Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 15:25:41 (9545)

2004-07-21 15:25:41# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alls ekki viss um að ég hafi náð samhenginu í þessu með dauðadóminn. Eitt er þó alveg ljóst, að það væri Alþingi sem setti lög um dauðadóm. Ég trúi því ekki að þeir 63 sem hér sætu mundu kasta til þess höndunum með slíku vinnulagi, að menn settu slík mál í lög og þau væru mjög umdeild. Getur hv. þm. hugsað sér að stjórnarmeirihlutinn mundi knýja fram lög um dauðadóm þar sem munaði einum eða tveimur atkvæðum, ef upp kæmi þessi vafasama staða að helmingur þjóðarinnar vildi dauðarefsingu og hinn helmingurinn vildi ekki dauðarefsingu? Ég held að við ættum ekki að setja málið í þennan búning, hv. þm. Pétur Blöndal.

Ef ég reyni hins vegar að skilja hvað hv. þm. er að fara, þá mundi ég giska á að hv. þm. væri að velta fyrir sér hvort setja ætti einhvers konar dagsetningu á ákvarðanir þess að fella lög úr gildi eða afturkalla þau. Að þingið hefði sem sagt fimm til tíu daga til að afturkalla lög, gæti gripið inn í þegar forsetinn hefði synjað.

Er það þá virkilega svo, hæstv. forseti, að við eigum algerlega að treysta á að forsetinn geti alltaf leiðrétt stefnuna þegar hún er tekin vitlaust í Alþingi? Mér finnst að nú sé stefnan röng og þess vegna segi ég að mér finnst rökrétt að forseti skyldi hafa tekið þessa ákvörðun, að beita 26. gr. og leggja málið fyrir þjóðina.