Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 14:41:11 (9532)

2004-07-21 14:41:11# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Frsm. minni hluta allshn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikið mótmælastuð á hv. þm. Jónínu Bjartmarz og ég skil það vel. Hún er nýkomin af fundum í Framsfl. þar sem hún mótmælti forustu flokksins, þar sem hún tók undir kröfuna um þjóðaratkvæði. Ég held að hún ætti frekar að koma hingað og skýra það hvernig hún getur lagst gegn því hér að fólkið fái rétt sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að hafa kynt bálið undir formanni sínum á fundinum í Reykjavíkurfélaginu, komið í útvarp og sagt: Fólkið --- ég hef ekki gert skoðanakönnun á því --- en fólkið á þessum fundi og fólkið um landið vill þjóðaratkvæði. Það er það sem hún ætti að útskýra.

Hún ætti líka að skýra út fyrir þingmönnum hvernig á því stendur að hún skrifar undir þetta álit með fyrirvara við ákveðnar fullyrðingar en leyfir félögum sínum samt að segja að það sé niðurstaða meiri hlutans að efnisatriði gamla frv. standist stjórnarskrá þegar hún er því ósammála.