flokki. Alltaf hafa þeir gripið til nýrra og nýrra ráða eða svo ég noti orð hæstv. dómsmrh., sem hér er með okkur í dag, til nýrrar og nýrrar brellu því að þá aðferð sem við erum að ræða núna kallaði hæstv. dómsmrh. brellu á vefsíðu sinni 3. júní sl., sem hann hefur að vísu margbreytt síðan. Þetta er brelluríkisstjórnin sem alltaf er að reyna að komast hjá því að horfast í augu við þjóðina og hlíta dómi hennar og úrskurði. Menn hlaupa úr einu víginu í annað. Skemmst er að minnast þess, herra forseti, að formaður Framsfl. sagði í framsöguræðu fyrir því sem sennilega mátti kalla fimmtu útgáfu fjölmiðlafrv. í upphafi sumarþingsins að í rauninni væri ríkisstjórnin með sinni snjöllu tillögu að leggja líf sitt að veði. Formaður Framsfl. sagði: Við leggjum líf okkar að veði fyrir þessu frv. Hvar er það líf nú? Veðsetningin stóð í 15 daga.

Herra forseti. Ég tel að óhætt sé að líta svo á að í lok þessa 100 daga stríðs hafi ríkisstjórnin komið til baka úr einhverri mestu sneypuför í stjórnmálasögu okkar á síðustu tímum. Báðir formenn stjórnarflokkanna hafa beðið ósigur, ekki síður formaður Framsfl. Formennirnir báðir sneru bökum saman, börðust við sína eigin flokksmenn, við sína eigin þingmenn, við þjóðina með oddi og egg til að ná þessu frv. til baka. Þeir ætluðu aldrei að bakka en nú er það orðið að veruleika. Og það mætti auðvitað spyrja ýmsa af þeim ágætu þingmönnum sem hafa stutt þá dyggilega í undanhaldinu: Hvernig stendur á viðsnúningi þeirra?

Í augu mér horfir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Má ég rifja upp hvað sá ágæti þingmaður sagði í útvarpi fyrir örfáum dögum. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði að hann sæi engar efnislegar ástæður til að hverfa af þessari braut. Hann hefur þá væntanlega ekki verið búinn að uppgötva hinn stjórnskipulega vafa sem allt í einu rann upp fyrir honum í gær. Hv. þm. sagði: Það er búið að taka ákvörðun, svona verður þetta. Hvað olli sinnaskiptunum?

Herra forseti. Hv. þm., formaður allshn., Bjarni Benediktsson, sat með mér í sjónvarpsþætti á dögunum og var þá spurður hins sama; hvort það kæmi til mála að þingið kippti þessum lögum til baka. Hv. þm. sagði að það væri auðvitað mögulegt eins og málum væri komið að þrátefli skapaðist á milli forseta og þingsins en jafnvel það mætti ekki verða til þess að ríkisstjórnin bakkaði í málinu og hv. þm. sagði, með leyfi forseta: ,,Að mínu áliti kemur það ekki til greina.`` Má ég í fullri vinsemd spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson: Hvenær rann það upp fyrir honum að það leikur stjórnskipulegur vafi á málinu? Ég skildi mál hv. þm. í vinnu nefndarinnar undir ágætri stjórn hans að hann skynjaði aldrei að það væri nokkur stjórnskipulegur vafi á málinu.

Varaformaður Framsfl. sem er ekki með okkur í dag og hefur til þess gildar ástæður sagði alveg ótvírætt í sjónvarpsviðtali að ekki kæmi til mála að kippa frv. til baka. En það hefur sem sagt gerst, herra forseti. Allt það sem þessir ágætu menn sögðu hafa þeir þurft að éta ofan í sig og það var mál til komið að þeir horfðust í augu við vilja þjóðarinnar í málinu. Ef ég á að gefa þeim gott veganesti úr þessari bitru reynslu þeirra, þá er það þetta: Takið upp nýja siði, takið upp nýja hætti, hlustið á fólk. Hlustið á raddir ykkar eigin flokksmanna, á raddir ykkar þingmanna sem hafa verið píndir margir hverjir til fylgis við málið án þess að hafa nokkra sannfæringu í því. Ef þið ætlið að vinna þjóðinni vel, þá verðið þið að taka upp samstarf við þjóðina og þá verðið þið að hætta að slá á þá útréttu sáttarhönd sem oft og tíðum er rétt til ríkisstjórnarinnar frá stjórnarandstöðunni í erfiðum málum.

Herra forseti. Þetta mál sýnir okkur að valdsæknir forustumenn hika ekki við að rífa í sundur friðinn í samfélaginu algerlega að nauðsynjalausu. Ríkisstjórnin hefur í reynd beitt sér fyrir ófriði í samfélaginu. Hún hefur komið í veg fyrir eðlilega og nauðsynlega samstöðu í þessu máli sem eins og forsrh. hefur sagt varðar grundvallaratriðið í okkar lýðræðislega samfélagi. Ef menn ætla að taka sér fyrir hendur að breyta einhverju sem varðar grundvallaratriði þá er löng hefð fyrir því allt frá tímum Bjarna Benediktssonar, fyrrv. formanns Sjálfstfl., Einars Olgeirssonar, fyrrv. formanns Sósíalistaflokksins, Ólafs Jóhannessonar, fyrrv. formanns Framsfl., að menn beiti sér fyrir breiðu samráði. Hið breiða samráð er það sem skiptir öllu máli til að þjóðin geti verið samferða um breytingar af þessu tagi.

Það liggur alveg ljóst fyrir, herra forseti, að í þessu máli hefði verið hægt að ná góðri og friðsamlegri niðurstöðu ef menn hefðu t.d. ástundað þau vinnubrögð sem a.m.k. sumir í stjórnarliðinu vilja gera núna. Það skiptir máli að menn reyni enn þá það sem þeir geta til að ljúka málinu endanlega og það er hægt. Fyrir liggja margar hugmyndir frá stjórnarandstöðunni. Það liggja líka fyrir hugmyndir frá hagsmunasamtökum, frá blaðamönnum og ýmsum öðrum sem málinu tengjast. Það sem skiptir máli í samfélagi sem fer eftir lýðræðislegu gangverki er að hlusta, að leyfa mönnum að koma fram með skoðanir, að hóta ekki og bregðast ekki við með höggum ef einhverjir leyfa sér að koma með aðrar skoðanir en hæstv. ríkisstjórn hefur. Það er það sem skiptir máli og það eigum við að gera. Það er hægt í þessari fjölmiðlanefnd og stjórnarandstaðan er reiðubúiin til að koma að því starfi. En algert skilyrði fyrir því, herra forseti, er að menn komi að hreinu borði og það er heldur ekki hægt að gera ráð fyrir því, eins og kemur fram í nefndaráliti sem hv. þm. Bjarni Benediktsson las áðan, að það verði fullbúið frv. á haustþingi. Þar kemur fram enn einu sinni þetta valdsækna viðhorf ríkisstjórnarinnar. Þegar á að leita samráðs byrja menn á að skipa. Eins og þegar fjölmiðlanefndin var sett á laggirnar, þá var byrjað nánast að segja henni hvað hún ætti að koma með. Eða þegar starfshópur lögfræðinganna sem átti að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna var settur á laggirnar, honum var nánast skipað að koma með niðurstöðu. Það voru heiðarlegir menn í þeim hópi en hann beiddi upp af því að menn treystu sér ekki til að fara gegn stjórnarskránni. Það komu engar tillögur þaðan. Ég bara bið ykkur, ágætu herrar, sem enn þá stjórna þessu ríki, ekki beita þessum aðferðum einu sinni enn. Stjórnarandstaðan er reiðubúin til að koma til samstarfs við ykkur í fjölmiðlanefndinni en það verður að vera á jafnræðisgrundvelli. Það verður að hlusta á okkar tillögur líka. Það verður að hlusta á þær hugmyndir sem koma utan úr samfélaginu og samfélagið sjálft þarf eftir þau sár sem það ber undan þessum átökum að fá tíma til að jafna sig og fá tíma til að setja þessa umræðu í gang og því segi ég: Það væri óðs manns æði að ætla að búa til einhvern plástur úr því á sár forustumanna ríkisstjórnarinnar að leggja fram frv. á haustdögum. Það þarf miklu meiri tíma en það. Er ekki til nóg af tíma? Átti þetta frv. sem nú er verið að draga til baka nokkuð að taka gildi fyrr en eftir þrjú ár? Er þá ekki sanngjarnt, herra forseti, að gefa þessu 2--3 ár? Það held ég. Þetta þarf mikillar og viðamikillar vinnu við.

Ég get ekki annað, herra forseti, en rifjað það upp að tildrög þessa máls alls var sú skoðun hæstv. forsrh. að samþjöppun á eignarhaldi á fjölmiðlun væri svo mikil að það væri algerlega nauðsynlegt að koma einhverjum böndum á hana til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Þetta var sagt andspænis þeirri staðreynd að fjárfestingar þess fyrirtækis sem ríkisstjórnin hefur staðið í samfelldri herferð á hendur núna mánuðum saman urðu þó til þess að blaðið sem ég ritstýrði einu sinni, DV, dó ekki, varð til þess að koma Fréttablaðinu upp á hnén aftur og varð til að koma í veg fyrir að Stöð 2, sem horfðist í augu við gjaldþrot, lifir enn. Þetta er ástæðan fyrir því að þegar Davíð Þór Björgvinsson, prófessor og formaður fjölmiðlanefndarinnar, gerði í fjölmiðlum grein fyrir meginniðurstöðum fjölmiðlanefndarinnar, þá lagði hann sérstaka lykkju á leið sína til að segja að það hafi einmitt verið fyrir fjárfestingar þessa fyrirtækis, Baugs, svo ég nefni hið óttalega nafn, sem fjölbreytni varð jafnmikil í fjölmiðlum á Íslandi og raun ber vitni. Davíð Þór Björgvinsson sagði á Stöð 2 svo ég vitni orðrétt í hann, með leyfi forseta:

,,DV kemur út með þeim krafti sem það er að gera þessa dagana og þegar Íslenska útvarpsfélagið er að reka allar þessar útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar.`` Með öðrum orðum, það var niðurstaða formanns fjölmiðlanefndarinnar að fjölbreytnina í fjölmiðlun í samfélaginu mætti að nokkru leyti rekja til hins óttalega fyrirtækis sem hafði komið í veg fyrir að þessi þrjú fyrirtæki einfaldlega hröpuðu fyrir ætternisstapa. Þetta hljóta menn að hafa til hliðsjónar. Og það varð niðurstaðan í þeirri skýrslu að hvað sem liði ótvíræðri samþjöppun á eignarhaldi í fjölmiðlun á Íslandi væri fjölbreytni mikil á fjölmiðlamarkaði. Sú niðurstaða nefndarinnar andspænis síðan frv. hæstv. forsrh. sýndi það svart á hvítu að það voru auðvitað allt önnur mótíf sem stýrðu verki ríkisstjórnarinnar heldur en einlægur vilji til að koma á fjölbreytni í fjölmiðlun vegna þess að hún var þegar til staðar. Ég held hins vegar, herra forseti, að við eigum að taka höndum saman og við eigum að reyna að finna lausn á þessu máli og við eigum að reyna að setja skapleg lög um fjölmiðla sem taki á öllum þeim þáttum sem sammæli verður um í hinu íslenska samfélagi að þurfi að taka á. Þegar þetta mál er loksins í burtu og þegar þessi leiðangur gegn einu tilteknu fyrirtæki og eigendum þess er frá, leiðangurinn gegn fjölmiðlunum sem voru ekki þóknanlegir ráðherrunum, þá held ég að skapist loksins tækifæri til að fara í rökræna umræðu um þessi mál og það stendur ekki á okkur í Samf. og ekki á þeim sem mynda stjórnarandstöðuna. Stjórnarandstaðan hefur lagt fram þingmál sem varðar fjölmiðla. Við þurfum að undirbúa lagasetningu og reglur frekar en menn hafa gert. Við þurfum að gera það eins og ég hef sagt með víðtækri umræðu og samráði.

Það er sjálfsagt að setja á fót þessa nýju fjölmiðlanefnd með fulltrúum stjórnmálaflokka en ég er þeirrar skoðunar að þar eigi líka að vera fulltrúar sérfræðinga, áhugamenn og þeirra aðila sem tengjast greininni. Við þurfum að setja þessa umræðu í gang á vettvangi fjölmiðlanna sjálfra með þátttöku blaðamanna, dagskrárgerðarmanna, annarra starfsmanna, stjórnenda og eigenda, auglýsenda og fræðimanna um fjölmiðlun á ýmsum sviðum. Við eigum að líta á þetta sem hluta í því að lýðræðisvæða samfélagið sem hefur liðið undir oki þess ofbeldis og offors sem fólk upplifir af hálfu núverandi ríkisstjórnar.

Hvað er það þá sem við eigum að hafa undir í þeirri umræðu? Við þurfum að skoða í fyrsta lagi hvaða lýðræðislegar kröfur sé eðlilegt að gera til íslenskra fjölmiðla. Hvernig verður best brugðist við þeirri hættu sem sannarlega getur stafað af samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum? Við þurfum líka að athuga hvernig við hlúum sem best að fjölmiðlun sem atvinnuvegi í nánum tengslum við aðra íslenska menningarútgerð, svo ég leyfi mér að kalla það því orði. Og við þurfum fyrst og síðast líka að skoða hver eru eðlileg afskipti almannavaldsins af fjölmiðlum sem m.a. eiga að veita það aðhald.

Við í Samf. höfum lagt fram tillögur okkar. Við höfum stundum setið undir ásökunum um að hafa ekki skýrt stefnu okkar. Mörgum sinnum hef ég reynt í ræðum á Alþingi að vekja umræður meðal stjórnarþingmanna um þær hugmyndir sem við höfum haft vegna þess að þær byggja á grundvallarágreiningi við hv. þingmenn stjórnarflokkanna, sem sé því að hægt sé að stemma stigu við þeim ógnum sem hugsanlega kunna að koma fram vegna samþjöppunar eignarhalds á fjölmiðlavettvangi með öðrum hætti en þeim að ráðast með sleggju og sveðju á fyrirtækin. Við teljum að hægt sé að ná sama árangri, hugsanlega betri árangri en með miklu miklu vægari leiðum.

[14:15]

Við höfum sagt það alveg hreinskilnislega að við viljum treysta og efla stöðu Ríkisútvarpsins þvert á það sem ýmsir hinir ungu Tyrkjar Sjálfstfl. vilja gera, að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið og jafnvel selja part af því og að lokum það allt, þá viljum við efla og styrkja Ríkisútvarpið vegna þess að það skapar samkeppnismótvægi við einkareksturinn sem er svo öflugur í dag. En það skiptir líka miklu máli að Ríkisútvarpið sé frelsað undan því pólitíska oki sem það sætir í dag. Eigendavald Sjálfstfl. er ívið meira í Ríkisútvarpinu, tel ég, með núverandi skipan þess en segja mætti að eigendavald Baugs væri á þeim fjölmiðlum sem undir liggja. Og af því að hv. þm. Birgir Ármannsson brosir þreytulega ætla ég að hlífa honum við því að fara með þá upptalningu sem ég gæti gert til að undirstrika frekar þessar staðhæfingar mínar.

Við höfum í öðru lagi lagt til á Alþingi að sett verði í lög ákvæði sem skyldar fjölmiðla til að setja sér innri reglur sem tryggja sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum. Við höfum sömuleiðis lagt það til að sett verði lög sem tryggi það að almenningur hafi alltaf greiðan aðgang að upplýsingum um eignarhald á fjölmiðlum. Ég er t.d. má segja fíkinn neytandi Morgunblaðsins, en guði sé lof fyrir að ég veit hverjir eiga Morgunblaðið því ég les blaðið, framreiðslu þess og efnistök út frá þeirri staðreynd að eignarhaldið liggur þokkalega á ljósu og það þarf að vera jafnan meginregla.

Í fjórða lagi hafa menn sett fram þær skoðanir með réttu að hugsanlegt sé að fyrirtæki sem hefur ofurtök á fjölmiðlum og er líka í meiri háttar óskyldum rekstri geti misbeitt eigendavaldi sínu til að fá betri umfjöllun um fyrirtæki sín í miðlunum eða þá að skaða aðra keppinauta með umfjöllun eða í þriðja lagi að fá betri auglýsingakjör en aðrir. Við í Samf. teljum að með því að styrkja samkeppnislög og með því að styrkja eftirlitsstofnanir á borð við Samkeppnisstofnun dugi það sem öflugt tæki til að koma í veg fyrir að eigandi stórfyrirtækja í óskyldum rekstri geti með þeim hætti misnotað fjölmiðla til að hygla sér varðandi t.d. beinar eða óbeinar auglýsingar eða umfjöllun.

Í stuttu máli er það skoðun okkar í Samf. að samþjöppun á fjölmiðlamarkaði geti falið í sér hættur til lengri tíma. En við teljum hins vegar ekki í dag að merki sé um að sú samþjöppun sé að leiða til pólitískrar eða menningarlegrar fjölbreytni. Þvert á móti, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, er einkenni fjölmiðlunar í dag samkeppni, sem leiðir til grósku og þar af leiðandi fjölbreytni og miklu meiri en þegar Morgunblaðið og RÚV voru einráð á markaðnum.

Ég vil líka taka skýrt fram til að undirstrika þann sáttahug sem er varðandi skipan fjölmiðlamála af okkar hálfu að í fjölmiðlanefndinni á að sjálfsögðu líka að ræða um eignarhald. En ég tek skýrt fram að takmarkandi reglur um eignarhald umfram almennar reglur samkeppnislaga teljum við ekki koma til greina nema markmiðum um fjölbreytni og samkeppni verði ekki náð með öðrum hætti og þá því aðeins að meðalhófsreglunnar sé gætt út í æsar og ekki verði um að ræða nein persónuleg einkastríð eins og við höfum séð síðustu mánuði.

Herra forseti. Ég hóf mál mitt á því að ræða um málskotsréttinn. Ég tel að við blasi af máli hv. formanns allshn. og ýmsum yfirlýsingum sem hafa komið síðustu daga að ríkisstjórnarflokkarnir hyggist tengja endurskoðun stjórnarskrárinnar sérstaklega við afnám málskotsréttarins. Þrátt fyrir skýrar yfirlýsingar forustumanna stjórnarflokkanna í miðlunum í gær og þrátt fyrir þær yfirlýsingar sem komu innan allshn. í gær líka urðu mér það sár vonbrigði að lesa álit meiri hluta allshn. vegna þess að ég fæ ekki betur séð en þar sé verið að ósekju að lýsa því með alls konar málavafstri hversu ófullkomin og vond 26. gr. sé þar sem málskotsrétturinn er. Síðar er talað um það með þeim hætti að ekki er hægt annað en tengja það saman að endurskoðun stjórnarskrárinnar eigi að tengjast þessu sérstaklega. Við teljum algerlega fráleitt að tengja endurskoðun stjórnarskrárinnar, hvað þá 26. gr. sérstaklega við úrfellingu þeirra laga sem við erum að ræða. Ég vil leggja á það mikla áherslu að ég tel að ákvæði greinarinnar séu skýr. Ég tel að engin óvissa sé uppi um túlkun á ákvæðum 26. gr. önnur en sú óvissa sem ríkisstjórnarflokkarnir og fyrst og fremst Sjálfstfl. hafa kosið að búa sér til, vangaveltur um allt annað en leiðir beint af orðanna hljóðan. Stjórnlagakreppan sem hv. þm. Bjarni Benediktsson reifaði áðan í framsögu sinni er heimatilbúinn vandi ríkisstjórnarflokkanna fyrst og fremst, búinn til af því að þeir þorðu ekki að leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu af því að þeir óttuðust að gertapa henni. Þess í stað þyrluðu menn upp moldroki til að skapa tilhæfulausa óvissu um framkvæmd ákvæðisins. Ég get ekki annað en mótmælt því harðlega í tengslum við þetta mál ætli menn sér í reynd að ráðast í enn einn leiðangurinn til að leita hefnda með því að taka þetta ákvæði úr sambandi og við munum ekki taka þátt í hinu.

Hitt liggur alveg fyrir að Samf. er reiðubúin til að taka þátt í endurskoðun stjórnarskrárinnar en hún hefur hins vegar fyrir sitt leyti lagt fram áhersluatriði sín. Ég vil einnig segja það alveg klárt og kvitt, af því að í máli mínu hefur komið fram nokkur óánægja með ýmsar staðhæfingar í nefndaráliti meiri hlutans, að það er röng fullyrðing sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að formaður Samf. hafi með jákvæðum hætti tekið undir að ráðast ætti sérstaklega í endurskoðun I. og II. kafla stjórnarskrárinnar. Þvert á móti liggur fyrir í útskriftum frétta ljósvakamiðla, í grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið og í svari mínu við blaðamann Morgunblaðsins að ég teldi margt annað þarfara og brýnna varðandi endurskoðum en það. En auðvitað er séð núna með hvaða hætti menn lögðu í allan þennan leiðangur og ég skil núna þegar ég sat í Silfri Egils með hæstv. dómsmrh. Birni Bjarnasyni snemma vetrar þegar hann fór að tala um nauðsyn þess að aftengja málskotsréttinn.

Ég vil líka segja, herra forseti, að ég varð dapur þegar ég heyrði hæstv. fjmrh. lýsa því svo að það hefði verið niðurstaða starfshóps ríkisstjórnarinnar um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar að viðskilnaður stjórnarskrárgjafans 1944 hefði verið svo gallaður að þess vegna hefði ekki verið hægt að ráðast í þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þegar ég síðan þaullas skýrslu starfshóps lögfræðinganna sem mér fannst æ betri eftir því sem ég las hana oftar og sá þá rígnegldu fyrirvara sem skráðir eru á þremur stöðum í gegnum skýrsluna, þá fann ég hvergi neitt sem benti til þess að þetta hefði verið niðurstaða nefndarinnar. Þvert á móti segir á einum stað, með leyfi hæstv. forseta:

,,Á vettvangi starfshópsins hefur þeirri skoðun verið hreyft að viðskilnaðurinn frá 1944 hafi verið gallaður.``

Þegar við spurðum út í þetta í allshn. kom í ljós að tveir fulltrúar sem voru spurðir út í þetta töldu að einn maður hefði komið til fundar við nefndina og nefnt þetta svo. Ég held að það hafi verið tugir manna sem leitað var til. Einn maður hreyfði þessu og þeir greindu réttilega frá því að þessu hefði verið hreyft. Stjórnarflokkarnir, fyrst og fremst Sjálfstfl., hefðu síðan notað þetta rangsnúið og afbakað til að halda því fram að gandskoðun starfshóps lögfræðingahóps ríkisstjórnarinnar hafi komist að þeirri niðurstöðu að viðskilnaðurinn hafi verið svo gallaður að ekki hafi verið hægt að kjósa. Þetta er auðvitað tóm vitleysa, herra forseti. Og ég get ekki annað, vegna þess að mér rennur blóðið til skyldunnar, en rifjað það upp að þegar menn á hinu háa Alþingi voru að samþykkja stjórnarskrá 1944 var þetta atriði þaulrætt. Það var tvennt sem rætt var út í hörgul. Það var í fyrsta lagi 26. gr., málskotsrétturinn, og í öðru lagi sú breyting í frv., sem lá þá fyrir Alþingi, úr því að forseti væri þingkjörinn yfir í að hann yrði þjóðkjörinn. Og einmitt þjóðkjörið tengdist málskotsréttinum. Eins og þá var margsinnis fjallað um það, ekki síst af þingmönnum vinstri manna, að forsetinn yrði þjóðkjörinn sem þá leiddi til þess að hann gat verið umboðsmaður þjóðarinnar þegar sú staða kæmi upp, eins og Magnús Jónsson, þingmaður Sjálfstfl., orðaði það, að gjá myndaðist millum þings og þjóðar. Þá hafði forsetinn sem þingkjörinn umboðsmaður þjóðarinnar þennan rétt, í reynd ekki til að stöðva eða fella lög heldur til að skjóta þeim í hendur almennings. Og ég verð að segja að mér finnst þetta ákvæði tær snilld. Ég tel að þetta sé þrauthugsað og það hafi heldur betur sýnt sig að þetta er nauðsynlegur nauðhemill þegar ríkisstjórn eins þessi tapar sjónum af því sem rétt er í lýðræðislegu samfélagi og lendir utan vegar á keyrslunni. Þetta var það sem bjargaði, þetta var nauðhemillinn.

Þegar ég held því fram að þetta hafi verið rætt út í hörgul vísa ég m.a. til þess að hér voru við frv. fluttar þrjár brtt. sem beinlínis vörðuðu 26. gr. Jakob Möller, þingmaður Sjálfstfl., lagði til að 2. og 3. mgr. greinarinnar yrðu felldar út þannig að málskotsrétturinn hyrfi og flutti fyrir því rök. Björn Þórðarson forsætisráðherra flutti þá tillögu að lög tækju ekki gildi þrátt fyrir synjun forseta til bráðabirgða heldur lægju ógild þangað til þjóðaratkvæði hefðu skorið úr um hvort þeim skyldi synjað eða þau samþykkt.

Jón Pálmason, þingmaður Sjálfstfl. og síðar forseti þingsins, lagði til að ef forseti synjaði kæmi málið aftur til þingsins þar sem aukinn meiri hluti gæti ráðið. Allar þessar tillögur voru felldar. Af hverju voru þær felldar? Þær voru felldar vegna þess að þingmenn vildu nákvæmlega þennan farveg sem ég sagði áðan að væri svona snilldarlega tær vegna þess að mér finnst hann svo rökréttur. En það að þessar tillögur voru settar fram, ræddar en síðan felldar undirstrikar það að þingmenn vissu að hverju þeir gengu. Stjórnarskrárgjafinn vissi hvað hann var að gera árið 1944.

Að lokum, herra forseti, vil ég lýsa því aftur að það er eindregin afstaða okkar í stjórnarandstöðunni að þetta mál hefði átt að ganga alla leið til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri æskilegast og það væri lýðræðislegast og það væri rökréttast miðað við þau sannfærandi rök sem hv. þm. Bjarni Benediktsson flutti áðan fyrir því að frv. sem lagt var fram 5. júlí yrði kippt til baka. Hv. þm. sagði: Það leikur á því stjórnskipulegur vafi hvort hægt sé að samþykkja slíkt frv. Hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur líka staðfest að það leikur sams konar stjórnskipulegur vafi á því hvort hægt sé að kippa máli út úr þjóðaratkvæði eftir að forseti hefur synjað. Ef ríkisstjórnin ætlar að vera sanngjörn, ef hún ætlar að vera samkvæm sjálfri sér, þá hefði hún að sjálfsögðu látið stjórnarskrána njóta vafans í þessu tilviki eins og hinu og látið málið ganga til þjóðaratkvæðis.