Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 15:30:25 (9548)

2004-07-21 15:30:25# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla fyrst að gera örlitlar athugasemdir við nefndarálit meiri hlutans og framsöguræðu formanns allshn. og talsmanns meiri hlutans, hv. þm. Bjarna Benediktssonar, þannig að það væri æskilegt ef hv. 4. þm. Reykv. n. sæi sér fært að koma í salinn, auk þess sem það er auðvitað vel við hæfi að formaður allshn. sitji undir umræðunni.

Það sem ég geri athugasemdir við eða mér finnst svolítið sérstakt í nefndaráliti meiri hlutans er fyrst og fremst tvennt. Annars vegar að í því er fremur óvenjulegt nöldur í garð minni hlutans. Ég hef aðallega vanist því að í nefndarálitum tali menn hver fyrir sig og nefndarálit meiri hlutans sé í aðalatriðum um afstöðu meiri hlutans, útskýri hana og rökstyðji og öfugt. En inn í nefndarálit meiri hlutans hafa læðst setningar sem eiga litið skylt við öflugan rökstuðning fyrir málstað meiri hlutans, enda hann kannski vandfundinn og menn hafa þar af leiðandi orðið að reyna að fjalla um eitthvað annað í nefndarálitinu. Til dæmis er talað um og ónotast út í það að stjórnarandstaðan hafi engan áhuga sýnt á því að setja eignarhaldi á fjölmiðlum skorður þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar, án þess að það sé rökstutt nánar. Hins vegar leggur sáttavilja meiri hlutans langar leiðir af nefndarálitnu eins og kunnugt er og sá sáttavilji hefur nú heldur betur sýnt sig í verki í þessu máli.

Hitt sem er athyglisvert í nefndarálitinu og ég hygg að sé nýmæli er að í því er sérstök pólitísk yfirlýsing fimm þingmanna, eins úr Framsfl. og fjögurra úr Sjálfstfl., um þeirra meiningar um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það er að sjálfsögðu fullkomlega merkingarlaust sem slíkt að inn í nefndarálit meiri hluta allshn. komi yfirlýsing út í loftið af þessu tagi. Auðvitað geta þessir fimm þingmenn talað fyrir sig og ef þeir kjósa að gera það með þessum tiltölulega sérkennilega hætti, einn þingmaður úr Framsfl. og fjórir úr Sjálfstfl., er það út af fyrir sig allt í lagi. En það liggur vonandi fyrir og er ljóst, frú forseti, að það bindur ekki hendur eins né neins né hefur neitt sérstakt gildi gagnvart þeirri vinnu sem vonandi fer af stað við að endurskoða stjórnarskrána, enda veit ég þess engin dæmi að menn hafi gengið til slíkrar vinnu á grundvelli fyrirframskilyrða. Einasta dæmið um slíkt væri þá hið sérstaka tilvik þegar menn hófu nauðsynlega endurskoðun stjórnarskrárinnar til undirbúnings stofnunar lýðveldisins og afmörkuðu það verksvið sem stjórnarskrárnefndin, milliþinganefnd, fékk af því tilefni. En það er önnur saga.

Frú forseti. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í það sem liðið er í málinu. Það mætti halda langar ræður og rifja þetta dæmalausa mál rækilega upp og það mætti örugglega vera upp undir hálfan mánuð að því að tilgreina ýmis ummæli og yfirlýsingar og snilldaryrði sem aðstandendur málsins á ýmsum tímum hafa fært fram því til ágætis. En ég ætla ekki að gera það, einfaldlega vegna þess að mér finnst það ekki skipta öllu máli. Ég ætla að láta nægja örstutta upprifjun og fara aðeins yfir þá niðurstöðu sem blasir við hvað varðar framgöngu ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar á Alþingi, þ.e. uppgjöfina miklu, hinn herfilega ósigur sem sumir hafa líkt við endalok valdatíma Napóleons þegar hann tapaði orrustunni miklu við Waterloo 1815.

Það er alveg rétt að ríkisstjórnin er að tapa sínu hundrað daga stríði. Í raun hefur það þó staðið lengur, í sjö til átta mánuði hefur málið verið á dagskrá og er nú loksins að komast aftur á þann byrjunarreit, eða vonandi skulum við segja, sem það var statt á á Alþingi í nóvember og desember sl. þegar hreyft var við því af hálfu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og þingmanna fleiri flokka. Fyrst reyndar með fyrirspurn sem var á dagskrá þingfundar 19. nóvember, ef ég man rétt, þegar hæstv. forsrh. svaraði fyrirspurn frá Álfheiði Ingadóttur um fjölmiðlamál. Í framhaldinu var flutt þáltill. af þingmönnum fjögurra flokka sem gekk út á hvað? Út á hvað gekk hún? Að þverpólitísk nefnd með þátttöku og samstarfi við fagaðila færi í að skoða þessi mál öll í heild sinni, að hún gengi til þeirrar vinnu án skilyrða, gæfi sér ekkert fyrir fram um niðurstöðuna.

Er það ekki þetta sem menn eru farnir að tala um núna sjö mánuðum síðar? Jú, loksins. Og það sem upp úr krafsinu hefur hafst er eitthvert dýrkeyptasta, fyrir ríkisstjórnina og meiri hluta hennar, kennslubókardæmi um það hvernig ekki á að vinna að hlutunum, eitthvert hrapallegasta dæmi sem seinni áratuga stjórnmálasagan geymir um hvernig eitt stykki ríkisstjórn, hvernig tvö stykki flokksformenn eiga ekki að gera hlutina. Því það og það eitt er hægt að læra af þeirri sögu, hvort sem það er hundrað daga stríðið frá því í apríl/maí eða sjö, átta mánaða streðið frá því í nóvember/desember.

Stundum er sagt að sá valdi miklu sem upphafinu veldur og það á við hér. Ríkisstjórnin valdi því miður þá ólánsleið í málinu sem henni er auðvitað ærið töm, að kokka um málið þröngt í herbúðum sínum, hafa ekki samstarf við aðra aðila, hvorki stjórnarandstöðu, hagsmunaaðila, samtök né almenning í landinu. Í því ólánsupphafi er mikið af ógæfu málsins fólgið eða þaðan er það sprottið. Niðurstaðan er þessi hrottalega bræðrabylta þeirra hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar og hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar og flokka þeirra á Alþingi, einhver hrottalegasta bræðrabylta sem lengi hefur sést í íslenskum stjórnmálum. Ekki þarf að hafa öllu fleiri orð um það.

Um ferlið sem hófst með ákvörðun forseta Íslands 2. júní sl. og það sem síðan hefur gerst ætla ég að fara nokkrum orðum, fyrst og fremst til að minna okkur á að auðvitað áttu menn þá eina af mörgum leiðum í land í málinu sem ekki var valin. Þá leið að taka því eins og menn, hvað sem mönnum fannst um þann gerning sem slíkan, að forsetinn hafði tekið sína ákvörðun. Og ég tek það fram, frú forseti, að mér finnast vangaveltur um það hvort við teljum að þessi eða hinn forsetinn á þessum eða hinum tímum hefði átt að beita málskotsréttinum eða ekki fullkomlega merkingarlausar því að það er ekki og á ekki að vera á okkar könnu að bollaleggja um það. Meðan stjórnarskráin er í gildi eins og hún er þá er það vald hjá forsetanum og það er hann og hann einn sem fer með það og getur svarað fyrir það og rökstutt það. Þingið á beinlínis ekki að vera að blanda sér í það. Það er óviðeigandi með nákvæmlega sama hætti og við blöndum okkur ekki í það t.d. þegar mál eru fyrir dómstólum þó að þau hafi varðað störf Alþingis og það á heldur ekki að vera að skrifa Hæstarétti bréf, frú forseti.

Júnímánuður fór í vandræðalega leit ríkisstjórnarinnar að samkomulagi um girðingar og þröskulda eða takmörkun á atkvæðisrétti fólks eftir að þeir höfðu með ólund viðurkennt og svarið að auðvitað yrði að fara í kosningarnar, það yrði að láta stjórnarskrána gilda. Einn á fætur öðrum dröttuðust þeir fram á sviðið og viðurkenndu það. Þannig leið júní. Settur var starfshópur sem fékk það erindisbréf að útfæra reglur um kosningar og hvort ekki mætti setja inn girðingar og þröskulda.

Hvað var svo gert? Tæpum sólarhring áður en Alþingi átti að koma saman til fundar --- kvatt saman með bréfi frá 10. júní að koma hér til fundar mánudaginn 5. júlí til að taka nauðsynlegar ákvarðanir vegna væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu --- var kúvent og þá kom brellufrumvarpið fram á sjónarsviðið. Allri vinnu júnímánaðar og fram á helgina 3.--4. júlí var hent og algjör kúvending tekin og ákveðið að leggja til við Alþingi allt önnur viðbrögð en verið höfðu alveg fram að því uppi á borðinu, brelluleiðina sem svo er kölluð og kennd við hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason, og má hann lengi frægur verða af því að eiga þá nafngift. Ríkisstjórnin og meiri hluti hennar svona að mestu leyti hélt sig við þessa málsmeðferð í eina og hálfa viku. Um miðbik síðustu viku hrundi sá málatilbúnaður ofan í hausinn á höfundum sínum, brelluleiðina rak upp á sker.

Þriðju viðbrögðin litu svo dagsins ljós í formi breytingartillögu meiri hlutans sem kynnt var í gær eftir að málið hafði farið enn einn hring í stjórnarherbúðunum, enn ný lota krísufunda og þingflokksfunda og ríkisstjórnarfunda en þó fyrst og fremst auðvitað tvímenningsfunda. Og þá blasti uppgjöfin við. Þannig er ferill málsins.

Þá kemur að því hvort það séu rétt viðbrögð af hálfu Alþingis að fella frv. á brott og ætla sér með því að afstýra því eða komast hjá því að láta þjóðaratkvæðagreiðsluna fara fram. Um það hef ég mjög djúptækar efasemdir og ég ætla að færa fyrir því rök. Það eru kannski fjögur atriði sérstaklega sem ég tel þar vega þyngst. Og það undrar mig nokkuð að talsmenn meiri hlutans hér t.d. skuli ekki hafa komið inn á það og rætt það og rökstutt vegna þess að það eru sögulegir atburðir sem hér eru að gerast. Við erum að skapa fordæmi, verið er að stíga ný skref í mótun stjórnskipunarhefða, getum við sagt, í landinu. Og er það ekki einnar messu virði, rökstuðnings í nefndaráliti eða framsöguræðum ítarlegri en þess sem hér hefur farið fram hingað til?

Rök mín fyrir því að það sé afar hæpið að fara þessa leið, þó að menn hendi brelluhugmyndunum út af borðinu og hafi þetta hreina niðurfellingu hinna óstaðfestu laga eða hins óstaðfesta frv., eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi hef ég miklar efasemdir um að það standist stjórnarskrána. Ég hef þær vegna þess að ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar eru ótvíræð. Þar stendur orðið ,,skal``, skal kjósa. Og hvergi annars staðar í íslensku stjórnarskránni eru jafnréttháar eða skýrar heimildir sem Alþingi getur gripið til og sagt: Þrátt fyrir ákvæði 26. gr. megum við bregðast svona við. Hvar stendur í stjórnarskránni íslensku eitthvað sem gefur mönnum stöðu til að víkja til hliðar skýrum ákvæðum 26. gr.? Ekki dugar að mínu mati að bera þar fyrir sig hið almenna lagasetningarhlutverk Alþingis af því að í 2. gr. stjórnarskrárinnar stendur að forseti og Alþingi fari saman með löggjafarvaldið og það verður að skoða 26. gr. í samhengi við það.

Í öðru lagi hef ég miklar efasemdir um að það eigi að fara þessa leið vegna þess að ég tel að það gangi gegn hugsun stjórnarskrárgjafans á sínum tíma. Ef við erum í einhverjum vafa um skýr ákvæði og orðanna hljóðan sem stendur í hinum skrifaða texta hvað gerum við þá næst? Við reynum að átta okkur á því hvað vakti fyrir mönnum, hvernig framkvæmdin var hugsuð af þeim sem stóðu að setningu stjórnarskrárinnar. Og ég tel að það sé líka ljóst að það gangi gegn hugsun stjórnarskrárgjafans á sínum tíma að láta kosninguna ekki fara fram og fara út í viðbrögð af því tagi sem nú er verið að leggja til við þingið.

Í þriðja lagi --- og það kann einhverjum að þykja hljóma spánskt úr mínum munni og annað hefur verið borið upp á mig á köflum og okkur fleiri undanfarna daga --- hef ég miklar efasemdir um þessi viðbrögð vegna þess að þau færa forsetanum meira vald en stjórnarskráin ætlaðist til og það gengur gegn þeirri hugsun sem var alveg kristaltær niðurstaða 1944, að forsetinn væri eingöngu milligöngumaður milli þingsins og þjóðarinnar í þeim tilvikum að hann synjaði frv. staðfestingar. Það er algerlega skýrt í ræðum margra þingmanna þegar þetta er rætt að þannig var þetta hugsað. Hvorki meiri né minni völd átti forsetinn að fá. Og hvað eru menn þá að gera ef Alþingi fer að móta þá hefð, þó að það sé aðeins eitt fordæmi, a.m.k. fyrst um sinn, að bregðast öðruvísi við en að láta kosninguna fara fram? Jú, menn eru að virkja synjunarvaldið og stöðva það hjá forsetanum sjálfum, ekki satt? Forsetinn er þá auðvitað í sterkari stöðu í þeim skilningi en ef menn væru þeirrar skoðunar að það væri afdráttarlaust að ákvörðun hans fylgdi því sjálfkrafa að málið færi frá honum til þjóðarinnar. Þannig rökstuddi forsetinn líka ákvörðun sína. Það finnst mér og skipta máli, að hann væri ekki að taka efnislega afstöðu til málsins þannig að forsetinn nálgaðist þetta út frá málskotsréttarinntaki 26. gr. stjórnarskrárinnar en ekki synjunarvaldseðli þess.

[15:45]

Í fjórða lagi, virðulegur forseti, tel ég að við eigum hér við þessar aðstæður að ræða í hvaða farveg er verið að setja þessa hluti og þessi samskipti ef við veljum þessi viðbrögð, því að það verður líka að hugsa fyrir því. Það kemur dagur eftir þennan dag. Er það þá þannig og inn í þann farveg sem við viljum a.m.k. gefa eitt fordæmi um að þessi samskipti þróist, að forsetinn geti synjað frumvarpi og Alþingi taki það til sín aftur, eftir atvikum felli það á brott eða komi með það aftur til forsetans í breyttri mynd? Forsetinn synjar kannski aftur og sendir þingið í þriðja leiðangurinn og fellst svo að lokum á eitthvað allt annað.

Hvað býður það upp á, frú forseti? Það býður upp á hluti sem ég fullyrði að stjórnarskrárgjafarnir á sínum tíma ætluðust aldrei til.

Af þessum fjórum meginástæðum, frú forseti, hef ég miklar efasemdir um að slík viðbrögð standist og að þau séu skynsamleg. Efasemdir mínar eru því hvort tveggja af lagalegum toga vegna óvissunnar gagnvart stjórnarskránni en líka af efnislegum eða pólitískum toga. Ég hef miklar efasemdir um að færa eigi slík samskipti inn í það far.

Kannski reynir aldrei aftur á þetta og kannski eru þetta óþörf ræðuhöld í sjálfu sér þess vegna. En mér finnst samt rétt og skylt, algerlega skylt, að Alþingi taki það mjög alvarlega sem það er að gera. Við skulum ekki, hv. þingmenn á Alþingi Íslendinga árið 2004, vera að gagnrýna höfunda stjórnarskrárinnar á sínum tíma fyrir að þeir hafi ekki vandað sig og það að ósekju en fara ekki rækilega yfir það sem við ætlum að gera og bera ábyrgð á og er sögulegt í þessu samhengi.

Kem ég þá, virðulegur forseti, að setningu stjórnarskrárinnar og árunum 1941--1944 og ætla ég að halda uppi nokkrum málsvörnum fyrir höfunda hennar, sem mér því miður finnst hafa verið hafðir fyrir rangri sök og bornir sökum sem er fullkomlega ómaklegt, þ.e. að þeir hafi ekki vandað vinnu sína og vitað algjörlega upp á hár hvað þeir voru að gera. Ég fullyrði að það var sómi að hvernig staðið var að vinnunni við undirbúning stofnunar lýðveldisins, sérstaklega eftir að milliþinganefndin var stækkuð og tveir fulltrúar úr öllum þingflokkum áttu sæti í henni. Það má vissulega deila um upphafið en það markaðist af mjög sérstökum aðstæðum í íslenskum stjórnmálum, eins og menn þekkja, á árunum 1941--1942, en með haustinu 1942 þegar milliþinganefndin var stækkuð og verkefni hennar skýrt enn betur með nýrri þál. í sept. 1942 tel ég að frá og með þeim tíma hafi það verið til fyrirmyndar hvernig menn stóðu að því að stofna lýðveldið.

Þá kem ég að því, frú forseti, vegna þess að --- ja, ætli ég leyfi mér ekki að segja að dínósárus hins íslenska blaðaheims hafi hér á dögunum gert mér þann heiður að kalla mig lærisvein Einars Olgeirssonar og Brynjólfs Bjarnasonar. Að því er mér auðvitað sérstakur heiður að vera nefndur í sömu andrá og þeir sómamenn, sérstaklega þegar málið snýr að stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, því að heiður skal þeim sem heiður ber og báðir þessir sómamenn áttu gildan og góðan hlut í því að stjórnarskrármálið fékk jafnfarsælan endi og raun ber vitni og að það tókst jafn vel til með stofnun lýðveldisins 17. júní 1944, eins og við erum vonandi öll sammála um að var.

Frú forseti. Eins og ég hef áður rakið var þetta þannig að á grundvelli þáltill. frá 1941 og í framhaldinu á árinu 1942 hefur fimm manna milliþinganefnd störf en í hana bætast síðan um haustið 1942 þrír þingmenn til viðbótar þeim sem fyrir voru, en það voru eins og kunnugt er hv. þingmenn Jónas Jónsson, Gísli Sveinsson, Hermann Jónasson, Bjarni Benediktsson og Stefán Jóhann Stefánsson. Þeir sem ganga til liðs við nefndina eru þeir tvímenningar Einar Olgeirsson og Áki Jakobsson og sá þriðji var annar fulltrúi frá Alþýðuflokknum, Haraldur Guðmundsson, í viðbót við Stefán Jóhann Stefánsson.

Þetta upphaf að ferlinu skiptir miklu máli, sérstaklega í einu samhengi sem borið hefur á góma undanfarið þar sem menn hafa beinlínis farið rangt með, misskilið eða opinberað vanþekkingu sína á þessu ferli. Talað er um í þeirri staðreynd að endurskoðun stjórnarskrárinnar í heild sinni var vissulega rædd á þeim tíma felist að vinnubrögðin hvað varðar breytingarnar vegna stofnunar lýðveldisins hafi verið óvönduð. Það er akkúrat gagnstætt og öfugt, og þeir menn sem halda slíku fram falla á prófinu. Þeir hafa annaðhvort ekki lesið gögnin, kannað málið eða þeir eru vísvistandi að reyna að telja fólki trú um að stjórnarskráin sé eitthvað lélegra plagg en ella væri. Það skiptir í sjálfu sér auðvitað engu máli. Stjórnarskrá er stjórnarskrá og gildir þangað til annað er ákveðið. Menn geta haft allar sínar skoðanir á ákvæðum hennar en hún gildir. Þess vegna er það í sjálfu sér algerlega ómarktæk viðbára þegar menn eru að væla undan því að það hafi staðið til að endurskoða stjórnarskrána og því verki hafi ekki verið lokið.

En hvernig var að því staðið á árabilinu 1942--1944? Það var þannig að strax 1942 tóku menn um það ákvörðun að verkefnið væri tvíþætt. Annars vegar að endurskoða þá þætti stjórnarskrárinnar sem óhjákvæmilegt var vegna stofnunar lýðveldisins og ákveðið hafði verið að væri heimilt með sérstakri aðferð, þeirri aðferð að láta þjóðina staðfesta breytingarnar en ekki þyrfti að rjúfa þing og kjósa í milli. Og hendur milliþinganefndarinnar voru að því leyti bundnar að hún átti að einskorða starf sitt að öðrum þræði við þetta.

En strax 1942 var líka sagt að hún skyldi huga að hefðbundinni endurskoðun stjórnarskrárinnar sem slíkrar sem gerð yrði með venjubundnum hætti. Verkefnið lagði því af stað tvískipt frá byrjun. Og þó að menn hafi áttað sig á því að þörf gæti verið á því að endurskoða stjórnarskrána sem slíka í heild sinni sannar það ekki að einhver flýtibragur hafi verið á því hvernig menn afgreiddu þá þætti sem tengdust stofnun lýðveldisins. Það sýnir einmitt hið gagnstæða, hversu skipulega og vel menn gengu til verks. Það var ekkert hálfkarað í því sem var ákveðið varðandi stofnun lýðveldisins að flytja valdið inn í landið og þar á meðal að hafa 26. gr. stjórnarskráinnar eins og hún er. Það verkefni var klárað, það var tæmt, það var útkljáð, greidd voru atkvæði um allan ágreining sem uppi var um það mál og því var lent. Og það er beinlínis rangt og byggir á vanþekkingu að grípa til þess í vandræðum sínum, eins og ríkisstjórnartalsmenn hafa því miður gert á undanförnum vikum, að það hafi jú alltaf staðið til að endurskoða stjórnarskrána og þetta sýni hvað það hafi verið nauðsynlegt.

Það snýst bara ekki um þetta mál. Gengið var frá því að forsetinn skyldi vera þjóðkjörinn og gengið var frá því að 26. gr. skyldi vera eins og hún er.

Ályktun Alþingis frá 8. sept. 1942 sýnir þetta með ljósum hætti, en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að milliþinganefnd sú sem kosin var samkvæmt þál. 22. maí 1942`` --- það er fimm manna nefndin sem síðar um sumarið stækkaði í átta --- ,,til þess að gera tillögur um breytingar á stjórnskipunarlögum ríkisins skuli halda áfram störfum til undirbúnings málum þeim sem unnt er að lögfesta með þeim hætti er segir í stjórnskipunarlagafrumvarpi því sem nú liggur fyrir Alþingi ...`` --- þ.e. með þjóðaratkvæðagreiðsluaðferðinni.

En síðan segir:

,,... svo og undirbúa aðrar breytingar á stjórnskipulaginu er þurfa þykir og gera verður á venjulegan hátt.``

Með öðrum orðum, milliþinganefndin hafði tvíþætt verkefni og það var 1942 en ekki 1944 sem það lá fyrir að svona yrði að þessu staðið. Bullið um að mönnum hafi legið svona mikið á til Þingvalla 1944 er því eitthvert það argasta bull sem ég hef bara heyrt og menn afhjúpa gríðarlega vanþekkingu á þessum málum.

Því miður held ég að ég verði nú, þrátt fyrir aðstæður og mér sé kunnugt um að hæstv. utanrrh. er fjarstaddur af gildum ástæðum, að leyfa mér að vitna í það sem hann sagði í viðtali við Spegilinn 1. júlí. Það er auðvitað ekki hægt að láta þessa hluti standa öðruvísi en að þeim sé mótmælt. Það verður að verja heiður þeirra manna sem þarna eiga í hlut og stóðu að setningu stjórnarskrárinnar á sínum tíma.

En þá sagði hæstv. utanrrh., með leyfi forseta, eftirfarandi:

,,En að mínu mati sannar þessi skýrsla`` --- verið er að tala um skýrslu vitringanna --- ,,það afskaplega vel að við verðum að fara í endurskoðun á stjórnarskránni að því er þetta mál varðar og ljúka því starfi sem hófst 1944.`` --- Það hófst ekki 1944, það hófst 1941. --- ,,Það virðist vera að þeir hafi ekki getað lokið því.`` --- Þeir luku því víst. --- ,,Það var ágreiningur um málið.`` --- Það er rétt en þeir útkljáðu hann. --- ,,Það vildu allir fara á Þingvöll 17. júní. Það að ljúka þessu var skilið eftir og Alþingi hefur aldrei klárað það.``

Þessi orð eru ómerk, þetta er bara alls ekki svona. Þeir kláruðu sitt verk með sóma, þeir sem stóðu að setningu stjórnarskrárinnar gerðu út um ágreininginn eins og menn, greiddu um hlutina atkvæði og gengu frá málinu þannig að það var kristaltært fyrir þeim hvernig þetta skyldi vera.

Skoðum aðeins sögu 26. gr. í gegnum þingið. Hún endaði eins og hún var í upphaflega frumvarpinu frá milliþinganefnd með málskotsréttinum og því sem þar tilheyrir í 2. og 3. mgr. 26. gr.

En neðri deild gerði í umfjöllun sinni um málið þá breytingu á frv., reyndar fyrst að forsetinn skyldi verða þjóðkjörinn, frv. kom með þeim ákvæðum að forsetinn væri þingkjörinn, en jafnframt gerði neðri deild þá breytingu að 2. og 3. málslið 26. gr. yrði breytt í þá veru að lagafrumvarp fengi ekki lagagildi synjaði forseti því staðfestingar. Það var afstaða Björns Þórðarsonar forsætisráðherra sem réð því og tillaga hans.

Í efdri deild hins vegar lagði stjórnarskrárnefndin til að 26. gr. yrði breytt á fyrri veg og með þeirri viðbót reyndar að lagafrumvarpið skyldi lagt fyrir forseta til staðfestingar eigi síðar en tveimur vikum eftir að Alþingi samþykkti það, og var skynsamlegt í ljósi þess sem kom á daginn í vor því að það kynni nú að hafa dregist enn lengur að menn færu yfir Skerjafjörð með fjölmiðlafrumvarpið ef ekki hefði verið þessi tveggja vikna regla sem efri deild setti inn á sínum tíma, þannig að ýmislegt sáu menn nú fyrir.

Þær brtt. samþykkti efri deild, að vísu aðeins með eins atkvæðis mun, 9 atkvæðum gegn 8, en hún er jafngild fyrir því. Það er alveg nóg að vinna fótboltaleik með einu marki. Stjórnarskrárfrumvarpið þurfti af þeim ástæðum að fara aftur til nýrrar umræðu í neðri deild. Þannig gengu hlutirnir fyrir sig þangað til 1991 að Alþingi var sameinað í eina málstofu, reyndar eru ekki margir hér sem tóku þátt í því.

[16:00]

Þá lá á nýjan leik fyrir þinginu brtt. forsrh. um að menn færu aftur með þetta í það far að synjun forseta þýddi að lagafrumvarp öðlaðist ekki lagagildi. En þá brá svo við að neðri deild tók sömu afstöðu til málsins og efri deild og lendingin varð nákvæmlega sú sem 26. gr. felur í sér enn þann dag í dag.

Þessu til viðbótar má nefna það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom reyndar inn á og ég get stytt mál mitt með því að vísa til þess hluta, að þetta verður enn skýrara þegar haft er í huga að tvær aðrar brtt. komu fram og vörðuðu 26. gr., þ.e. brtt. Jakobs Möllers um að forseti fengi algert neitunarvald og brtt. þeirra Jóns Pálmasonar og Jóhanns Jósefssonar --- tveggja ágætra sjálfstæðismanna, reyndar eru eða voru allir þessir menn þingmenn Sjálfstfl. ef ég veit rétt --- um að Alþingi væru heimil þau viðbrögð, ef forsetinn synjaði, að taka málið til sín aftur og þá dygði aukinn meiri hluti til þess að frv. fengi varanlegt lagagildi engu að síður þrátt fyrir synjun forseta. Ef tveir þriðju aukinn meiri hluti samþykkti málið á nýjan leik, eftir að forseti hefði synjað, þá fengi það lagagildi. Báðar þær tillögur voru felldar, þ.e. að forsetinn fengi algert synjunarvald eða að Alþingi mætti bregðast við með því að taka málið til sín.

Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að málið var sett í skýran farveg. Það var kristaltært hvernig menn vildu að lokum hafa þetta og gengu frá því. Það verður enn skýrara þegar vitnað er til umræðna sem urðu um þetta --- og ég fer nú að ljúka umfjöllun um þennan þátt málsins, frú forseti, en ég vona að mér fyrirgefist að ræða þetta vegna þess að mér finnst það skipta miklu máli.

Ætli ég leiði ekki fram til vitnis Brynjólf Bjarnason því að mér er til efs að aðrir menn hafi orðað þetta skýrar en hann gerði í tveimur ræðum einmitt þegar þetta atriði nákvæmlega var til umfjöllunar.

Brynjólfur Bjarnason sagði, með leyfi forseta, m.a. eftirfarandi:

,,Synjunarvald konungs samkvæmt núgildandi stjórnarskrá hefur í reynd orðið form eitt. Síðan 1918 hefur konungur aldrei neitað lögum um staðfestingu.

Allt öðru máli hlýtur að gegna þegar slíkt vald er fengið í hendur innlendum þjóðhöfðingja, vald, sem hann fær beint frá þjóðinni samkvæmt frjálsri ákvörðun þjóðarinnar sjálfrar.`` --- Og þá heyrum við að þjóðkjörið er komið inn í frumvarpið. --- ,,Forseti mundi undir öllum kringumstæðum telja sig hafa siðferðilegan rétt til að synja um staðfestingu laga ef hann teldi það málefnislega rétt og teldi sig hafa málefnalega afstöðu til þess. Ef synjunarvald forseta`` --- og taki menn nú eftir --- ,,væri það sama og synjunarvald konungs fengi hann raunverulega miklu meira vald en konungur hafði og vald þingsins yrði skert frá því sem nú er. Þess vegna hefur verið talið nauðsynlegt að breyta ákvæðinu um synjunarvaldið, þannig að lög öðlist gildi þótt forseti synji þeim um staðfestingu. En þá eru þau borin undir þjóðaratkvæði og falla þá úr gildi ef þeim er synjað. Synjunarvaldið er því með þeim hætti í raun og veru hjá þjóðinni. Forseti kemur aðeins fram sem umboðsmaður þjóðarinnar gagnvart þinginu og er það í fullu samræmi við það að hann er kosinn af þjóðinni, fer með umboð þjóðarinnar.``

Skýrara getur þetta ekki verið hvað fyrir mönnum vakir þarna.

Seinna segir Brynjólfur Bjarnason í umræðum áfram um sama atriði:

,,Þegar við nú, um leið og við flytjum æðsta valdið inn í landið og fáum það í hendur þjóðhöfðingja sem er kosinn af þjóðinni, setjum slík ákvæði inn í stjórnarskrá okkar að hann hafi synjunarvald, þá hljótum við að gera okkur grein fyrir því hvað við erum að gera. Erum við að setja hér upp eitthvert form sem hefur enga raunverulega þýðingu eða hefur þetta praktískt gildi fyrir stjórnskipulag okkar? Ég álít að svo framarlega sem þetta væri álitið aðeins form, að forseti eigi að staðfesta lög, þá væri forsetinn alveg þýðingarlaus og þá ætti forsetinn enginn að vera því að þá þyrfti alls engin staðfesting forseta að koma til. Þá gæti forsrh. alveg eins komið fram sem æðsti maður þjóðarinnar og undirskrifað lög frá Alþingi. En ég,`` segir Brynjólfur Bjarnason, ,,hugsa mér þetta ekki þannig að undirskrift forseta sé aðeins form,`` --- tökum eftir því að það er framsögumaður stjórnarskrárnefndar efri deildar sem talar --- ,,heldur sem raunverulegt vald. --- En vald í höndum hvers? --- Það er næsta spurningin. Ég hugsa mér þetta sem vald í höndum þjóðarinnar, þannig að það sem við erum að gera þegar við setjum þetta inn í stjórnarskrána, að lög þurfi staðfestingu forseta, sé það að við gefum umboðsmanni þjóðarinnar rétt til þess að skjóta málum undir úrskurð þjóðarinnar og afgreiðslu. Og frá þessu sjónarmiði er ekki til annað rökréttara fyrirkomulag en það sem stjórnarskrárnefndin leggur til, sem sé, að lög sem Alþingi samþykkir séu í gildi þangað til úr því hefur verið skorið við þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þau skuli vera í gildi [þ.e. til frambúðar] --- ef forseti hefur synjað um staðfestingu --- og þau séu þannig afgreidd frá þeim eina dómstóli sem er viðurkenndur í þeim efnum, dómstóli þjóðarinnar. Ef Alþingi hefur notað umboð sitt sem það hefur fengið frá þjóðinni á annan veg en þjóðin hefur ætlast til, þá kemur það í ljós við þá atkvæðagreiðslu.``

Er það ekki? Er þetta nú ekki alveg kristaltært og skýrt, þegar framsögumaður stjórnarskrárnefndar efri deildar útskýrir málið svona? Því er ekki mótmælt og neðri deild fellst síðan á tillögu efri deildar og málinu lýkur þannig.

Það er reyndar fleira sem er ákaflega athyglisvert sem kemur fram í þessum umræðum. Ég held ég hljóti að minna á að það voru auðvitað sérstakar aðstæður uppi sem gerðu það að verkum að stjórnarskrárvinnan fór fram eins og raun bar vitni, og sennilega var það gæfa fyrir lýðveldisstofnunina, svo ótrúlega sem það nú hljómar, að það sat utanþingsstjórn. Af hverju? Jú, vegna þess að þingið var alveg frjálst. Það hafði ekki á herðum sér ríkisstjórn sem bar ábyrgð á því og var að reyna að troða sínum vilja fram í gegnum þingið. Það var nefnilega kosturinn þrátt fyrir allt að þingið gat sameinast og var frjálst, það var ekki í neinum viðjum vegna þess að þá sat embættismannastjórn. Þetta voru mjög sérstakar aðstæður. Fyrir því má færa gild rök að á vissan hátt hafi það auðveldað stjórnarskrárvinnuna og stofnun lýðveldisins að svona sérstaklega stóð á.

Um þetta má lesa í ágætri grein í tímaritinu Rétti, 73. árgangi þess merka rits sem kom út 1993 og Svavar nokkur Gestsson, fyrrv. þingmaður og ráðherra og nú ambassador í Svíþjóð, í því ágæta ríki, skrifaði. Það er afar fróðlegt að fara yfir þær rannsóknir sem Svavar gerði á tildrögum stjórnarskrárvinnunnar og þætti Einars Olgeirssonar sérstaklega í því sambandi. Ég hvet áhugamenn um þessi mál að lesa þetta sér til gamans.

Sama má segja um ágætar greinar Sigurðar Líndals, prófessor emeritus í háskólanum, sem hefur a.m.k. tvisvar sinnum og nú nýlega í Skírni skrifað afar upplýsandi greinar sem þessu tengjast. Það er margt fróðlegt í þessu sem væri gaman að rifja hér upp. Mér finnst nú alveg sérstaklega að sjálfstæðismenn ættu að halda um þetta ráðstefnu því að þeim kemur nú málið aldeilis við. Það er t.d. þannig að Gunnar Thoroddsen, fyrrv. hæstv. forsrh., flutti brtt. um að 1. málsliður 2. gr. stjórnarskrárinnar orðaðist eins og raun ber vitni, það var nú enginn annar en prófessorinn og lögfræðingurinn. ,,Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarrvaldið.`` Það er ekki samsæri runnið undan rifjum einhverra óvandaðra manna á seinni tíð, það var Gunnar Thoroddsen sem lagði þetta til.

Ég held ég leyfi mér líka að segja og tek þar undir með greinarhöfundinum sem ég nefndi áðan í Rétti, að að öllum öðrum mönnum ólöstuðum sé óhætt að nefna þrjá menn sem hafi átt mestan þátt í niðurstöðu stjórnarskrármálsins og lagt mest af mörkum. Auðvitað á kannski ekki að vera að gera þetta en ég leyfi mér þó að vera sammála Svavari Gestssyni um að þeir Bjarni Benediktsson, Eysteinn Jónsson og Einar Olgeirsson hafi átt einna drýgstan hlut að því verki. Og það er merkilegt og skemmtilegt að þeir, þessir ágætu sómamenn, hverjir Morgunblaðið taldi að ég hefði sérstaklega verið í læri hjá, Brynjólfur Bjarnason og Einar Olgeirsson, voru báðir mjög virkir í þessu, sem og Áki Jakobsson, sem sat í milliþinganefndinni. Þannig var jú að Einar Olgeirsson, nafni og frændi þess Einars K. Guðfinnssonar sem hér situr, var ritari samvinnunefndarinanar. Ég er t.d. með ljósrit af fundargerð sem hann skrifar undir ásamt Gísla Sveinssyni, formanni nefndarinnar.

Brynjólfur Bjarnason var formaður stjórnarskrárnefndar efri deildar. Og hver haldið þið nú að hafi verið ritari hjá honum, hvað haldið þið að hann hafi heitið? Bjarni Benediktsson, alnafni og frændi þess Bjarna Bendiktssonar sem hér situr í dag. Þetta er nú skemmtilegt. Bjarni Benediktsson, síðar forsrh., var ritari hjá Brynjólfi Bjarnasyni í stjórnarskrárnefnd efri deildar. Og því hefur verið haldið fram að þau bönd sem bundust milli þeirra fjórmenninga, Einars Olgeirssonar, Brynjólfs Bjarnasonar, Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar í stjórnarskrárvinnunni 1942--1944 hafi lagt grunninn að myndun nýsköpunarstjórnarinnar, þannig að ýmislegt getur nú upp úr slíku samstarfi hafist ef þroskaðir menn eiga í hlut.

Ég ætla að ljúka þessu á tvennu sem snýr að stjórnarskránni, frú forseti. Það er í fyrra lagi að vitna í þann ágæta mann Björn Þórðarson. Ég hef þá tilfinningu að hlutur hans hafi ekki alltaf fengið sanngjarna meðferð í seinni tíma umfjöllun stjórnmálamanna einfaldlega vegna þess að utanþingsstjórnin var ákaflega óvinsæl af þingmönnum, það var ekkert sérstaklega hlýlega um hana talað og þess galt sá ágæti sómamaður. En hann vissi nú lengra nefi sínu og til marks um það ætla ég að vitna í hann með eftirfarandi hætti.

Hann var þeirrar skoðunar eins og við munum, og það er nauðsynlegt til skilnings á þessu, að forsetinn ætti að hafa að nokkru leyti aðra stöðu en niðurstaðan varð, þ.e. að lögin ættu ekki að öðlast gildi ef forsetinn synjaði þeim fyrr en þá að þjóðin hefði aftur samþykkt þau, og flutti ítrekað brtt. eins og áður sagði.

Hann er hér í raun að andæfa því fyrirkomulagi sem engu að síður varð niðurstaðan þegar hann segir, með leyfi forseta:

,,Það er ekki um synjunarvald forseta að ræða hér, heldur er það þjóðin,`` --- aftur þetta sama sem Brynjólfur rökstuddi svo ágætlega --- ,,sem segir til um það hvort lög eigi að hafa framtíðargildi eða ekki.

Það er svo fyrir mælt`` --- og takið nú eftir því hvað þetta er á fallegri íslensku --- ,,að lög skuli lögð fyrir þjóðina svo fljótt sem auðið er. Þetta er vel mælt. En ég hygg að forseti hafi ekkert vald til að ákveða hér um, og ef ríkisstjórn er samtaka um að vera ekki fljót til í þessu efni, þá mun Alþingi ekki sjá ástæðu til að skipta sér af því.``

Sem sagt, þessi gáfaði maður sá fyrir sér að þær aðstæður gætu komið upp að þó að forsetinn beitti málskotsréttinum og sendi málið af stað til þjóðarinnar þá væri sá hængur á að forsetinn hefur ekki framkvæmdarvald, hann er ekki í stöðu til að tryggja það að kosningin fari fram. Um það á hann aftur undir ríkisstjórnina og þá þingið hvers frumvarpi hann hefur synjað. Og það er alveg bersýnilegt að forsrh. er þarna að velta því fyrir sér á sínum tíma: Getur hugsast að sú staða komi upp að við slíkar aðstæður verði kannski einhvern tíma í landinu ríkisstjórn sem dragi lappirnar, sem þvælist fyrir, sem sinni ekki þeirri skyldu að tryggja að kosningin fari fram?

Hann sá rétt fyrir, því að það er nefnilega nákvæmlega það sem gerðist, en að vísu ekki fyrr en 2004, þannig að nokkuð langt fram í tímann sá sá glöggi maður.

[16:15]

Til að botna þetta segir hann reyndar áfram sem tengist þessu með synjunarvaldið: ,,Það er misskilningur hjá hv. 2. þm. S-Múlasýslu að um synjunarvald sé að ræða hjá forseta. Það er þjóðin sem fer með það. Það er því aðeins formsatriði, þegar talað er um að löggjafarvaldið sé hjá Alþingi og forseta, að þessir aðilar fari saman með löggjöfina. Og ég vil taka það fram að ég álít að í stjórnarskránni eigi ekkert að vera sem ekki hefur fullt gildi.`` Enda var Björn þeirrar skoðunar að í raun og veru ætti þá að umorða 2. gr. ef niðurstaðan yrði sú sem raun ber vitni í 26. gr. og það væri á margan hátt rökréttara að í 2. gr. stæði: Alþingi og þjóðin fara saman með löggjafarvaldið fyrir milligöngu forsetans.

Að síðustu ætla ég að leyfa mér aðeins að létta þetta með því að vitna í Einar Olgeirsson, frú forseti, og veit ég að það gleður ýmsa en hryggir um leið aðra vegna þess að ég neyðist þá til að rifja það upp að Alþýðuflokkurinn var í miklum hnút í umræddu máli eins og kunnugt er og var í hinum mestu vandræðum svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Einar Olgeirsson hafði gaman af því að grínast svolítið skulum við segja við talsmann Alþýðuflokksins í málinu, hv. 4. þm. Reykv. minnir mig, Stefán Jóhann Stefánsson. Hann skildi ekki alveg þessa pólitík Alþýðuflokksins, það gekk mörgum oft illa að skilja pólitík Alþýðuflokksins, bæði fyrr og síðar, sem þeir kölluðu ef ég man rétt lögskilnaðaraðferðina. Þeir vildu ekki gera þetta, sögðu þeir, vegna þess að kóngsi væri tepptur í Kaupmannahöfn út af stríðinu og það væri ekki hægt að ræða málið við hann. Þeir vildu sem sagt helst semja við kónginn um að hann sleppti völdum. Þannig blasti þetta við Einari Olgeirssyni. Þeir töluðu jafnvel um að þetta væri eiginlega bylting, menn væru næstum því að gera byltingu ef þeir stofnuðu lýðveldi án þess að spyrja kónginn. Einar Olgeirsson segir um þetta, með leyfi forseta:

,,Mér er sem ég sjái hv. 4. þm. Reykv. vakna við vondan draum eina nótt til meðvitundar um að hann sé að taka þátt í byltingu og að þá hafi hann hrokkið frá því sem hann hafði verið með 1940 og 1941. Eftir því sem mér hefur heyrst, þá vill hann að sú aðferð sé höfð að konungur sé spurður hvort hann vilji ekki segja af sér, en ef hann vilji ekki gera það, þá verði hann settur af samt, --- og það með lagakrók!`` --- Þetta er nú skemmtilegt. --- ,,Og lagakrókurinn á víst að vera sá að skv. 5. gr. stjórnarskrárinnar getur hann ekki verið konungur án samþykkis þjóðarinnar. Ég gæti trúað að það væri lagakrókurinn sem ætti að fella hann á, að þeir [þ.e. kratarnir] kæmu til hans og segðu sem svo: ,,Heyrðu, góði. Við erum komnir til að spyrja þig hvort þú viljir ekki segja af þér, en ef þú vilt ekki gera það, þá setjum við þig af hvort sem er``.``

Ákaflega hefði verið gaman að vera fluga á vegg og fá að hlusta á þessar skemmtilegu umræður á sínum tíma. Menn gátu jafnvel slegið á létta strengi þó að stórmál væri undir eins og þetta sýnir.

Frú forseti. Af framhaldi þessa máls sem tekur enda á þessu sumarþingi, --- það er komið sumar, mér fannst hv. þm. Össur Skarphéðinsson tala eða hann tók þannig til orða í ræðu sinni að hann hefði sagt eitthvað fyrr í vetur, en þó tíminn hafi liðið hratt er það engu að síður svo að það er komið sumar. Um það vil ég aðeins segja að við fögnum því að sjálfsögðu, við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og ég hygg öll stjórnarandstaðan og örugglega öll þjóðin ef menn taka sönsum í þessum efnum.

Málið er í rauninni að komast aftur á byrjunarreit eftir 7--8 mánaða vegferð. Ég vona svo sannarlega að af þessu kennslubókardæmi í því hvernig ekki á að gera hlutina læri menn og dragi réttar ályktanir og setji af stað vandaða þverpólitíska vinnu og faglega með þátttöku allra þeirra sem eitthvað gilt og gott hafa fram að færa í þessum efnum, vandi sig í því verki, skoði málið í heild sinni og gefi sér til þess þann tíma sem þarf. Látum bara nefndarálit meiri hlutans gleymast og einhverjar hugmyndir um að menn eigi aftur að fara út í sömu vitleysuna, að rjúka í einhverju óðagoti í þetta verk og setja sér fullkomlega óraunhæf markmið t.d. um að vera tilbúnir með eitthvað fyrir upphaf þings í haust. Slíkt eiga menn ekki að ákveða fyrir fram. Ég bið um að menn verði ekki með miklar yfirlýsingar áður en vinnan hefst sem munu ekkert gera annað en þvælast fyrir mönnum. Fjölmiðlar eru að reyna að króa menn af og spyrja: Getur þú hugsað þér 10% í þessu eða hinu? Hvað hefur það upp á sig áður en svo mikið sem vinnan er hafin ef við ætlum virkilega að setjast niður við þetta og vanda okkur? Tökum til fyrirmyndar hvernig unnið var að endurskoðun stjórnarskrárinnar og stofnun lýðveldisins 1944. Það var til fyrirmyndar. Þá eiga menn auðvitað að setjast niður við hreint borð og án skilyrða, án einhverra fyrirframskilyrða um hvað þeir hugsi sér að fá út úr hlutunum. Það gerir ekkert annað en þvælast fyrir mönnum í slíku starfi ef menn eru með miklar og sverar yfirlýsingar um að þeir telji að þetta eigi að vera svona eða á hinn veginn. Með þessu er ég ekki að meina að flokkarnir og talsmenn þeirra eigi ekki að koma vel nestaðir og halda til haga áherslum sínum og þær liggi fyrir. Að sjálfsögðu ekki. En það er ekki gæfulegt að króa sig af í einhverjum miklum og sverum yfirlýsingum um að menn telji að þetta eigi að vera svona eða hinsegin og þetta eigi þeir að fá út úr starfinu en ekki eitthvað annað eða því eigi að ljúka á þessum tíma en ekki einhverjum öðrum.

Til að nefna hins vegar það sem ég og við teljum að þurfi að vera þarna undir ásamt með öllu öðru sem málið varðar, nefni ég að sjálfsögðu stöðu Ríkisútvarpsins. Á það höfum við lagt mikla áherslu. Ég nefni stjórnsýslu þessara mála sem þegar er orðið viðurkennt að var auðvitað í molum samanber breytingarnar sem nú er verið að leggja til og búið er í rauninni að gera á útvarpsréttarnefnd. Þar hafa menn bara áttað sig á því að þeir sátu uppi með forneskju sem var alls ekki í samræmi við þau viðhorf sem nú ríkja í þessum efnum. Því er verið að velja þá leið að skipa útvarpsréttarnefnd að tveimur þriðju hlutum til samkvæmt tilnefningu frá Hæstarétti. Auðvitað þarf að skoða og kortleggja vel allt starfsumhverfi fjölmiðlunarinnar, ekki bara ljósvaka og dagblöð. Líka tímarit og net- og vefmiðla og allt hvað er. Að sjálfsögðu þarf að fara yfir þetta með eignarhaldið og gagnsæi og upplýsingar um það. Hvernig tryggja menn fjölbreytni í þessum efnum sem best, hvað er raunhæft á okkar litla markaði? Að sjálfsögðu þarf að huga að því að hvaða marki er hægt að ná markmiðum fram, m.a. og væntanlega ekki eingöngu, ákvæði sem eiga að tryggja sjálfstæði ritstjórna svo langt sem það nær gagnvart eigendunum. Síðast en ekki síst þarf að skoða mjög rækilega þá nýju tækni og þróun sem er á þessu sviði. Ef menn gera það ekki standa út undan kannski helstu vaxtarbroddar fjölmiðlunar á komandi árum. Er það gæfulegt að festa sig í því fari að glíma eingöngu við hlutina eins og þeir kannski voru? Menn eru óðum að breytast. Það þarf að fara yfir tilmæli Evrópuráðsins, skoða ákvæði mannréttindasáttmála og allt þetta.

Eitt ætla ég, frú forseti, að nota tækifærið til að leiðrétta hér. Ég var að hugsa um að nenna því ekki en fór þá að hugsa um að það væri auðvitað leti og slóðaskapur að sjá ekki til þess að rétt sé rétt. Það er vegna þess að ranglega hefur verið vitnað í ummæli mín aftur og aftur af mörgum ágætum mönnum. Þannig hafa hæstv. forsrh., formaður þingflokks Sjálfstfl., Einar K. Guðfinnsson, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og hv. þm. Ásta Möller öll vitnað ranglega í afstöðu mína í þessu máli eða ummæli sem ég viðhafði í ræðu 3. maí sl. og það er dapurlegt, það er leiðinlegt. Það er meira að segja svo kostulegt að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spanderar á þetta heilli blaðagrein, birti úrklippu af ræðu minni og þar kom fram að hann var að vitna ranglega í mín orð, örugglega óviljandi. Örugglega er þetta misskilningur sem einhvers staðar hefur sprottið og gengur síðan aftur og aftur og þannig fer þetta nú. Ef ein fjöður fer af stað í golunni er ómögulegt að vita hvað gerist.

Síðast í gær, ég held að það hafi verið á tröppum Stjórnarráðsins, en þar hefur verið mikil trafík út af þessu máli undanfarið, þá sagði hæstv. forsrh. að með breytingum og aftur breytingum væri svo komið í því frv. sem nú á að vísu að henda að búið væri að koma 100% til móts við Steingrím J. Sigfússon með því að leyfa allt að 10% eignarhlut markaðsráðandi fyrirtækja í ljósvaka. Um það hef ég aldrei talað. Það er misskilningur. Ég var að tala um annan hlut. Auðvitað skiptir þetta ekki miklu máli en það er samt þannig, er það ekki frú forseti? að rétt skuli vera rétt. Ég fer ekki fram á neina afsökunarbeiðni frá þessum ágætu mönnum. En til að hafa þetta algerlega á hreinu ætla ég að lesa upp hvað ég sagði og verður þá þessu vonandi aldrei aftur fram haldið að með þessu hafi menn verið alveg sérstaklega að leggja á sig að koma til móts við mig. Mér þykir að vísu alltaf vænt um það ef menn vilja koma til móts við mig en þeir þurfa þá helst að vita hvað ég vil og um hvað ég er að tala.

Ég var vissulega að ræða fyrr í tölu minni um hvort ekki væri ansi langt gengið að ætla að banna markaðsráðandi fyrirtæki algerlega að eiga í ljósvakamiðli. Þannig var hið upphaflega stjórnarfrv., ekki satt? En ég ræddi síðan í framhaldinu líka það hvort ekki væri sömuleiðis mjög harkalegt að hafa algeran eldvegg milli eignarhalds á ljósvakamiðlum og blöðum. Þá sagði ég, með leyfi forseta:

,,Hið sama gildir um að fyrirtæki eða fyrirtækjasamsteypa sem tengist starfsemi á sviði ljósvakamiðla megi ekki eiga eina einustu krónu í útgefanda dagblaðs.`` Ég er sem sagt að ræða um krosseignarhaldið milli ljósvaka og dagblaða og það er allt annar hlutur en spurningin um 10%, 5% eða 0% eignarhlut markaðsráðandi fyrirtækis í ljósvaka. Átta menn sig ekki á því? Og ég sagði, með leyfi forseta:

,,Er ástæða til þess að ganga svo langt, jafnvel með fullri virðingu fyrir því sem var alveg gilt sjónarmið að skoða, að halda dreifðri eignaraðild? Hvað með að nota þar ákvæði laga um fjármálastofnanir, að þar séu mörkin dregin við virkan eignarhlut? Það mætti þess vegna nota sömu skilgreiningu og þar er, með leyfi forseta, þ.e. að ,,með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi`` fyrirtæki. Með öðrum orðum, mætti ljósvakafyrirtæki aldrei hafa veruleg áhrif á stjórnun hins fyrirtækisins, ...`` þ.e. dagblaðafyrirtækisins. Það á því ekki að þurfa að misskilja það hvað ég var að tala um. Þetta er alveg skýrt. En á einhvern hátt hefur mönnum tekist að gera það og síðan étur hver tugguna upp eftir öðrum þannig að í tilraunum til andsvara við 1. umr. þessa máls og í fjölmiðlum og víðar hafa menn sem sagt eignað mér það að ég hafi alveg sérstaklega krafist þess að markaðsráðandi fyrirtæki mætti eiga allt að 10% í ljósvakamiðlum. Ég nefndi aldrei neina prósentu í því sambandi. Ég ræddi hins vegar krosseignarhaldið milli dagblaða og ljósvaka og nefndi það sem dæmi um mögulega viðmiðun. Ég var ekkert að halda því fram að það væri afstaða mín eða stefna. En ég nefndi það sem möguleika að menn gætu skoðað það. Er þá þessi misskilningur vonandi út úr heiminum, frú forseti.

Eins og ég áður sagði um framhald málsins vona ég svo sannarlega að menn beri gæfu til að leggja frá sér vopnin og menn átti sig á að það er aðeins ein leið möguleg í framhaldinu ef eitthvert vit á að vera í hlutunum. Það á ekki að vera hægt að bjóða þjóðinni, vil ég leyfa mér að segja, upp á nema eitt. Það er að menn vandi sig og standi sómasamlega að þessu í framhaldinu. Nóg er samt. Þjóðin á betra skilið en það sem henni hefur verið boðið sl. 100 daga eða 7--8 mánuði, hvort sem við veljum frekar. Þess vegna er auðvitað heldur lakara að hafa þessar klausur í nefndaráliti meiri hlutans en við skulum bara gleyma þeim og aldrei minnast á þær meir. Vonandi bera menn gæfu til þess að átta sig á því að auðvitað eru allir óbundnir af því þó að menn séu með einhverjar yfirlýsingar þar. Út af fyrir sig mega þeir fimm þingmenn halda fram hverju sem þeim sýnist í nefndarálitum sínum. Þeir geta þess vegna tekið fram að þeir séu stuðningsmenn Liverpool ef þá langar til, en það hefur ekki mikið gildi varðandi lagasetninguna. (HBl: Það er úrelt að vera í Liverpool.) Það eru nú einhverjir enn þá samt, hv. þm. Halldór Blöndal.

Ég ætla eins og ég sagði ekki að fara að elta ólar við að vitna í ummæli manna, hvorki um snilldina né brelluleiðina eða hvað það nú var. Það væri þá frekar til gamans t.d. að rifja það upp að varaformaður Framsfl., hæstv. landbrh., sem oft er stórfyndinn maður, grípur oft til þeirra samlíkinga að eitthvað sé skylt við snilldarákvörðunina um kristnitökuna. Muna menn það ekki? Hann mun hafa sagt einhvern tíma að nú stæði hann frammi fyrir erfiðustu ákvörðun sem nokkur Íslendingur hefði tekið síðan Snorri goði lá undir feldinum forðum. Það var spurningin um hvort hann ætti að hleypa norskum kúm inn í landið, sem var sem sagt alveg á sama plani og ákvörðunin mikla um kristnitökuna.

[16:30]

Um daginn greip hæstv. landbrh. einmitt aftur til þeirrar líkingar. Hann líkti brellufrumvarpinu svona nokkurn veginn við snilldina, var það ekki? kristnitökuna, þegar Snorri kvað upp úr um það að Íslendingar skyldu vera (Gripið fram í: Þorgeir.) Þorgeir, þegar Þorgeir kvað upp úr um það að Íslendingar skyldu vera kristnir en mættu samt blóta á laun, og var auðvitað mikil snilld.

En eitt verð ég þó að segja, mér þykir auðvitað miður að verða að gera það við þessar aðstæður, og það er að mér fannst ákaflega dapurlegt sem ég heyrði í útvarpsfréttunum í gær eftir ríkisstjórnarfund ef menn ætla virkilega að reyna að halda áfram þeim ummælum t.d. að forseti lýðveldisins hafi ráðist sérstaklega á Alþingi. Eða að halda því fram að gjörvöll stjórnarandstaðan lúti fyrirmælum frá einu fyrirtæki úti í bæ, hringi þangað og fái afstöðu sína í gegnum símann. (HBl: Þau eru kannski tvö.) Þetta er svoleiðis fyrir neðan allar hellur, herra forseti, að það væri gaman að spyrja þingreynda menn og þá sem setið hafa á forsetastóli á Alþingi: Ja, hvað hefði nú myndugur forseti gert ef þessi ummæli hefðu fallið hér? Hefði verið hjá því komist að víta þau? Eru þetta ekki svo gjörsamlega vítaverð ummæli að í þessu tilviki var það þeim sem þau viðhafði til happs að hann var ekki í ræðustól Alþingis, þ.e. að því tilskildu að þar væri þá röggsamur forseti við störf? En þetta er of dapurlegt til að dvelja lengur við, virðulegur forseti.

Ég vil einnig segja um stjórnarskrárendurskoðunarhugmyndir í raun og veru nákvæmlega það sama og ég segi um fjölmiðlaþáttinn: Ég vona svo sannarlega að menn sömuleiðis þar vandi sig, að menn nálgist það af mikilli ábyrgð. Nú hef ég auðvitað engan heyrt halda öðru fram en því að órofa hefð verði í heiðri höfð, þ.e. að að því verki setjist fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna. Og þeir hljóta sömuleiðis að setjast að hreinu borði og þeir hljóta að ganga til þeirrar vinnu algerlega óbundnir af hvaða skilyrðum sem vera kynni. Það kemur auðvitað ekki til greina, ef menn fara að hugsa málið, að ætla að fara að stýra því eitthvað fyrir fram eða beina mönnum í það að þeir eigi eingöngu að hugsa um 26. gr. eða eitthvað annað. Ég get alveg fallist á það verklag að menn taki fyrir tilskilda kafla og klári þá sem samhengi er í, en ekki að menn gangi til þess með einhverjum fyrirframskilyrðum, það gengur ekki upp. Það er ekki ávísun á neitt annað en ófarir í slíkri vinnu. Menn verða að fá, þeir sem í það vandasama verk fara, að setjast niður óbundnir og með hreint borð og gefa sér ekkert um niðurstöðuna fyrir fram.

Það er stundum sagt, forseti, góður, að framvinda sögunnar sé ekki jöfn og línuleg og það er nokkuð til í því. Framvinda sögunnar er miklu meira í stökkum. (ÖS: Það sagði Einar Olgeirsson.) Já, akkúrat. Það er nefnilega þannig að allt í einu fara hlutirnir á hreyfingu. Það er dálítið skylt með stjórnmálunum og jarðfræðinni, það vill svo til að ég veit dálítið um hana. Það er nefnilega líka svo í jarðfræðinni, að t.d. spenna í jarðskorpunni losnar ekki bara út jafnt og þétt, hún leysist í stökkum eins og menn þekkja, og kallast jarðskjálftar. Segja má að það sé nokkuð svipað í stjórnmálunum. Allt í einu fara hlutirnir á hreyfingu, allt í einu fer eitthvað að gerast. Nú er eitthvað farið að gerast og mér segir svo hugur um, virðulegur forseti, að við séum miklu frekar stödd við upphafið á heilmiklum pólitískum tíðindum sem verða rakin þegar frá líður til þeirra atburða sem hér hafa verið uppi í landinu í stjórnmálunum sl. 100 daga eða 7--8 mánuði.