Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 14:44:13 (9535)

2004-07-21 14:44:13# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að hafa að nokkru leyti skýrt stefnu Samf. varðandi fjölmiðlamálið og ég er svona undir þessum ræðum að reyna að púsla saman í einhverja mynd stefnu flokksins í þeim mikilvæga málaflokki. Það var t.d. mjög mikilvægt að hv. þm. áréttaði þá skoðun sem hann setti fram m.a. í sjónvarpsþætti með mér í gærkvöldi að það væri sérstaða Samf. að vilja ekki setja bein lagaákvæði varðandi eignarhald á fjölmiðlum.

Annað mál sem hv. þm. hefur áréttað mjög í málflutningi sínum í þinginu og reyndar aðrir þingmenn Samf. er að það verði að vinna þannig að málum að það valdi sem minnstri röskun gagnvart þeim fyrirtækjum sem starfa á fjölmiðlamarkaðnum. Þess vegna verði það að vera þannig að frá því að lagasetning á sér stað og þar til hún tekur gildi verði að líða nokkur tími til þess að fyrirtækin geti fengið tækifæri til þess að aðlaga sig aðstæðunum. Ég hef mikinn skilning á þessu sjónarmiði og ég tel reyndar að það hafi komið fram í þeim frv. sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram í þessum málum og þingið hefur verið að ræða. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þm. að því (Forseti hringir.) hversu langur tími hann telur að þurfi að líða frá því að ný lög (Forseti hringir.) varðandi þau mál sem hér er verið fjalla um eru samþykkt og þangað til þau taka gildi.