Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 14:46:49 (9537)

2004-07-21 14:46:49# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að hryggja hv. þm. með því að hann hefur valdið mér dálitlum vonbrigðum með svari sínu. (PHB: Og ekki í fyrsta skipti.) Ég spurði hversu langur tími þyrfti að líða frá því að lögin væru samþykkt og þangað til þau tækju gildi. Svarið var: Ekki mjög langur tími. Ég kann engan mælikvarða á þetta. Hvað þýðir þetta? Eitt ár? Tvö ár? Er hv. þm. tilbúinn að svara því hér og nú? Eru það þrjú ár eða mánuðir? Eru þetta vikur? Hv. þm. virðist ekki hafa skoðun á því.

Ég spyr vegna þess að hv. þm. sagði í ræðu sinni áðan að undirbúningurinn að þessu, m.a. að því að setja lög sem tryggi sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum, þyrfti að taka 2--3 ár. Fram að því munu ekki gilda nein lög um sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum og ekki gilda nein lög sem fela í sér styrkingu Samkeppnisstofnunar til að taka á þessum málum. Það munu ekki gilda nein lög varðandi Ríkisútvarpið, eins og hv. þm. var að boða í málflutningi sínum.

Það liggur fyrir að stefna Samf. í þessum málum er að gera ekki neitt næstu þrjú árin a.m.k. og síðan á að líða ekki mjög langur tími þangað til þessi lög taka gildi. Ég verð að segja, virðulegur forseti: Myndin er á vissan hátt að skýrast. Það á ekki að gera neitt á næstunni og menn ekki tilbúnir til að gefa til kynna nánar um útfærslu málsins.