Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 16:34:50 (9549)

2004-07-21 16:34:50# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[16:34]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kveinkar sér undan ummælum í meirihlutaáliti um stjórnarandstöðuna. Mér finnst það dálítið undarlegt og ég spyr hann hvort samræmi sé í því að nánast öll byrjunin eða fyrstu tvær síðurnar í nál. minni hlutans fjalla um ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann o.s.frv., talað um 100 daga stríð og brellur ríkisstjórnarinnar og atlögu að 26. gr. Er samræmi í þeim málflutningi? Svo er örstutt í nál. meiri hlutans um minni hlutann.

Hv. þm. talaði mjög gáfulega um að sagan gerist í stökkum og ég er sammála því --- og það varð jarðskjálfti 2. júní. Ég ætla að spyrja hv. þm. hvort hann telji að ákvæði 26. gr. sem ekki var notað í 60 ár verði nú virkara, og hvort hv. þm. telji að forseti lýðveldisins hafi aukið völd sín með því að skrifa ekki undir og hvort embættið sé orðið pólitískt og í næstu kosningum verði það stjórnmálaflokkar sem bjóði fram.