Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 15:20:04 (9542)

2004-07-21 15:20:04# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. taldi upp mál sem maður hlýtur að velta fyrir sér í samhengi við þetta mál, hvers vegna forsetinn rak ekki puttana upp í loft og tékkaði á vindstöðunni í það og það skiptið. Hvernig stóð á því að hann vísaði ekki til þjóðarinnar máli sem olli miklum deilum í þjóðfélaginu, Kárahnjúkamálið? Af hverju var það ekki sett í dóm þjóðarinnar miðað við fjölmiðlaumræðuna sem þá fór fram? Að vísu hefur fjölmiðlaumræðan sennilega orðið heldur meiri um þetta mál. Hvers vegna skyldi það vera? Málið fjallar um hagsmuni þess fólks sem vinnur á fjölmiðlunum. Á hinn bóginn erum við öll sammála um að setja þurfi einhver lög um umhverfi fjölmiðla. Það hefur komið fram hjá öllum þingmönnum sem um málið hafa fjallað. Þess vegna hlýtur maður að velta fyrir sér hvað það var í þessu máli sem varð til að forsetinn ákvað að greiða bæri atkvæði um þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hlýt líka að spyrja hv. þm. hvort hann hafi ekki farið þess á leit að stór mál, sem hann hefur borið mjög fyrir brjósti, fiskveiðistjórnarmál og fleiri í þeim dúr, yrðu sett í þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að þjóðin gæti tekið afstöðu til slíkra mála, með sömu rökum? Hann segir rökrétt að þjóðaratkvæðagreiðsla verði um þetta mál.