Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 15:17:51 (9541)

2004-07-21 15:17:51# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri á hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur að hún er að fara í sama farið og félagar hennar fóru í fyrr í dag. Hún reynir að etja saman fyrrum forseta og núverandi forseta og afstöðu þeirra á hverjum tíma. Ég ætla ekki að ræða þá hlið málsins. Þau verða að gera það upp við sig sjálf.

26. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um þennan rétt forseta. Hver forseti fyrir sig verður að meta hvaða mál það eru í umræðunni sem hann telur að eigi e.t.v. að ganga til þjóðarinnar.

Vigdís Finnbogadóttir tók sér umhugsunarfrest varðandi EES-málið. Hún komst að þeirri niðurstöðu að vísa því ekki til þjóðarinnar. Það var hennar ákvörðun. Vigdís Finnbogadóttir lýsti því yfir að ef Kárahnjúkamálið hefði verið lagt fyrir hana þá hefði hún vísað því til þjóðarinnar. Ég er ekki viss um að ég hefði endilega verið sammála því að það mál hefði átt að ganga til þjóðarinnar. Ég legg ekki dóm á það en mér fannst ákvörðun forseta rökrétt miðað við alla þá umræðu sem farið hefur fram í þjóðfélaginu og þau viðhorf sem maður skynjaði með þjóðinni.

Á þeim tíma sem ég hef fylgst með pólitík eru nokkur mál sem ég teldi að þjóðin hefði átt að segja af eða á um, burt séð frá minni skoðun. Kárahnjúkamálið er eitt þeirra. EES-málið er eitt þeirra. Frjálst framsal kvótans árið 1990 er eitt þeirra. Fjölmiðlamálið er eitt þeirra. Þau eru kannski fleiri þó ég muni það ekki í augnablikinu. Það er ævinlega ákvörðun forseta á hverjum tíma hvaða leið hann velur og við tökum svo afstöðu til þess hvort við teljum það rökrétt eða ekki. Ég tel ákvörðun forsetans hafa verið rökrétta.